Skrifum sögur fyrir afkomendur

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

“Afi, þú ert alltaf að segja sögur. Sögurnar eru margar svo skemmtilegar. Svo eru þær svo lærdómsríkar,” sagði Valur Kári Óskarsson 10 ára sonarsonur minn nýlega þegar afi hafði lokið enn einni reynslusögunni áður en barnabörnin sem gistu hjá ömmu og afa svifu inn í draumalandið. Sögur eru börnum sem fullorðnum eftirminnilegar.

Flest okkar horfa með eftirsjá til glataðra minninga þegar foreldrar okkar eru horfnir á braut. Við hugsum oft um þær spurningar sem við hefðum viljað leggja fyrir foreldra okkar um líf þeirra eða jafnvel líf foreldra þeirra. Sjálfur hefði ég viljað hafa spurt föður minn Þorvald Ellert Ásmundsson um margt í lífshlaupi hans. Hann lést 56 ára gamall þegar ég var 21 árs. Hann var harðsækinn skipstjóri og síðar útgerðarmaður ásamt tveimur félögum sínum á Akranesi. Því var það einn dag að ég sagði við móður mína Aðalbjörgu Bjarnadóttur þegar við vorum í fjölskylduheimsókn hjá henni á Akranesi og ræddum m.a. um mikilvægi varðveislu minninga fyrir komandi kynslóðir. “Mamma, þú hefur svo góða frásagnarhæfileika og átt svo auðvelt með að skrifa. Af hverju skrifar þú ekki niður minningar úr lífi þínu. Þú hefur nú góðan tíma til þess.” Móðir mín gaf ekkert út á það. Hún var fædd 1910 og lést skyndilega árið 1985 þá 75 ára gömul. Þegar við systkinin losuðum íbúð hennar kom í ljós lítill pappakassi fullur af handskrifuðum blöðum. Handskrifuðu blöðin voru minningar móður minnar frá uppvexti hennar á Kirkjubóli í Dýrafirði og fram yfir þann tíma þegar hún flutti til Akraness um 1930 og faðir minn og hún stofnuðu heimili. Efst í kassanum voru skilaboð þar sem móðir mín sagðist hafa skrifað þessar frásagnir að mínu frumkvæði. Minningar þessar væru eingöngu ætlaðar fyrir afkomendur og mætti ekki birta opinberlega. Við lestur þessa handrits kom í ljós hvílíkur fjársjóður þessi skrif eru fyrir afkomendurna. Lífsbaráttan í torfbænum á Kirkjubóli eins og á mörgum bæjum á Vestfjörðum og víðar var ekki auðveld á þessum árum. Afar ánægjulegt var að lesa hve mikil lífsgleði var á heimilinu þrátt fyrir erfið lífskjör. Auðveldara var að skilja margt í uppvextinum sem hafði mótandi áhrif á lífsviðhorf móður minnar.

Ég hef oft hugsað um hve mikils virði það er fyrir afkomendur að fá skriflegar frásagnir úr lífi þeirra sem á undan okkur eru farnir. Ég er ekki að tala um ævisögu heldur frásagnir af einstökum eftirminnilegum atburðum bæði gleðilegum og sorglegum. Þessir atburðir hafa margir hverjir haft mótandi áhrif á líf okkar. Þessi atvik og reynsla eru í okkar eigin huga hversdagsleg en þau eru það ekki fyrir afkomendurna eins og skrif móður minnar sýna. Nú þegar eldri borgarar hafa meiri frítíma til ráðstöfunar og jafnvel vantar verkefni af hverju ekki að skrifa niður frásagnir úr lífsgöngunni fyrir afkomendur. Þeir sem ráða fyrir tölvuþekkingu geta skrifað texta á tölvu aðrir geta handskrifað frásagnir sínar. Ég er sannfærður um að slíkar frásagnir í fallegu umslagi sem jólagjöf eða afmælisgjöf til afkomenda mun ekki síður gleðja en t.d. bókagjöf. Hægt er að bæta við í slík skrif með tímanum. Frásagnirnar munu líka lifa okkur meðal komandi kynslóða. “Mikið er skemmtilegt að lesa frásagnir ömmu og afa og svo eru þær svo reynsluríkar,” munu afkomendur okkar segja.

 

 

 

 

Þráinn Þorvaldsson desember 1, 2014 15:00