Tiltekt og líf í föstum skorðum 

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritstjóri skrifar.

 

Ég er frekar reglusöm og þykir þægilegt að hafa umhverfi, líf og tilveru í nokkuð föstum skorðum. En mér finnst ekki síður mikilvægt að brjóta upp hversdagsleikann og geri það svo sannarlega með margvíslegum hætti. Hringrás ársins hefur að sjálfsögðu áhrif á takt tilverunnar en mér líður best að hafa ákveðna reglu og festu sem undirtón; hvort sem um er að ræða vetur, sumar, vor eða haust. Kannski er þessi tilhneiging mín ástæða þess að undanfarið hafa hugsanir um tiltekt og reglu leitað á mig.

Vorverk og veðurfar

Vorið er í mínum huga tími upphafs og endurnýjunar og ég nýt þess að fylgjast með náttúrunni vakna af dvala vetrarins. Fyrir nokkrum dögum ákvað ég að taka aðeins til utandyra. Ég tók fram strákúst og sópaði saman laufum sem höfðu safnast í hrúgur á stéttum við húsið og setti í poka. Náði mér síðan í hrífu og rakaði saman smávegis af laufum, greinum og mosa. Ég fór mér að að engu óðslega enda segir kennitalan að ekki sé vit í fyrir konu á virðulegum aldri að hamast í garðvinnu. Allt er best í hófi. En það var samt ekki eigin sjálfsagi sem varð til þess að ég hætti garðvinnunni í þetta skipti. Það skall á haglél! Ég ákvað því að bíða með frekari garðvinnu til næsta dags. En þá tók ekki betra við. Allt á kafi í snjó. Ég fylgdist því að mestu með garðinum út um gluggann. Í fyrrahaust setti ég niður haustlauka sem hefur verið fastur liður í lífi konunnar sem vill helst hafa lífið í ,,nokkuð” föstum skorðum. Laukana á að setja niður á haustin og á vorin eiga þeir síðan að koma upp. En þannig var það ekki í ár. Blessaðir laukarnir mínir voru rétt farnir að gægjast upp úr moldinni þegar fimbulfrost gerði – á kaldasta vetri hér sunnan heiða frá því árið 1979. Grænu sprotarnir urðu brúnleitir og ræfilslegir en ég lifi enn í voninni um að þeir muni taka við sér og gleðja mig með blómskrúði þegar fer að hlýna. Nokkrir laukar létu reyndar ekki plata sig, tóku seinna við sér og eru lausir við kal. Tíminn og náttúran munu leiða í ljós hvað verður. Ég keypti mér líka í fyrrahaust útlenskan blómapott þar sem mold og laukum var komið haganlega fyrir. Á umbúðunum stóð að ég ætti að vökva einu sinni í mánuði og ég mætti búast við miklum fjölda stórkostlegra blóma þegar þar að kæmi. Ekkert var minnst á hvað myndi gerast ef snjóaði í apríl eða frostið færi jafnvel niður fyrir -15°. Nú bíð ég í ofvæni eftir að sjá hvað leynist í pottinum. Sé reyndar að aðeins er farið að örla á einhverju grænu!  Ég vona að skýringin sé að laukarnir eru farnir að rumska og viðurkenni að ég er ekki viss um að augýsingin á pottinum góða muni standa undir væntingum mínum. En ég var enn í vorgírnum og þó að ég hafi hrakist úr garðinum var af ýmsu að taka innanhúss.

Fataskápar og fatnaður við hæfi

Ég hef lengi ætlað að taka til í fataskápunum í svefnherberginu – aðallega efstu hillunum þar sem ég geymi sumarfötin sem sum hver hafa lítið sem ekkert verið notuð undanfarin ár. En það er með skápana eins og garðinn að eins gott er að fara varlega. Til þess að komst að því sem er í efstu hillunum þarf ég að nota stiga og mér dugir ekki að standa í neðstu tröppunni þó að ég sé reyndar meðalmanneskja að hæð. Stiginn, eða trappan, sem ég nota er með þremur þrepum. Það efsta er stærst og á því þurfti ég að standa til þess að ná í það sem leyndist í efstu hillunum. Ég fór að sjálfsögðu rólega í verkið og náði að koma öllu niður slysalaust.

Ég dreifði því sem var í hillunum á rúmið og tók síðan til við að flokka; geyma, gefa, henda. Niðurstaðan varð sú að ,,henda” bunkinn varð langstærstur. Ég henti að sjálfsögðu ekki flíkunum þó að ég noti þetta orð heldur fór með þær í fatagám. Flest sem fór  þangað voru heillegar flíkur en þær henta mér ekki lengur. Árum saman lagði ég land undir fót og dvaldi á Flórída á vorin. Alltaf sól og blíða og aðeins þörf fyrir ermalausar skyrtur, flegna boli, bikiní og stuttbuxur. En þó að ég beri mig vel og finnist ég líta bara þokkalega út er ljóst að konu á mínum aldri fer ekki vel að vera í stuttbuxum sem ná rétt niður á mið læri eða í flegnum og ermalausum bolum og skyrtum. Að ég tali nú ekki um bikiníið. 😊 Slíkur klæðnaður hæfir ekki virðulegum aldri mínum. Mér datt í hug að þessar efnislitlu flíkur myndu helst nýtast sem efni í viðameiri fatnað með því að sauma saman tvær eða fleiri flíkur. Eða kannski sem efni í bútasaum. Hvað úr verður er ekki mitt mál heldur þeirra sem komast í fatapokana frá mér. Ég setti ekkert í ,,gefa” bunkann. Flest sem ég valdi þar stað endaði í fatagámi. Síðan klöngraðist ég aftur upp stigann, þreif hillurnar og kom síðan því sem eftir var af sumarfötunum mínum aftur fyrir.

En þetta var bara fyrsta skrefið. Næst á dagskrá var skóskápurinn. Sem betur fer þarf ég ekki að nota stiga til að komast að honum. Ég var fljót að henda öllu út út skápnum og enn fljótari að ákveða hvað ég vildi geyma og hvað færi í gám. Eftir reynslu mína af ,,gefa” bunkanum með gömlum sumarfötum ákvað ég að flokkarnir yrðu bara tveir;  geyma, farga. Innst í skápnum voru skór sem ég nota sjaldan, eða aldrei, en fremst þeir sem ég nota oftast. Eftir tiltektina var helmingurinn farinn! Fyrir því eru þrjár megin ástæður. Í fyrsta lagi dettur mér ekki lengur í hug að ganga í skóm sem meiða mig. Í öðru lagi hvarflar ekki að mér að ganga á pinnaháum hælum eins og ég gekk á fyrir mörgum árum þegar ég vildi vera virkilega fín! Í þriðja lagi er staðreynd að fætur okkar stækka með árunum. Ég ætla ekki að útskýra ástæðuna nánar enda ekki fagmenneskja á því sviði. Niðurstaðan var því sú að verulega hefur rýmkað í skóskápnum. Flestir skórnir sem eftir standa eru strigaskór og nokkur pör af skóm sem mér finnst gott að vera í. Reyndar líka örfá pör af skóm sem ég tími ekki að henda en á samt varla eftir að fara nokkurn tímann í. 😊

Þó að ég hafi tekið skóskápinn í gegn og efstu hillurnar í svefnherbergisskápunum, er af nógu að taka. En framhaldið bíður betri tíma. Ég verð að gefa mér góðan tíma í að fara í gegnum öll fötin sem hanga á slám. Árum saman má segja að ég hafi aðallega fært herðatrén aðeins til. Fötum sem ég nota oftast hef ég komið fyrir þar sem gott er að komast að þeim en sá hluti fatanna er kannski þriðjungur af öllum fötunum á slánum.   Hitt eru föt úr svo ,,góðum” efnum að ég tími ekki að farga þeim, föt sem ég á ,,örugglega” eftir að fara einhverntímann í og föt sem eru svo ,,falleg” að ég get ekki hugsað mér að losa mig við þau.  Þar er líka að finna föt sem ég gæti vel hugsað mér að klæðast en hafa “hlaupið” á slánum og ég kemst þess vegna ekki lengur í. Miðað við þessi samantekt þarf ég að gefa mér góðan tíma í slárnar.

Haustverk og jól

Haustverkin eru ekki jafn viðamikil og vorverkin. Þau felast aðallega í að ganga frá garðhúsgögnum þannig að þau fjúki ekki með ófyrirséðum afleiðingum þegar haustlægðirnar mæta og svo eru það blessaðir haustlaukarnir. Þeim verður að koma niður fyrir frost. Reyndar hafa sonardætur mínar potað þeim niður undanfarin ár. Þannig hjálpa þær mér en í leiðinni kenni ég þeim handbrögðin og vek kannski með þeim eftirvæntingu fyrir að ,,loforðið um litríkt vor” verði að veruleika. Hauslaufin láta heldur ekki  á sér standa. Sjálf er ég ekki með mörg lauftré í garðinum en laufin virða engin lóðamörk þannig að ég raka alltaf að minnsta kosti saman laufunum sem safnast við útidyrnar.

Ég er mikið jólabarn og hlakka alltaf til að taka jólakrautið fram, kaupa jólatré og skreyta hús og heimili fyrir jólin. Ég ætti auðvitað að vita hvað leynist í kössum sem merktir eru,,jólaskraut” enda hef ég sjálf pakkað niður í þá. Samt fyllist ég alltaf barnslegri eftirvæntingu þegar ég opna þá. Í gegnum árin hef ég sankað að mér allskonar jólaglingri. Sumt hef ég notað sjaldan en annað er hluti af skreytingarhefð heimilisins. Og það er með skrautið eins og skóna og sumarfötin. Þar þarf líka að taka til; geyma, gefa henda.

Regla í tættri tilveru

Með árunum geri ég mér sífellt betur grein fyrir óvissu tímans og að við vitum í raun aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Við ætlum okkur eitt í dag en ófyrirséðir atburðir verða til þess að áætlanir breytast. Líklega er þar að finna rótina að þeirri tilhneigingu minni að vilja helst hafa ákveðna röð og reglu á málum og líf og tilveru í nokkuð föstum skorðum. Meðfylgjandi mynd tók ég af páskaliljum sunnan við húsið mitt. Þær sanna að loforðið,,um litríkt vor” er ekki bara orðin tóm. Dýrmætt að ganga úti í dag og njóta fallegrar vorbirtu sem baðar umhverfið ævintýralegum ljóma. Kannski dríf ég mig í að taka slárnar í fataskápnum í gegn – eða fer kannski út í garð og held áfram vorverkunum.

,,Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr, 

enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.

Því skaltu fanga þessi stund

því fegurðin í henni býr.”

(Bragi Valdimar Skúlason)

Gullveig Sæmundsdóttir maí 8, 2023 07:00