Púandi viðmælendur ekki velkomnir

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

 

Fyrir nokkrum árum var ég að vinna efni fyrir sjónvarp. Þar voru ungir krakkar spurðir um notagildi  gamalla hluta frá Minjasafninu á Akureyri. Meðal þessara hluta var öskubakki. Þeir vissu ekki svarið enda sjást öskubakkar æ sjaldnar á venjulegum heimilum. Þegar ég var ung voru þeir skrautmunir á stofuborðinu. Nú á ég engan öskubakka enda ekki í boði að reykja heima hjá mér.

Það hefur dregið mikið úr reykingum á Íslandi, sem er árangur af áratuga fræðslustarfi. Mér er sagt að nú sé hætt að vera með sérstaka fræðslu í skólum um skaðsemi reykinga vegna þess að þess þurfi ekki lengur. Mér brá því verulega þegar ég sá eina af okkar þekktust söngkonum reykja í Kastljósviðtali fyrir skömmu. Hún er örugglega fyrirmynd margra ungra stelpna og þess vegna þótti mér þetta afar undarlegt. Hvað gekk henni til? Átti þetta að vera flott? Mér fannst það ekki og er þeirrar skoðunar að spyrillinn hefði átt að sjá til þess að hún gerði hlé á reykingunum á meðan viðtalið fór fram. Ég skrifaði þetta á reynsluleysi fréttamannsins. En nú er búið að endurtaka leikinn og það í fjölskylduvænum dagskrárlið hjá Gísla Marteini á föstudagskvöldi, einum af okkar reyndustu þáttastjórnendum. Þá er þetta hætt að vera tilfallandi slys.

Ég vann mörg ár í sjónvarpi. Meðal þess sem maður þurfti að huga að var að fólk kæmi sem best frá viðtalinu. Ef fólk var að reykja bað maður um að slökkt væri í á meðan viðtalið átti sér stað. Sama gilti um tyggigúmmí. Mér fannst það vera hluti af minni vinnu að sjá til þess að viðmælendur kæmu sem best fyrir. Það gera þeir ekki púandi þegar alþjóð veit um skaðsemi reykinga. Persónulega sé ég  heldur enga fegurð eða flottheit í þessari aðgerð.

Á undanförnum árum hef ég verið að hrósa Íslendingum fyrir að hafa lagt reykingar á hilluna og að varla sjáist Íslendingur lengur reykjandi á almannafæri. Ég segi erlendum ferðamönnum stolt frá þeim mikla árangri sem við höfum náð í þessum efnum. Á síðustu öld var ég með herferð í sjónvarpinu til þess að vekja athygli á skaðsemi reykinga. Í kjölfarið dró strax verulega úr reykingum. Sjálf á ég marga vini og góðkunningja sem hafa farið úr lungnakrabbameini og byrjuðu kannski að reykja án þess að átta sig á afleiðingunum. En nú vitum við betur.

Ég er svo lánsöm að hafa aldrei reykt. Þegar foreldrar mínir voru að ala okkur krakkana upp vissu þau af einhverju ástæðum um skaðsemi reykinga og hvöttu mig eindregið til þess að halda mig frá tóbaki. Hins vegar sat maður oft í reyknum frá öðrum, bæði á einkaheimilum og á vinnustað. Margir af félögum mínum á fréttastofu Sjónvarps reyktu endalaust við ritvélarnar og öskubakkarnir voru fullir af stubbum að kvöldi dags. Það var ekki hlustað á okkur sem ekki reyktum. Rétturinn var hinna. Sem betur fer er þetta liðin tíð og nú er víðast bannað að reykja innandyra í almannarými. Mér finnst að það eigi líka að gilda um upptökuver Ríkisútvarpsins og hvet ráðamenn þar eindregið til þess að setja upp reglur þar um ef þær eru ekki til nú þegar. Púandi viðmælendur eru ekki velkomnir heim í mína stofu.