Mamma, fæ ég hár niður á rassgat?

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.

 

Ég er að bíða eftir því að klukkan verði níu til þess að geta pantað tíma í klippingu og þetta sem ég vil ekki nefna sem fylgir árunum. Það er talsverður rekstrarkostnaður sem því fylgir að vera með stutta hárið í lagi. Ég sé alls ekki eftir peningunum sem fara í þennan rekstrarlið en samt eru þetta útgjöld.

Ég á skemmtilega mynd af yndislegum afasystrum mínum sem var tekin árið 1960. Sesselja og Ingibjörg Eldjárn hétu þær. Miklar öndvegiskonur með fléttur. Ég man aldrei eftir þeim öðruvísi en með fléttur. Ömmurnar mínar, Sigrún Sigurhjartardóttir og Jónína Friðfinnsdóttir, voru líka með fléttur. Þegar ég hugsa til baka voru þær alls ekki með fallegar fléttur. En fléttur voru bara fléttur, hvort sem þær voru þunnar og gráar eða ljósar og þykkar. Þetta var fléttukynslóðin. Tískan í þá daga.

Ungur herra í fjölskyldunni minni var að lýsa skólasystur sinni. „Hún er með stutt hár,“ sagði hann gagnrýninn og svo bætti hann við: „Þetta er svona hár sem passar bara fyrir fullorðnar konur.“ Mér þótti þetta athyglisverð athugasemd. Ég hafði aldrei tengt stutt hár við aldur. Í mínum huga eru það bara flétturnar, festar upp í hnakkanum með spennum, sem eru aldurstengdar.

Í vikunni fór ég í strætó í Reykjavík. Þetta var snemma dags og vagninn var fullur af fólki. Þrjár táningsstelpur komu inn í vagninn og settust nálægt mér. Ég fór að horfa á þær. Þær voru allar eins. Í eins úlpum, allar með þykk, svört gerviaugnhár og með sítt hár í tagli.

Þá rifjaðist upp fyrir mér stutt grein sem Sigmundur Ernir kollegi minn skrifaði einu sinni um ungar stúlkur með tagl. Hann hafði mætt dóttur sinni á götu en þekkti hana varla úr hópnum. Þær voru allar með tagl og voru alveg eins.

Í gamla daga þótti það gott ráð að þvo á sér hárið upp úr kúahlandi til þess að auka hárvöxt og gljáa. Móðurbróðir minn í Svafaðardal ákvað að prófa þetta enda frekar þunnhærður krakki. Hann sá strax eftir þessu og fór til mömmu sinnar og spurði hana hálfgrátandi: „Fæ ég  hár á niður á rassgat eins og Þórlaug í Brekku?“ Ekki kom til þess en spurningin er sú hvort ungu stúlkurnar í dag hljóti þessi örlög og munu líkjast þessari ágætu húsmóður á bænum Brekku í dalunum fagra.

Ef tískan breytist ekki og ungu stúlkurnar halda áfram að safna hári enda þær þannig að þær geta hjúpað sig hári eða munu draga á eftir sér töglin þegar þær fara úr húsi.

En kannski breytist smekkurinn. Hugsanlega átta þær sig á því einn daginn að það er í lagi að vera með stutt hár og óþarfi að ná miðjum aldri áður en taglinu er fórnað.

Já, tískan lætur ekki að sér hæða, hvorki fyrr né nú.

Sigrún Stefánsdóttir október 8, 2024 07:00