Öll þekkjum við orðtakið að hreppa hnossið og vitum að hnoss er eitthvað eftirsóknarvert. Færri vita hins vegar að Hnoss og Gersemi voru dætur Freyju og líklega engir eftirbátar móður sinnar. Sumir telja að vísu að Freyja hafi aðeins átt eina dóttur og bæði nöfnin tilheyrt henni. Hugsanlega er það rétt en í Holtseli í Eyjafirði er framleiddur ís sem ber nafnið Hnoss og þar er úr tuttugu og fjórum tegundum að velja.
Ísgerðin í Holtseli er orðin nítján ára gömul og þau hafa sannarlega náð að fullkomna tæknina. Allir sem eiga leið um Akureyri ættu að skreppa í bíltúr til að heimsækja ísbúðina og rabba við landnámshænurnar sem spranga um innan um gesti. Í dag reka Arna Mjöll Guðmundsdóttir, Styrmir Frostason og Fjóla Kim Björnsdóttir kúabúið Holtsel og ísbúðina Holtsels Hnoss.
Þau kjósa að leyfa kúnum að ganga um frjálsar úti svo gestir geta þakkað þeim hnossið sem þeir hrepptu í ísbúðinni ef þeir rekast á þær. Á bænum er líka framleitt fyrsta flokks nautakjöt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.