Tengdar greinar

Jóhanna Knudsen – engill eða illfygli

Nú á dögum er Jóhanna Knudsen helst þekkt fyrir hversu hart hún beitti sér gegn ungum konum í ástandinu svokallaða og nútímafólki þykir hún bæði grimm og andstyggileg. Hún taldi sig hins vegar vera að vinna að þjóðarhag, verja hinn íslenska kynstofn og menningararf. Þegar lyft var leynd af skjölum frá starfsferli hennar sem hún varðveitti og ættingjar hennar afhentu Þjóðskjalasafninu með fyrirmælum um að ekki mætti opna þau fyrr en fimmtíu árum eftir dauða hennar, kom í ljós að hún hafði stundað umfangsmiklar persónunjósnir.

Jóhanna var hins vegar margslunginn persónuleiki og virðist hafa átt til hlýju og umhyggjusemi gagnvart sjúkum þótt vandlætingarsemin hafi orðið til að hún oftúlkaði þau gögn sem hún aflaði um ástandið. Hún fæddist 10. október árið 1897. Hún ólst upp á Akureyri þar sem faðir hennar starfaði við verslun. Þótt hún síðar ætti eftir að afla sér umtalsverðrar óvildar samferðamanna sinna er varla hægt að hugsa sér fallegri eftirmæli en þau sem Aðalbjörg Sigurðardóttir rithöfundur skrifar um hana í 3. tbl. Melkorku árið 1950. Þar segir: „Hér var um annað og meira að ræða, ein hin sannasta og heilsteyptasta dóttir Íslands horfin, kona, sem engar fórnir vildi spara, til þess að verja sæmd fósturjarðarinnar.“

Aðalbjörg kenndi Jóhönnu einn vetur við barnaskólann á Akureyri. Þær virðast hafa orðið vinkonur og verið það æ síðan því þær standa saman að frumvarpi til laga um ástandsmálin árið 1941 ásamt frú Guðrúnu Pétursdóttur. Í frumvarpinu er eftirfarandi lagt til samkvæmt frétt í Alþýðublaðinu 27. september 1941: „Stúlkum yngri en 18 ára sé bönnuð umgengni við hermenn, nema undir alveg sérstökum kringumstæðum, t. d. í fylgd með foreldrum. Stúlkur, sem óhlýðnast þessu, verða fluttar úr bænum. Ungbörn á heimilum, sem eru sundruð eða í upplausn vegna samskipta mæðranna við hermennina, verða látin á barnaheimili. Vandræðastúlkur, sem eru líklegar til að leiða aðrar konur í sömu glötunina, verða settar á sérstakt heimili.

Kvenlögregla verður sett á stofn til að fást við þessi mál. Sérstök nefnd, þar sem sakadómari að líkindum skipar forsæti, mun ákveða, hvaða stúlkur verða fluttar burtu. Hér í Reykjavík verður komið á fót sérstakri rannsóknastöð, en úti á landi þremur dvalarheimilum, einu fyrir börn frá vandræðaheimilum, öðru fyrir ungar stúlkur og þriðja  fyrir vandræðakonur. Löggjöf pessi er að verulegu leyti byggð á því, að foireldrarnír eigi að gæta barna sinría innan ákveðins aldurs, og fullorðið fólk verði að gjæta sín sjálft. Ríkisvaldið bafi því ekki afskifti af eiakalífinu, nema í ítrustiu neyð. Þá skal pess getið að lögin eiga líka að geta náð til pilta.“

Ýktar tölur um fjölda kvenna í ástandinu

Frumvarpið var samþykkt töluvert mildað í kjölfar svonefndrar ástandsskýrslu sem  byggði á gögnum Jóhönnu. Þar segir að lögreglan sé með á skrá 20 prósent af þeim konum sem séu í ástandinu eða 500. Miðað við fjölda kvenna 12 til 61 árs í Reykjavík þá þýddi það að 2.500 konur væru í ástandinu. Nú bendir flest til þess að þær tölur séu út í hött. Í kjölfar ástandsskýrslunnar voru meðal annars sett lög um ungmennaeftirlit og ungar meintar ástandsstúlkur sendar á vinnuhæli á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði og samkvæmt grein Þórs Whitehead sagnfræðings í 2. tbl. Sögu tímarits Sögufélagsins, lék Jóhanna lykilhlutverk við undirbúning og setningu þessara laga.

Hún er ráðin til að rannsaka ástandið og hafði þegar árið 1940 sótt um stöðu kvenlögregluþjóns en ekki orðið af ráðningu þótt lögreglustjórinn Agnar Kofoed Hansen hafi talið ólíklegt að hin „almenna lögregla“ gæti sinnt ástandsmálum við óbreyttar aðstæður. Í grein Þórs segir: „Lögreglan hefði reynt að halda aftur af kvenfólki eftir hernámið, en því verið illa tekið af bæjarbúum og hernum. Breski herlögreglustjórinn hefði jafnvel sagt að setuliðsstjórnin tæki enga ábyrgð á því þó að lögregluþjónarnir fengju „skot í magann“, ef þeir skiptu sér af kvennamálum breskra og kanadískra hermanna.“

Með setningu laganna hafði skapast sá grunnur sem þurfti að mati lögreglunnar og Jóhönnu. Komið hafði verið upp hælum fyrir þær stúlkur sem verst yrðu úti af þessum sökum. Þór tekur fram að í raun hafi ekki verið að undra að ugg hafi sett að ýmsum landsmönnum vegna hernámsins. Ári eftir að fyrstu hermennirnir gengu á land í Reykjavík taldi hernámsliðið 30.000. Hermennirnir voru mun fleiri en íslenskir karlmenn á svipuðum aldri og hlutföll milli kynja í landinu höfðu umturnast. Á þessum tíma var auk þess ríkjandi sterk þjóðernisvakning og Íslendingar í sjálfstæðisbaráttu gegn Dönum. Líklegt er því að margir hafi óttast bæði um sjálfstæði landsins og að menningin biði hnekki ef samskiptin yrðu of náin.

Allt túlkað á versta veg

Í mars 1941 hófst Jóhanna handa við siðferðisrannsókn sína. Hún skiptir konum í fjóra hópa, fullveðja konur og unglingsstúlkur sem ekki höfðu gerst brotlegar við lög, „vandræðakonur“sem lögregla taldi sig hafa sannanir fyrir að stunduðu vændi eða álíka ólifnað og ættu við drykkjuvanda að etja, giftar eða fráskildar konur frá „athugaverðum heimilum“ og stúlkur undir sjálfræðisaldri.

Þór bendir að Jóhanna hafi með rannsókn sinni á fyrsta hópnum í raun farið út fyrir verksvið lögreglu en lögreglustjóri hafði þegar lýst því yfir að hann hefði ekki heimild til að skipta sér af þessum hópi kvenna en með því að beina í raun sjónum sínum helst að þeim sýndi að yfirvöld höfðu  fullan hug á því þótt lögreglustjóri kysi að nota Jóhönnu til þess, enda höfðu fyrri afskipti hans af samskiptum milli hermanna og fullveðja kvenna mælst illa fyrir.

Rannsókn Jóhönnu varð strax umfangsmikil og eftir tvo mánuði taldi hún sig hafa upplýsingar um 500 konur. Hún leitaði víða fanga en fékk mismunandi undirtektir hjá kennurum, læknum, prestum og fátækrafulltrúum. Upplýsingarnar skráði hún tíu bækur en stórtækustu  heimildarmenn hennar voru leynierindreki þáverandi lögreglustjóra og einn tiltekinn lögregluþjónn. Þór Whitehead segir að Jóhanna hafi tvímælalaust litið svo á að í því væru fólgin einhvers konar landráð að konurnar væru í samskiptum við útlendinga og af grein hans má ráða að Jóhanna var ekki ein um þá skoðun. Hermann Jónasson forsætisráðherra og lögreglustjórinn Agnar Kofoed Hansen virðast báðir hafa verið mjög fylgjandi því að konum væri beinlínis bannað að umgangast hermenn og allt væri gert til að stemma stigu við því. Þór bendir einnig á að samneyti milli íslenskra kvenna og Norðmanna sem gengdu herþjónustu í her Breta virðast ekki hafa verið litin jafnalvarlegum augum af mörgum þótt Jóhanna megi eiga að hún gerði ekki mannamun á þessu sviði.

Jóhanna Knudsen

Umfangsmestu persónunjósnir Íslandssögunnar

Auðvitað var rannsókn Jóhönnu og ungmennaeftirlitið sem hún veitti forstöðu hreinar njósnir, það var verið hnýsast í skemmtanalíf, vinaval, siðferði og kynlíf þeirra kvenna sem rannsóknin beindist að með skipulögðum hætti.  Síðar voru þess dæmi að ungum konum sem Ungmennaeftirlitið hafði afskipti af væri haldið nauðugum í unglingaathvarfi bæjarins án þess að dómari fjallaði um mál þeirra. Sumar ungar stúlkur voru sviptar sjálfræði og fluttar unglingaheimilið að Kleppjárnsreykjum og látnar vinna þar sveitastörf. Lögreglan fór langt út fyrir sitt hlutverk í þessum aðgerðum, bæði hvað varðar persónunjósnir og afskipti af konum sem fæstar höfðu gert neitt af sér  sem snerti lögin í landinu.

Langt var frá því að allir væru sammála Jóhönnu og þeim sem harðast vildu beita sér gegn ástandskonum. Systkinin Kristján og Guðrún Guðlaugsbörn töluðu mjög gegn ungmennaeftirlitinu og ástandsskýrslunni. Kristján var ritsjóri Vísis og lærður lögfræðingur. Hann virðist hafa verið skynsamur og fljótt séð að gögn Jóhönnu stæðust ekki skoðun. Laufey Valdimarsdóttir stóð einnig upp á fjölmennum fundi Stúdentafélags Reykjavíkur og talaði fyrir réttindum kvenna og mannúð.

Nokkrir mektarmenn og konur stóðu þó alltaf með Jóhönnu og töldu baráttu hennar nauðsynlega. Þeirra á meðal var Jón Pálsson formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur en hann skrifar grein í Morgunblaðið 24. nóvember 1943 þar sem hann ver ungmennaeftirlitið og færir eftirfarandi rök fyrir nauðsyn þess: „Þegar hermannafylkingar tveggja stórvelda tóku að streyma inn í landið, og í kjölfar þeirra flæddi óvænt peningaalda yfir fátæka þjóð var það þrekraun fyrir æskuna að halda fullum sönsum.“

Kynni kvenna af hermönnum þjóðarböl

Síðar í greininni talar hann svo um að yfirvöld hafi ekki brugðist nægilega fljótt við og svo um viðleitni ríkisstjórnar Hermanns Jónassonar til bjargar: „Þetta var ekki gert, og ein afleiðing þess, hin miklu kynni ungra stúlkna af setuliðsmönnum, er nú orðin þjóðarböl. … Var hugmynd hennar, að reyna að bjarga einhverju af þeim börnum, sem verst hefðu orðið úti, og fyrirbyggja að fleiri færu sömu leið.“

Aðalbjörg Sigurðardóttir, vinkona Jóhönnu, stóð einnig fast í fæturnar í stuðningi sínum við hana og í eftirmælunum um hana segir hún: „Ég minnist starfs hennar við ungmennaeftirlitið hér í Reykjavík, sem oft var raunalega misskilið. Fyrir henni vakti ekkert annað en að bjarga telpunum, sem undir hennar umsjón komu. Hvert mannslíf var henni svo óendanlega mikils virði, ekki eingöngu það að manneskjan mætti halda lífi heldur engu síður að henni væri hjálpað til að lifa sæmandi mannlífi, hamingjusömu og heiðvirðu, því Jóhanna vissi það með bjargfastri sannfæringu að engin hamingja getur fylgt lausung, kæruleysi og eftirlæti við lágar hvatir.“

Þegar heimastjórnin fer frá árið 1942 tekur utanþingsstjórn við völdum. Einar Arnórsson gegndi embætti dómsmálaráðherra í þeirri stjórn og hann ákveður þegar árið 1943 að leggja niður heimilið að Kleppjárnsreykjum og færa barnaverndaryfirvöldum sitt fyrra hlutverk en þar með varð ungmennaeftirlitið í raun valdalaust og óþarft. Jóhanna deildi hart á dómsmálaráðherra í blaðagreinum og víða og sakaði hann um að ofurselja stúllkubörn hernum. Gífuryrðin bitu hins vegar ekki á Einar en hann sagði Jóhönnu upp störfum haustið 1944.

Hjúkrunarkona af hugsjón

Því miður vitum við ekki hvað varð til þess að hjúkrunarkona ákvað að beygja af leið og helga sig leynilögreglustörfum í þágu siðferðis í landinu. Jóhanna virðist þó hafa verið hugsjónakona að minnsta kosti segir Aðalbjörg vinkona hennar að hún hafi ákveðið að yfirgefa vellaunað skrifstofustarf og læra hjúkrun. „Ég undraðist það táp og festu að ætla fulltíða kona að leggja inn á nýja starfs- og lærdómsbraut. Hún sagði mér þá, að það væri sem mannlegar þjáningar kölluðu á sig, hún yrði að læra til þess að geta líknað, svo að gagni kæmi, hún gæti ekki lengur verið aðgerðarlaus áhorfandi. Þó myndi henni alltaf hafa verið fyrirbyggjandi líknarstarf kærast.“

Jóhanna nam hjúkrun í Osló og lauk prófi árið 1930 og framhaldsnámi á Papworth-berklasjúkrahúsinu í Cambridgeshire á Englandi. Hún starfaði á Landspítalanum og sem forstöðukona vinnhælis berklasjúklinga að Reykjum í Ölfusi. En lengst af eða árunum 1934-40 starfaði hún á sjúkrahúsinu á Ísafirði og þá skrifar hún grein í Hjúkrunarkvennablaðið. Þar sýnir hún mikla framsýni og skilning á kjörum sjúklinga sem telja má í andstöðu við viðbrögð hennar við aðstæðum ýmissa ógæfukvenna og barna sem hún hafði afskipti af síðar í tengslum við ástandið.

Í greininni er talað um hvort hjúkrun eiga að miðast við sjúklinginn eða starfsfólkið og Jóhanna hallast að því fyrrnefnda. Hún segir starfsfólk oftar en ekki of fastheldið á venjur og skipulag en hér á landi sé hjúkrunarstéttin ung og því sé tækifæri til að skapa góðar fyrirmyndir og gott fyrirkomulag. Síðan segir hún: „Til að forðast að verða að vinnuvélum, þurfum við annað slagið að gefa okkur tíma til þess að reyna að horfa á okkar eigið starf með annarra augum, til dæmis augum sjúklinganna og aðstandenda þeirra, eða með okkur eigin augum, eins og þau voru áður en við urðum hjúkrunarkonur. Okkur kemur áreiðanlega öllum saman um það, að sjúkrahúsin eru eingöngu vegna sjúklinganna. Ef fyrirkomulag á sjúkrahúsum er miðið við þetta, þá er allt á réttri leið, og ef við notum þennan mælikvarða við athugun okkar, hljótum við að komast að réttri niðurstöðu.“

Nauðsynlegt að sýna sjúklingum tillitssemi

Hún heldur áfram og talar um sjúklingar séu vaktir þegar best hentar fyrir hjúkrunarkonurnar en ekki leyft að hvílast þótt þeir sárlega þarfnist hvíldar. Hún nefnir einnig að vert sé að haga nauðsynlegu starfi þannig að sem minnstri truflun valdi fyrir sjúklingana og reyna að ganga hljóðlega um hljóðbær sjúkrahús. Það er erfitt að samræma þá konu sem hér talar við hina hrokfullu lögreglukonu sem talar niður til kvenna og nefnir þær skækjur, vandræðakonur, lauslætisdrósir og fleira. Hér er ekki að finna öfgafull viðhorf heldur þvert á móti hlýju og skilning, enda segir Aðalbjörg að hún hafi verið yndisleg og stórgáfuð og gengið meðal sjúklinga sinna eins og líknandi engill. Afskipti hennar og kærleiksrík umhyggja náði oft langt út fyrir sjúkrahúsið.

Aðalbjörg telur að sterkasti þátturinn í skapgerð Jóhönnu hafi verið ástríðuþrungin elska hennar á landi sínu, menningu og þjóð. Kannski er þar að finna skýringuna á hátterni hennar við „rannsóknir“ á ástandinu og framgöngu við ungmennaeftirlit. Það má sömuleiðis fullyrða að viðhorf Jóhönnu samræmdust vel skoðunum þeirra ráðamanna sem hún starfaði fyrir og þeir hvöttu hana fremur en löttu til verka. Nú á dögum er ljóst að samskipti íslenskra kvenna við hermenn á stríðsárunum var langt frá því jafnstórt áhyggjuefni og margir vildu vera láta og ekkert ástand skapaðist umfram það sem eðlilegt gæti talist. Langflestar þær konur sem stunduðu vændi á þessum árum höfðu leiðst út í slíkt fyrir stríð og héldu því áfram eftir að setuliðið gekk á land. Langflestar íslenskar konur stunduðu ekki annað saklausa skemmtun og dans með hermönnum og margar urðu einfaldlega ástfangnar og giftust sínum dansherrum. Líklega verður aldrei fyllilega ljóst hvað Jóhönnu og nefndarmönnum þeim er gáfu út ástandskýrsluna gekk til að sverta svo ímynd ungra kvenna á þessum árum en vitað er að margar konur fengu líða fyrir þau orð sem rötuðu inn í skýrsluna, í minnisbækur Jóhönnu Knudsen og vegna afskipta hennar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 3, 2025 07:00