Dagstjarnan er tíunda og jafnframt að sögn höfundar síðasta bók Guðrúnar Guðlaugsdóttur um Ölmu blaðamann. Að þessu sinni býðst Ölmu starf upplýsingafulltrúa fyrir nýstofnað stjórnmálaafl. Hún er rétt tekin við stöðunni þegar hún finnur lík konu úti í læk rétt hjá fundarstað flokksmanna í sveit á Íslandi.
Alma getur auðvitað ekki látið þetta kyrrt liggja og hefst handa við rannsókn. Hún kemst fljótlega að því að margt annað en sú hugsjón að vinna landi og þjóð til gagns liggur að baki stofnun hins nýja stjórnmálaflokks. Til að mynda virðist lýðræðið lítils metið þegar kemur að kosningum þar og framboðið hverfast mun meira um ákveðnar persónur en málefni.
Í einkalífi blaðakonunnar gengur líka ýmislegt á og henni verður margt ljóst um sjálfa sig og hjónaband sitt. Þetta er létt og skemmtileg sakamálasaga af þeirri gerð sem stundum hefur verið kölluð stofukrimmi en sá flokkur hefur löngum verið kenndur við Agöthu Christie. Það einkennir þessa tegunda glæpasagna að fléttan snýst oft meira um persónur sögunnar, tengsl þeirra og átök en endilega glæpinn. Þegar lausnin er ljós kemur jafnan ýmislegt annað upp úr dúrnum ótengt morðinu.
Guðrún hefur smátt og smátt náð að bæta og byggja upp margar persónur í kringum Ölmu og lesendur farnir að hlakka til að hitta í þær í hverri nýrri bók. Þess vegna verður ákveðin sjónarsviptir að því að eiga ekki lengur von á bók um Ölmu og ekki alveg laust við aðdáendur hennar eigi eftir að sakna þeirra skrýtnu og skemmtilegu uppákoma sem henni var lagið að koma sér í.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.