Það er ekki aðeins á Íslandi sem mörg fyrirtæki láta sér detta ýmislegt í hug til að vekja athygli með vel heppnuðum aprílgöbbum. Þegar vel tekst til næst með þessu jákvæð athygli og umfjöllun, sem í leiðinni léttir lund og bætir ímynd. En þegar miður vel tekst til geta afleiðingarnar orðið þveröfugar. Í nýjasta hefti vikuritsins The Economist er vöngum velt yfir því hvað fyrirtæki geti gert til að reyna að forðast að lenda í slíku.
Þrjú lönd í Evrópu – Frakkland, Þýzkaland og Holland – gera tilkall til þess að búa yfir elztu heimildinni fyrir aprílgabbi á fyrsta degi aprílmánaðar. En elzta þekkta dæmið um misheppnað aprílgabb er frá Bretlandi. Árið 1765 greindi tíðindaritið The Salisbury and Winchester Journal frá því að skurðlæknir og lyfsali hefðu fengið bráðaútkall heim til herramanns nokkurs sem bjó úti í sveit í Cambridge-skíri. Þegar læknirinn og lyfsalinn fundu manninn kom í ljós að hann var við hestaheilsu, og þeir áttuðu sig á því að þeir hefðu verið gabbaðir til að hlaupa apríl – tíu mílna ferð, fram og aftur. Nánari eftirgrennslan leiddi í ljós að á bak við gabbið hefði staðið „þekktur og spaugsamur lyfsali“. Þeir tóku sig þá til að stefndu hinum spaugsama til greiðslu skaðabóta fyrir fýluferðina upp á eina og hálfa gíneu, andvirði um 15 daga kaups verkvans iðnaðarmanns.
Göbbin vaxa og afleiðingarnar með
Með vexti kapítalismans hefur líka umfangið á því vaxið hvernig fyrirtækja-hrekkir í tilefni af 1. apríl geta misheppnast. Sumir hafa meira að segja valdið tilfinnanlegum sveiflum á hlutabréfamörkuðum. Verðbréfamiðlarar í Detroit þustu árið 1922 til og keyptu ný verðbréf nefnd „AFP“, í þeirri trú að skammstöfunin stæði fyrir „American Fire Protection“. Bréfin tvöfölduðust snarlega í verði – unz kauphallareftirlit Michigan upplýsti að bréfin hefðu verið skráð af óþekktum hrekkjalómi, og í raun stæði AFP fyrir „April Fool Preferred“. Um öld síðar, árið 2021, tóku hlutabréf Volkswagen 10 prósenta kipp upp á við eftir að þær „fréttir“ láku út að til stæði að breyta nafni fyrirtækisins í „Voltswagen“ í því skyni að undirstrika orkuskiptin í VW-bílum. Í kjölfarið hóf fjármálaeftirlit Bandaríkjanna, SEC, rannsókn á meintri markaðsmisnotkun. Yfirmenn hjá VW í Bandaríkjunum, undan hverra rifjum „fréttin“ var runnin, viðurkenndu að þetta grín kynni að hafa gengið of langt. Eftirlitsaðilar á markaði sjá sjaldan fyndnina í hrekkjum.
Atvinnugleðispillar
En geta fyrirtæki yfirleitt á þessum „síðustu og verstu tímum“ kitlað fram bros á fólki án þess að fá það eins og bjúgverpil í hausinn? Fyrir minni fyrirtæki er nokkuð víst að áhættan er líkleg til að trompa mögulegan ávinning. Óvæntar lögsóknir geta hæglega verið jafn íþyngjandi fyrir rekstur nútímafyrirtækis eins og fyrir lyfsala á Englandi á átjándu öld. Á hinn bóginn hafa stórfyrirtæki nútímans bolmagn til að valda þeim mun meiri ringulreið, ef grínið misheppnast, og þeim mun meira niðurlægjandi afsakanakór. Ráðlegging Economist er því þessi: Ef forstjórinn fær frábæra hugmynd að aprílgabbi, sem hann vill endilega hrinda í framkvæmd, látið hann ráðfæra sig fyrst við lögfræðing. Það er hægt að treysta því að hann/hún sjái til þess að ekkert verði úr. Atvinnugleðispillir.