Öngvir fálmandi fingur

Í Föðurráð talar Bubbi Morthens til dætra sinna. Hann vill opna þeim skilning á þá veröld sem hann fæddist inn í og hversu mjög hann fagnar breyttri sýn á stöðu kvenna. Þarna er að finna djúpstæðan ótta foreldris um hag barns síns í viðsjárverðum heimi, fallegar óskir, vanmáttartilfinningu og efasemdir þær sem alltaf sækja á foreldra þegar þeir horfa á börn sín taka fyrstu vængjatökin út í heiminn og skörp þjóðfélagsgagnrýni. Bubbi er gott ljóðskáld. Hann kann að forma hugsun sína á ljóðrænan hátt og meitla þannig að ein setning, eitt orð skili tilfinningalegum blæbrigðum.

 

Ef allar dætur mínar

gætu sagt hver við aðra

ég er örugg

öngvir fálmandi fingur kolbrabbans

um þjó minn og brjóst

Þetta er einlæg ósk og aðkallandi í samfélaginu einmitt núna. Allir óska þess sama, að allar dætur, synir, hán og kvár þessa lands, börn lífsins sem við foreldrar fáum að láni skamma stund, geti sagt ég er örugg/t/ur. Föðurráð er falleg ljóðabók, umhugsunarverð og góð.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 31, 2024 07:00