Á undanförnum árum hefur dregið mjög úr neyslu á fiski hér á landi og segja má að það sé kaldhæðnislegt að fiskveiðiþjóðin borði ekki lengur fisk. Að svo sé er ekki gott frá manneldissjónarmiðum en fleira hangir á spýtunni því nýjar rannsóknir vísindamanna sýna að þeir sem borða mikinn fisk eiga síður á hættu að fá brjóstakrabba eða hjartasjúkdóma og finna sjaldnar fyrir þunglyndi en hinir sem borða oftar kjöt. Kannski er þarna komin skýringin á því hvers vegna við Íslendingar voru eitt sinn sagðir hamingjusamasta þjóð í heimi í einhverri könnun.
Yfir 2000 rannsóknir hafa verið gerðar á hollustu omega-3 fitusýra sem fiskur inniheldur í ríkum mæli og niðurstöðurnar gefa óyggjandi til kynna að þær séu með því betra sem fólk lætur ofan í sig. Nýjustu rannsóknir benda til að fiskur innihaldi einnig efni sem dragi úr líkum á að menn fái alzheimersjúkdóminn, hjartaáföll og fleiri sjúkdóma auk þess að auka mönnum bjartsýni og andlegt þrek. Erlendir næringarfræðingar eru farnir að mæla með að fiskur sé á matseðlinum minnst þrisvar í viku og segja að séu menn að hugsa um hollustu matarins sem þeir borði sé best að venja sig á að borða mikinn fisk.
Í sérstakri rannsókn sem gerð var á áhrifum omega-3 á brjóstakrabba kom í ljós að taki vestrænar konur inn allt að 10 g af fiskolíu á dag breyti það vefjagerð brjósta þeirra og geri hana líkari vefjagerð brjósta austurlenskra kvenna en tíðni brjóstakrabba meðal Asíubúa er aðeins þriðjungur þess sem hún er á Vesturlöndum. Til að ná þessu magni úr fæðunni þyrfti að borða lax, túnfisk, makríl eða lúðu sjö sinnum í viku en sérfræðingar segja að það sé hollara að líkaminn vinni næringuna sjálfur úr matnum en að taka inn fæðubótarefni sem innihaldi omega-3 fitusýrur.
Vægt þunglyndi er ákaflega algengt og talið er að u.þ.b. einn af hverjum fimm Ameríkönum þjáist af þunglyndi tímabundið eða fái köst af og til. Nú hefur sýnt sig að fiskát dregur úr þessum köstum og flýtir fyrir að vanlíðanin gangi yfir því í löndum þar sem meira er borðað af fiski en í henni Ameríku er hlutfallið mun lægra jafnvel allt niður í einn af hverjum tíu (í Japan). Í fiski er auk þess efni sem heitir „taurine“ og allt bendir til að það dragi úr kvíða. Þetta telja vísindamenn skýringuna á því að fiskætur sýna færri streitueinkenni en hinir.
Til eru margar gerðir omega-3 fitusýra og heitir hver sínu nafni. Ein þeirra DHA hefur hvetjandi áhrif á heilavefsfrumur og 40% minni líkur eru á að eldra fólk sem hefur mikið af DHA í líkamanum fái alzheimersjúkdóminn en þeir sama hafa minna. DHA hefur auk þess hvetjandi áhrif á framleiðslu boðefna í heilanum og fiskur inniheldur mikið af DHA.
Flestir hafa þegar heyrt að mikið fiskát heldur hjartanu heilbrigðu því omega-3 fitusýrur draga úr kólesterólmagni í blóðinu og lækka blóðþrýsting. Nýjar rannsóknir sýna einnig að næringarefni í fiski vernda hjartað með því að minnka magn þríglýseríðs (en vísindamenn komust nýlega að því að mikið magn þríglýseríðs eykur líkur á hjartaáfalli) og fitumólekúla í blóðinu sem stífla slagæðar.
Þarf nú lengur vitnanna við heldur ætti að vera augljóst að með því að auka neyslu á fiski er hægt að bæta lífsgæði sín til mikilla muna. Fiskur er auk þess ákaflega fjölbreytt og skemmtilegt hráefni að matreiða.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







