Helgi Pétursson tónlistarmaður, fjölmiðlamaður, almannatengill og hugsjónamaður er fallinn frá. Hann lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi aðfararnótt 13. nóvember. Helgi fæddist í Reykjavík 28. maí 1949 en ólst upp í Kópavogi. Hann var sonur Kristínar Ísleifsdóttur húsmóður og Péturs Kristjónssonar bílstjóra.
Helgi stofnaði hljómsveitina Ríó Tríó ásamt þeim Ólafi Þórðarsyni og Halldóri Fannari árið 1965, en seinna átti Ágúst Atlason eftir að ganga til liðs við sveitina. Helgi spilaði á kontrabassa í sveitinni og söng. Ríó Tríó naut fádæma vinsælda og þeir félagar komu reglulega saman í gegnum árin og gáfu út plötur. Þeir voru sömuleiðis vinsælir skemmtikraftar í einkasamkvæmum og á árshátíðum fyrirtækja og stofnana.
Helgi lauk kennaraprófi frá Kennarasháskóla Íslands árið 1970 og starfaði við kennslu í Þinghólsskóla í Kópavogi á árunum 1970 til 1973. Helgi átti fjölbreyttan og farsælan feril í fjölmiðlum; í útvarpi, sjónvarpi og prentmiðlum. Hann lærði fjölmiðlafræði við American University í Washington DC á fyrri hluta níunda áratugarins og var meðan á náminu stóð fréttaritari Ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum. Hann var jafnframt blaða- og fréttamaður á Dagblaðinu, fréttastofu RÚV og Stöðvar 2 á árunum 1975-1991. Hann tók við ritstjórn Vikunnar árið 1979 og ritstýrði tímaritinu í ár. Auk þess starfaði Helgi að markaðs- og upplýsingamálum hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum, m.a. hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Samvinnuferðum Landsýn.
Helgi var virkur í stjórnmálum og átti sæti í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Reykjavíkurlistann á árunum 1994 til 2002, fyrst sem varaborgarfulltrúi á fyrra kjörtímabilinu. Eftir að ferli hans á vinnumarkaði lauk formlega beitt Helgi sér ötullega fyrir bættum kjörum eldri borgara. Hann var formaður Félags eldri borgara, einn af stofnendum Gráa hersins og formaður Landssambands eldri borgara.
Eftirlifandi eiginkona Helga er Birna Pálsdóttir, fædd 1953, Börn þeirra eru Bryndís, fædd 1977, Pétur, fæddur 1978, Heiða Kristín, fædd 1983, og Snorri, fæddur 1984. Barnabörnin eru tólf talsins.







