Margrét Júlía Rafnsdóttir, er kennari og umhverfisfræðingur. Eftir farsælan feril var henni sagt upp störfum í upphafi þessa árs rúmlega sextugri skömmu eftir covid-veikindi. Margrét hefur alla tíð unnið mikið og verið virk í pólitík en hún ákvað að nú væri tíminn til að láta þá hluti rætast sem hana langaði alltaf að gera. Margrét situr ekki auðum höndum, hún hefur gefið út bók og fleiri eru í farvatninu.
Margrét ólst upp í húsi fjölskyldu sinnar að Týsgötu 8 við Óðinstorg í Reykjavík. Hún segist hafa fengið gott atlæti, kærleik og umhyggju sem hafi mótað sig mikið. Margrét var stúdent frá MR, tók kennarapróf og síðar meistaragráðu í umhverfisfræði auk þess sem hún hefur lært frönsku og er lærður leiðsögumaður.
Margrét eignaðist börnin sín fljótlega eftir stúdentspróf og þar með hófst lífsbarátttan sem stóð í áratugi við störf og afskipti af pólitík. Margrét hefur alla tíð borið hag barna fyrir brjósti og starfaði í 23 ár sem kennari og síðar að mannréttindum barna í nær 18 ár.
Fór í pólitík
Margrét hóf afskipti af pólitík fyrir aldamótin síðustu í Kópavogi þar sem hún býr. „Ég var eiginlega „sjanghæuð“ í pólitíkina í Kópavogi. Þá var ég að hefja nám í umhverfisfræði og einhverjum fannst upplagt að ég tæki sæti í nefnd sem fjallaði um þau málefni.
Þetta var fyrir lista vinstrafólks er nefndist Kópavogslistinn og var mjög gefandi og lærdómsríkt. Ég ílengtist þarna, var fulltrúi í umhverfisnefndinni í þrjú kjörtímabil og formaður um tíma. Ég tók svo sæti í skipulagsráði, varð varabæjarfulltrúi og svo bæjarfulltrúi fyrir VG. Ég skipti um starfsvettvang fyrir 18 árum, hætti að kenna og fór að vinna hjá alþjóðlegum samtökum sem vinna að mannréttindum barna. Starfið var mjög lærdómsríkt og krefjandi og tel ég mig hafa lagt þar ýmislegt af mörkum.“
Veiktist af covid og lífið tók nýja stefnu
Margrét gaf út bók um föður sinn, Rafn Júlíusson. „Já, ég fékk covid í mars 2020, varð mjög veik og lenti á spítala. Það má í raun segja að heilsan hafi aldrei orðið söm, þrekleysi, mæði, ég fékk lungnabólgu, gollurshúsbólgu, verki um allan líkamann og heilaþoku. Það var svolítið kippt undan mér fótunum og ég hugsaði: Nú, er þetta bara búið?
Inni á spítalanum lá ég á sömu stofu og faðir minn, fyrirmynd mín, hafði legið banaleguna meira en 20 árum fyrr. Hann lést 65 ára og ég fer að nálgast þann aldur. Saga hans varð áleitin og ég hugsaði með mér að ég mætti ekki bíða með að skrifa hans sögu. Við vitum aldrei hvað tími okkar er langur. Að pabba standa eiginlega fjórar ættir og ég vildi skoða betur hvað það var sem hafði mest áhrif á að hann varð þessi heilsteypti, kærleiksríki maður.
Rannsóknarspurningin var í raun: Hvernig verður gott fólk til? Foreldrar hans áttu hann ung og þurftu að gefa hann frá sér. Foreldrarnir voru Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup, og Sigríður Oddleifsdóttir. Pabbi var heppinn því fólkið sem tók hann að sér, Júlíus Árnason og Margrét Þorvarðardóttir, voru mikið gæðafólk. Ég rek sögu þessa fólks sem hverfist öll um húsið að Týsgötu 8 í Reykjavík, sem Júlíus og Margrét byggðu. Bókin hefði kannski átt að heita Kvistherbergi uppi við Óðinstorg, því þar gerðist ýmislegt.
Ég vil gjarnan ljúka þeim verkum sem ég byrja á og þannig var það með þessa bók. Ég var ár að skrifa söguna og lét hana liggja annað ár. Ég sendi hana svo á tvo útgefendur og þeir sögðust ekki gefa út svona ævisögur. Þetta er ekki bara ævisaga, það er mikil heimspeki í sögunni, skólapólitík, sagnfræði og samfélagsleg rýni. Ég ákvað að láta ekki einhverja útgefendur stjórna því hvort bókin kæmi út og ákvað að gefa hana út sjálf. Ég hef unnið sem ritstjóri og gat nýtt mér þá reynslu og þekkingu. Bókin hefur þegar verið prentuð í 500 eintökum og verið mjög vel tekið. Fólk segir að það sé mikill kærleikur og hlýja í henni. Bókina má finna í Pennanum- Eymundsson, í Bókakaffi og á bókasöfnum.“
Dvölin á Reykjalundi skipti sköpum.
Rúmu ári eftir covid-veikindin fór Margrét á Reykjalund í endurhæfingu. „Það var enginn sem tók mann í fangið eftir veikindin. Ég fór í rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu en sú rannsókn var meira til að fá rannsóknarniðurstöður en ekki fyrir einstaklingana sem tóku þátt. Eftirfylgni var engin. Ég frétti af því að einhverjir höfðu farið á Reykjalund og bað um að fá að fara þangað. Það má segja að dvölin á Reykjalundi hafi bjargað lífi mínu. Ég var þar í níu vikur.
Það var ákveðið verkefni sem ég þurfti að skila af mér í vinnunni á þessum tíma og ég samdi um það að nýta hluta tímans á Reykjaundi í þá vinnu í stað þess að fara í iðjuþjálfun og tálga fugl. „Hryggjarstykkið í þér er vinnan“ sögðu iðjuþjálfarnir við mig. Ég hafði ekki áttað mig á því og fannst eðlilegt að maður legði sitt af mörkum í vinnunni. Og ég var spurð: En hvað með þig? Hvað ætlarðu að gera fyrir þig?
Ég er vinnusöm og vil sjá hlutina í framkvæmd. Mér hefur oft fundist ég vera með heiminn á herðunum, bera ábyrgð á loftslagsbreytingunum og velferð barna. Ég er hugsjónarmanneskja og vil láta gott af mér leiða,“ segir Margrét og hlær. „Þegar ég snéri aftur til vinnu gat ég ekki unnið fulla vinnu, ég fór í hlutastarf.“
Nú er tíminn
Margrét fann ástina í lífi sínu komin hátt á miðjan aldur. Eiginmaður hennar er Sigurður Haukur Gíslason, kennari og söngvari.
„Við höfum stutt hvort annað og njótum lífsins saman. En ef heilsan er ekki fyrir hendi er ansi margt farið. Ég vil getað ferðast en mig langar samt ekkert út um allan heim. Frakkland er í hjarta mínu og þangað vil ég fara sem oftast og svo til Ítalíu. Helst vil ég að ferðir innihaldi hreyfingu og lærdóm. Ég fer í jógaferð til Toskana í sumar, með systur minni. Ég var ekki viss hvort ég ætti að splæsa í þá ferð en maðurinn minn sagði: Margrét, þú ert búin að vera veik í fjögur ár, ætlarðu að fara seinna?“
Margrét varð atvinnulaus rúmlega 60 ára eftir gott og farsælt starf í þágu mannréttinda barna. „Yfirmaður minn til 10 ára var dásamleg manneskja, hún þekkti mig og mín störf og kunni að meta þau. Svo hætti þessi kona. Nýir vendir komu og fóru að sópa, líkt og gerðist hjá pabba eftir áratugastarf, hann var færður til í starfi og látinn bera dótið sitt milli skrifstofa fárveikur af krabbameini. Hann tók þessu með sínu æðruleysi. Ég vil meina að með brotthvarfi mínu hafa horfið mikil þekking af vinnustaðnum.
Ég ákvað að láta uppsögnina hvorki skilgreina mig né taka frá mér orku. Ég var búin að gefa mikið í starfið og ætla að snúa stöðunni mér til góðs. Ég hafði hugað að framtíðinni fyrir um 15 árum og sett mér markmið um að koma í verk því sem mig hafði alltaf langað að gera en ekki haft tækifæri eða aðstæður til. Ég fór í skíðaskóla 55 ára í Austuríki og hef farið á skíði árlega síðan og í gönguferðir á Ítalíu sem hafði verið draumurinn. Svo fer ég til Nice í haust til að bæta við mig í frönskunni, en pabbi var mikill frönskumaður og við áttum frönskuáhugann sameiginlegan.
Hann lærði í Sorbonne, sá um alla milliríkjasamninga fyrir Póst og síma en franska er póstmálið. Ég hef sjálf verið mikið í Frakklandi, við nám og farið með hópa þangað. Segja má að ég hafi ekki verið ein með sjálfri mér síðan ég var barn. Því verður spennandi að sjá hvernig gengur í Nice í haust. Ég vona að ég geti áfram látið drauma mína rætast en til að svo verði þarf fyrst og fremst að huga að heilsunni, andlegri og líkamlegri. Það geri ég með göngum, lyftingum, golfi, pilates og jóga.“
Það er fleira á dagskránni hjá Margréti, hún er með tvær bækur í vinnslu og tekur dagana skipulega.
„Önnur er barnabók um tilfinningar og samskipti barna. Svo er ég að skrifa skáldsögu. Ég nota auðvitað minn reynsluheim í öllum skrifum. Fleira er á teikniborðinu en ég þarf að skipuleggja mig og passa, þar sem ég fæ enn bakslög eftir covid-veikindin ef ég fer fram úr mér.
Maður þarf að passa að dagurinn fari ekki bara í að snúast í kringum sjálfan sig. Ég vakna við vekjaraklukku, sest við tölvuna og skrifa. Ég er alltaf með tölvuna opna og ef eitthvað kemur upp í hugann kem ég því niður á blað. Ég hlusta mikið á bækur þegar ég er t.d. í húsverkum eða göngutúr og læri af því og fór á netnámskeið í skrifum. Svo er ég alltaf tilbúin til að taka að mér verkefni þar sem þekking mín og reynsla getur nýst.
Sumir vilja vinna sem lengst, aðrir hætta um leið og þeir geta, annað er ekkert réttara en hitt. Það verður hver að finna sinn takt. Ég er búin að skila mínu held ég. Hvað þarf maður að leggja mikið af mörkum? Hvenær er komið nóg og tími til að snúa sér að öðru? Ég valdi ekki að missa heilsuna og ég valdi ekki að hætta að vinna. Það var valið fyrir mig. Ég get hins vegar valið hvernig ég bregst við og tekst á við nýjar áskoranir.
Lífið er núna og ekki eftir neinu að bíða með að koma hlutunum í verk, hvort sem það er að vera með ástvinum eða láta drauma rætast. Ég elska að vera í góðra vina hópi, standa á hælum með vínglas í hönd, þótt ég drekki ekki, og skála fyrir lífinu. Ég vil helst gera sem fæst sem ógnar heilsunni eða skaðar mig, umhverfið eða aðra. Ég vil vakna til hvers dags hress og sátt við sjálfa mig, guð og menn. Lífið hefur kennt mér að það eru ástvinir sem skipta mestu máli og það sem hlúa skal að. Við eigum að vinna allt sem okkur er falið af samviskusemi en fórna okkur fyrir ástvini, ekki vinnu. Vinnan mun aldrei þakka þá fórn. Þakklátust er ég fyrir að eiga yndislega fjölskyldu, ekki síst barnabörnin fjögur. Það er bara best í heimi að eiga stundir með þeim. Þau hafa gefið lífinu einstakan lit og nýja vídd.“
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.