Þegar Stefanía Magnúsdóttir hætti að vinna fyrir 8 árum var þrennt sem hún ætlaði að fara að gera, stunda leikfimi, syngja í kór og læra að steppa. “Tvennt af þessu gekk eftir”, segir hún. “Ég fór í leikfimi og gekk í Garðakórinn sem er kór eldri borgara í Garðabæ. Ég hef hins vegar ekki enn fundið neinn sem kennir stepp, þannig að ég fór í línudans og Zumba og líkar það mjög vel”, segir hún. Stefanía er mikið félagsmálatröll og var til dæmis um skeið varaformaður í VR, formaður Landssambands verslunarmanna og sat í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hún fór líka í framboð í pólitíkinni. Blaðamaður spyr hvernig hún hafi lent í þessu félagsmálavafstri “Það er sjálfsagt af því að ég er ekkert feimin. Ég hef alltaf verið þannig. Mér er alveg sama þó ég standi fyrir framan fólk og haldi ræðu” segir hún.
Vesturbærinn hennar heimavöllur
Þó Stefanía hafi búið í Garðabæ í 45 ár, er hún Reykvíkingur. Hún ólst upp á Hagamel frá fjögurra ára aldri og Vesturbærinn og Melaskólinn voru hennar heimavöllur. Þar átti hún yndislega æsku með foreldrum sínum og fjórum systkinum sem öll eru fallin frá. Faðir hennar hét Magnús Björnsson frá Klöpp á Miðnesi sem er milli Sandgerðis og Garðs. Hann var vélstjóri og var um tíma til sjós, en fór í land árið 1941 og vann eftir það hjá H.Ben. Móðir hennar hét Lilja Sighvatsdóttir og ólst upp á Bergstaðastræti, sem Stefanía kallaði alltaf Bestastræti, en þar bjó amma hennar.
Reyktu í þvottahúsinu
„Ég var ógeðlegur töffari, mjög sterk, slóst við stráka og varði vinkonu mína, sem var minni en ég og var kölluð Þóra litla. Mamma hennar var svo ánægð með hvað ég passaði uppá hana. Ég á enn frábærar vinkonur frá því í Melaskóla. Við byrjuðum í klúbbi 10 ára og erum enn að hittast. Við köllum okkur Elló klíkuna, af því við hittumst við Elliheimilið Grund. Við vorum allar saman í bekk í Melaskóla.Tvær okkar bjuggu sunnan Hringbrautar og tvær norðan götunnar og þarna hittumst við. Um tíma vorum við fimm, síðan aftur fjórar en í dag erum við fimm sem ennþá hittumst. Við lékum okkur mikið saman og ég man eftir því að við fórum einhvern tíma í Brekkubúðina, keypum fjórar sígarettur eins og amma Ólafar Kjaran reykti, svo fórum við í þvottahúsið heima hjá henni og reyktum þar“, rifjar Stefanía upp.
Tók annan bekk utanskóla í Flatey
Leið Stefaníu lá svo í Gagnfræðaskólann við Hringbraut, en þá var ekki búið að byggja Hagaskólann. Þaðan fór hún í landspróf í Vonarstræti og áfram í MR. „Þá var ég orðin einum of mikill töffari, ákvað til dæmis að ég ætlaði ekki að læra efnafræðina sem þar var kennd og féll á frádrætti. Pabbi talaði ekki við mig í þrjá daga“, segir Stefanía, sem ákvað að fara í Menntaskólann á Laugarvatni og hélt að þar gæti hún tekið tvo bekki saman. Það var hins vegar ekki mögulegt. En eftir fyrsta veturinn á Laugarvatni gerðist hún ráðskona hjá lækninum í Flatey á Breiðafirði og fékk í laun kennslu og las annan bekk utanskóla í Flatey þá um sumarið. Þar með var hún komin á réttan kjöl í náminu, en ákvað að fara ekki aftur í MR, heldur halda áfram námi á Laugarvatni. „Þá var ég búin að kynnst svo góðu fólki á Laugarvatni, meðal annars eigimannsefninu, Guðjóni Torfa Guðmundssyni. Hann var Hafnfirðingur sem nennti ekki að taka strætó í MR. Mér leið vel fyrir austan, ákvað að fara þangað og lauk stúdentsprófi 1962. Ég mætti svo niður í MR með húfuna, en ég varð stúdent degi á undan vinkonum mínum þar“, segir Stefanía sem finnst hún hafa haft gott af því að vera á heimavistarskóla.
Fjögur hjónabönd í 20 manna bekk
Það voru 20 nemendur í bekknum hennar á Laugarvatni, 14 strákar og 6 stelpur. „Þetta var dásamlegur bekkur og fjórar stelpnanna giftust strákum úr bekknum, þar á meðal ég. Sú fimmta giftist líka Laugvetningi en sú sjötta giftist út fyrir bekkinn og út fyrir landsteinana og er sú eina af okkur sem hefur skilið“, segir Stefanía. „Þegar við komum í bæinn, fór Guðjón Torfi í verkfræði í háskólanum, en ég fór í Kennaraskólann og útskrifaðist þaðan sem grunnskólakennari árið 1964. Eftir kennaranámið varð ég flugfreyja og það urðu fleiri skólasystur mínar einnig, því það þótti mjög gott að vera kennari á veturna en flugfreyja á sumrin.
Segist ekki vera búinn að borga námið
„Við giftum okkur í ágúst 1965 og fluttum til Kaupmannahafnar þar sem Guðjón Torfi fór í framhaldsnám og þar bjuggum við saman í fyrsta sinn. Ég fékk vinnu hjá Flugfélagi Íslands, og sá fyrir okkur. Þá var enginn Lánasjóður fyrir námsmenn. Stúlkurnar sem unnu þarna með mér hjá FÍ og líka hjá Loftleiðum voru meira og minna stelpur sem voru að vinna fyrir mönnunum sínum í námi. Það var dálítið um það að þeir skildu svo við þær um leið og þeir luku náminu, ég þekki nokkur dæmi þess. Ég bý aftur á móti enn með manninum og hann segist ekki enn vera búinn að borga mér fyrir námið!!!“ segir Stefanía hlæjandi. Þeim hjónakornunum leið vel í Kaupmannahöfn þar sem þau bjuggu í tvö og hálft ár. „Við komum heim í febrúar 68, ég kasólétt og barnið fæddist þremur vikum síðar. Ég var búin að lofa vinnufélögunum að ég myndi fara úr í Glasgow, ef ég færi að fá sting í magann. Það kom ekki til þess en við keyptum barnavagn þar“.
Hræðileg lífsreynsla
Stefanía og Guðjón Torfi, eða Níní og Torfi eins og þau eru kölluð, eignuðust fjögur börn á átta árum. Þrjár dætur og einn son. Það var mikið reiðarslag þegar litli drengurinn þeirra Torfi Geir varð fyrir slysi í fæðingu, sem varð til þess að hann fæddist mjög heilaskaddaður og lifði einungis í tæp fjögur ár. „Þetta var hræðileg lífsreynsla“, segir Stefanía sem telur að slysið hafa orðið fyrir handvömm á sjúkrahúsinu og segist oft hafa verið reið. Um það leyti sem hann fæddist árið 1973 fluttu þau í Garðabæ í hús sem þau byggðu og var þá tilbúið undir tréverk. „Það var hurðalaust, hvorki bað né sturta, eldhúsið ekki komið og eldað var á hellu í þvottahúsinu. Svona var þetta. Mér fannst þetta eins og þegnskylduvinna í 10 ár. Maður gerði allt sjálfur“, segir Stefanía.
Langaði að vera með fullorðnum
Það var nóg að gera hjá Stefaníu með öll börnin og hún var heimavinnandi í 6-7 ár. Eftir það fór hún að vinna á söluskrifstofu Flugleiða á Esju og í Lækjargötu. „Mig langaði að vera með fullorðnu fólki“, segir hún og eftir að hafa unnið hjá Flugleiðum kenndi hún í sjö ár í Flataskóla. „Þá fór ég aftur til Flugleiða, ferðabransinn togaði mikið í mig. Ég byrjaði líka að kenna fargjaldaútreikning og farseðlaúgáfu í Ferðaskóla Flugleiða, Versló og Menntaskólanum í Kópavogi. Þetta er mikill frumskógur og ég fór til Genfar til að fá kennararéttindi í faginu“, segir hún. Þegar tölukerfið Amadeus, sem er bókunar og farseðlaútgáfukerfi var tekið upp fór hún svo á námskeið í Nice í Frakklandi. „Það er í eina skiptið sem maðurinn minn hefur nennt að fara með mér í vinnuferðalag, en hann var að skoða báta. Það er mikið af þeim þarna niðurfrá“, segir Stefanía.
Sigla og skíða
“Við höfum haft mikinn áhuga á skútusiglingum og höfum farið margar siglingaferðir til Tyrklands, Grikklands, Júgóslavíu og Bresku Jómfrúreyja. Guðjón Torfi á hlut í skútu hér heima en ég kýs að sigla í heitari löndum. Við höfum líka verið dugleg að fara í skíðaferðir með fjölskyldunni, bæði hér heima og erlendis. Í 10 ár höfum við farið á hverju ári í vetrarfríi barnabarnanna , oftast til Akureyrar, og eigum margar góðar minningar úr öllum þessum ferðum”, segir Stefanía um þessi áhugamál þeirra hjóna, en þau hafa verið gift í 55 ár, eiga sex barnabörn og tvö langömmu- og afabörn.
Samveran sem fólk saknar
Árið 2015 var Stefanía beðin um að taka að sér formennsku í Félagi eldri borgara í Garðabæ og hún ákvað að slá til. Þau mál sem henni finnast helst brenna á eldra fólki í félaginu séu hreyfing og að gera eitthvað skemmtilegt saman. “Maður er manns gaman og fólk saknaði þess í Covid faraldrinum að geta ekki hist. Ég er þeirrar skoðunar að Landssambandið eigi að sjá um það sem á bjátar gagnvart ríkisstjórn, en við í félögunum tölum við okkar bæjarstjórnir. Mér finnst við njóta mikils velvilja hjá bænum, ég hef verið aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði, en þar hefur ekki áður verið sérstakur fulltrúi eldri borgara. Nú á ÍTR að spanna allt lífið frá vöggu til grafar. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi háttur er hafður á. Og svo var ég líka í öldungaráði. Formenn beggja þessara ráða eru bæjarfulltrúar og það er rosalega mikill munur að vinna með svona ráði, þegar aðgangur að bæjarstjórninni er svona greiður. En hafa eldri borgarar í Garðabæ það betra en annars staðar? Stefanía segir að það sé allur gangur á því, þar búi alla vega fólk sem hafi byggt upp bæinn þegar lóðaskortur var í Reykjavík. „Að vísu eiga flest allir sínar íbúðir sem ég held að skipti sköpum fyrir eldra fólk og að skulda ekki. En hér er fólk, sérstaklega eldri konur, sem eiga ekki réttindi í lífeyrissjóði og eru með ellilífeyri frá TR. Þær segjast ekki geta keypt gjafir handa barnabörnunum, sem er ömulegt“.
Margt sem skiptir máli en annað ekki
Stefanía segir ekkert að því að eldast, ef heilsan sé í lagi. „Hún skiptir öllu máli, bæði geiðheilsa og líkamleg heilsa, ekki síst geðheilsan“, segir hún. Ég held að ég sé ótrúlega heppin, ég tek eina töflu af blóðþrýstingslyfi á dag. Það uppgötvaðist byrjandi kölkun í ósæðarloku og ég hef farið í eftirlit á eins og hálfs árs fresti en það hefur ekkert breyst. Mér finnst gaman að stússast í félagsmálum, hef verið á kafi í því, en ekki gefin fyrir handavinnu, er greinilega léleg húsmóðir“, segir hún og hlær. Hún segir að þegar fólk sé komið á þennan aldur, hafi það prófað svo margt og kunni að meta svo margt. „Maður metur svo margt á annan hátt en þegar maður var yngri. Það er svo margt sem skiptir ekki máli, en annað skiptir svo miklu meira máli en áður svo sem fjölskyldan, barnabörnin og barnabarnabörnin, sem verða svo dýrmæt í lífi okkar“.
Viðtalið birtist fyrst á vef Lifðu núna í nóvember 2020 og hefur verið uppfært