Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar
gudrunsg@gmail.com
Guð virðist ekki í tísku núna, ef þannig má að orði komast. – Varla heldur ekki að biðja bænir. Ég sagði völdum hópi sem ég hitti stundum frá því að ég færi með bænir, ekki kannski öll kvöld en þó svo oft að ég missi ekki alveg samband við barnatrúna – það slitur sem eftir er af henni innra með mér. Ef eitthvað er hins vegar að þá bið ég ákaft til almættisins um að allt lagist. Sér í lagi bið ég fyrir fólki sem er mér kært, fjölskyldunni og nánum vinum. En ekki þar fyrir, oft biður maður líka fyrir þeim sem eiga bágt út um allt, einkum litlum börnum sem ekki geta varið sig.
Eftir að hafa játað fyrir hinum valda hópi að ég færi stundum með bænirnar sem mér voru kenndar í æsku og sá svipinn sem kom á suma fór ég að hugsa um hvað guðstrúin sýnist hafa undan látið í tímans straumi á tækniöld.
Móðuramma mín sagði jafnan að guð legði aldrei meira á fólk en það gæti borið. Sjálf missti hún sex börn í æsku og tvo menn í sjóinn en var samt alltaf kát og hress og söng mikið. Eftir að hafa grandskoðað umhverfi mitt og það sem ég les til dæmis á samfélagsmiðlum þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé í lagi að nefna guð í nokkrum tilvikum án þess að litið sé á mann með svip sem orð ná ekki að lýsa
Fyrst skal telja hina almennu upphrópun: „Guð minn almáttugur!“ ef manni verður eitthvað óvart á, svo sem að missa dýrmæti í gólfið.
Einnig er í góðu lagi að segja: „Guð hálpi þér“ ef einhver í nálægð við mann hnerrar.
Ég held að það sé í lagi að segja: „Vegir Guðs eru órannsakanlegir“ og það sleppi að segja: „Guð hjálpi manninum að haga sér svona.“
Orðatiltækið: „Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir“ – er hneykslunarlaust – það hefur enda meiri vísun til viðkomandi heldur en til guðs almáttugs.
En það virðist einhvern veginn fyrir bí að segja: Guð blessi minningu hans eða hennar. Þess í stað er gjarnan sagt: Blessuð sé minning hans eða hennar – og er þá látið ósagt hver eigi að framkvæma þá gjörð.
Æ fleiri sýnast eða segjast hafa aflagt trú á guð ef marka má ýmis viðtöl sem birtast í fjölmiðlum. Sumt fólk segist trúa á karma. Aðrir á sérhæft mataræði, að vinna í sjálfum sér, að hreyfa sig ótæpilega og svo að drekka kakó upp á fjöllum í bland við hugleiðslu og núvitund – svo eitthvað sé nefnt.
Allt er þetta gott og gilt. En mér virðist að það haldreipi sem trúin var henni ömmu minni í hennar mikla missi hafi reynst henni betur en ýmis nútímalegri ráð reynast samferðafólki mínu. Miða ég þá við æðruleysi hennar og svo frásagnir sem nú birtast hér og þar og segja aðra sögu.
Ég veit ekki til að amma hafi nokkurn tíma unnið í sjálfri sér, hún setti bara allt sitt traust á guð og hélt áfram að lifa langt fram á níræðisaldur.
Þegar ég missti mann fyrir hartnær fjörutíu árum safnaði ég á dimmum vetrarkvöldum börnunum mínum fyrir ofan mig í hjónarúminu og saman báðum við guð að gefa okkur styrk, hverju og einu og allir voru nafngreindir.
Við áttum kött sem Sófus hét og svaf hann í dúkkurúmi við hliðina á hjónarúminu. Eitt kvöldið, eftir allan bænalesturinn þá sagði annar sex ára tvíburasonur minn: „Mamma – þú biður aldrei guð að gefa Sófusi styrk! – Það er aldrei svo – jafnvel í sárustu sorg að ekki gerist eitthvað sem ekki er annað hægt en hlæja að. – Það þarf varla að taka það fram að Sófus var eftir þetta með í bænalestrinum.
En þegar börnin mín voru sofnuð fór ég oft niður í stofu og las samúðarkort sem mér hafði verið sent og á stóð: „Drottinn vakir, drottinn vakir, daga og nætur yfir þér.“ Þessi látlausa ljóðlína var mér huggun harmi gegn. Kannski er meiri áfallahjálp fólgin í trúnni en fólk gerir sér almennt grein fyrir.