Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Ég hélt að ég væri fyrir löngu búin að missa hæfileikann til þess að hlakka til. Jólin bara koma og fara og utanlandsferðirnar gera slíkt hið sama. En nú hefur annað komið í ljós. Ég á pantaðan tíma í klippingu á morgun og get hreinlega ekki beðið. Þetta verður upphaf nýrrar tilveru. Ég hlakka mikið til þess að setjast í stólinn og fá kaffi og lit. Ólygin sagði mér að nú væri engin tímarit lengur í boði vegna smithættu svo ég mun mæta með bókina mína.
Ég talaði við tvær vinkonur mínar í gær. Önnur sagðist geta farið að flétta á sér hárið en hin sagðist vera hætt að nota ullarhúfuna inni. Hún væri orðin of heit. Nú notaði hún gamla alpahúfu í staðinn. Mitt ráð í hárkreppunni hefur verið að greiða mér fyrst og setja svo upp gleraugun og líta ekki í spegil það sem eftir lifir dags. Sú með húfuna á pantaða klippingu í dag. Hin ekki fyrr en í lok mánaðarins. Aumingja hún.
Á meðan stranga samkomubannið stóð enn var ég farin að skoða hárvöxt fólks sérstaklega. Við vorum í Kringlunni á dögunum og sáum þar tvo unga menn fara niður rúllustigann, svona líka flottir til höfuðsins. Í kjölfarið fylgdu líflegar en gagnrýnar umræður um hvort skapast hefði neðanjarðarklippiþjónusta á banntímanum sem þyrfti að kæra til lögreglu. Við berum öll ábyrgð.
Já, að kæra til lögreglu. Einmana barþjónn með sex gesti lenti í lögreglunni í gær og fyllti í kjölfarið fréttatímana heilan morgun. Hann verður örugglega sektaður. Minna fór fyrir fréttum af feitu fyrirtækjunum sem hafa verið að nýta hlutabótaleiðina til þess að þurfa ekki að rýra arðgreiðslur hlutahafanna. Fyrirtæki sem ég hef borið ómælda virðingu fyrir eru lent í ruslflokki hjá mér fyrir vikið og verða þar.
Við erum öll í þessu saman, segir Víðir. Covid hefur hreyft við svo mörgu. Það er ekki bara hárið sem er eins og á bræðrunum Karíusi og Baktusi heldur hefur fallþungi margra aukist. Ég las um íslenska fegurðardrottningu í útlöndum sem hefur bætt á sig tveimur og hálfu kílói. Í fréttunum í dag sá ég að franska þjóðin hefur að meðaltali bætt sama magni á sig, tveimur og hálfu kílói og stundar nú sjaldnar kynlíf en áður. Vegir Covid eru órannsakanlegir og innhald margra frétta nú á tímum alveg fordæmalaust. Nemar í fjölmiðlafræði framtíðarinnar munu komast í feitt þegar þeir fara að innhaldsgreina fréttir ársins 2020.