Notaleg nánd þegar amma og afi lesa

Eitt af því skemmtilegasta sem ömmur og afar geta gert með barnabörnunum er að lesa skemmtilegar barnabækur. Þá gefst tækifæri til að halda börnunum þétt að sér og fjörugustu ærslabelgir eiga þá til að róast og hlusta af andakt. Á hverju ári kemur út fjöldi vel unninna barnabóka á Íslandi og höfundar þeirra eiga stóran þátt í að viðhalda íslensku máli og kenna börnum að nota málið sér til gleði. Lifðu núna hefur kynnt sér eftirtaldar barnabækur og mælir með þeim í jólapakkann, í skóinn eða að taka þær á bókasafninu og njóta næst þegar börn koma í heimsókn.

Ég bý í Risalandi eftir Birnu Daníelsdóttur er fyndin og fjörlega skrifuð saga um það hvernig það er að vera lítill í heimi þar sem allir gnæfa yfir þig og allir hlutir eru hannaðir fyrir fullorðna. Birna Daníelsdóttir er sjávarlíffræðingur að mennt en lét drauminn um að starfa að myndlist rætast fyrir nokkrum árum þegar hún fór í nám í teikningu og hafði sannarlega erindi sem erfiði. Hún hlaut Sólfaxa – íslensku  barnabókaverðlaunin í ár fyrir þessa yndislegu bók.

Torf, grjót og burnirót eftir Sigrúnu Eldjárn er ekki bara skemmtileg barnabók heldur líka einstaklega fræðandi og það bæði fyrir börn og fullorðna. Það er íslenski torfbærinn sem var henni innblástur að þessari frábæru bók og hér er hluta af byggingasögu okkar gerð góð skil og það á svo áhugaverðan og aðgengilegan hátt að allir hafa bæði gagn og gaman af. Sigrúnu þarf ekki að kynna fyrir íslenskum nemendum. Henni er svo lagið að segja dásamlegar sögur og myndskreytingar hennar svo fallegar og heillandi að það er hrein unun að lesa upphátt úr bókum hennar.

Flóttinn á norðurhjarann eftir Nönnu Rögnvaldardóttur hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár og það var sannarlega verðskuldað. Þessi bók er spennandi, áhugaverð og svo einstaklega raunsönn að hún hittir mann beint í hjartastað. Hún veitir líka færi á að ræða við unga áheyrendur og lestrarhesta um lífskjör fólks hér á landi áður og fyrr og nú og ýmsar lexíur um samhjálp, samlíðan og skilning á kjörum annarra sem lesa má milli línanna.

Fíasól og litla ljónaránið eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Halldór Baldursson er dásamleg saga, full af kímni, fjöri og yndislegum uppákomum. Kristínu Helgu þarf ekki að kynna íslenskum börnum þau þekkja flest öll Fíusól og kunna afskaplega vel við hana. Þetta er frábær viðbót í safnið og fullkomin endir á góðum degi að draga hana fram því það er nokkuð öruggt að lítil eyru munu sperrast og vera stillt á hlustun.

Hið sama gildir um Obbuló í kósímó; Gjafirnar Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Halldór Baldursson. Krakkar þekkja þessa persónu og vita að það er ávísun á góða skemmtun þegar Kristín Helga stingur niður penna.

Birtingur og símabannið mikla er dásamleg saga eftir Gunnar Helgason. Gunnar er meðal bestu barnabókahöfunda okkar og það er alltaf tilhlökkunarefni að taka fram bók eftir hann og byrja að lesa með barnabarni. Eitt af því besta við hann er að það hefur gagnast undirritaðri nokkuð oft að byrja að lesa bækur hans með barni úr fjölskyldunni, senda það síðan heim með bókina og meira að segja hörðustu lesletingjar geta ekki sleppt því að halda áfram og lesa söguna til enda.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Skólastjórinn eftir Ævar Þór Benediktsson segir frá hugmyndaríkum 12 ára strák sem nýtir frjóan hugann oft til að gera kennurum sínum lífið leitt. Hann sækir um skólastjórastöðuna þegar hún losnar og hreppir hana óvænt. Hann breytir skólareglunum og það verða pítsur í hádeginu og kandífloss á eftir, alla daga, nemendur mega reka tvo kennara á ári og fleira almennilegt. Þetta er ekki bara bráðfyndin, vel skrifuð og úthugsuð bók heldur líka hugljúf og vekur til umhugsunar. Hún er afar skemmtilega myndskreytt af Elínu Elísabetu Einarsdóttur. Hún hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og hefur verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár, í flokki barna- og ungmennabóka.

Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur segir frá stúlku sem býr sig undir að fara á fyrsta skólaballið í 10. bekk þegar lífið breytist skyndilega. Rafmagnið fer, símar hætta að virka, netið, bílar, flugvélar, allt sem áður þótti sjálfsagt. Smám saman breytist samfélagið, reglur hætta að vera til og hver verður sjálfum sér næstur. Þó má finna samkennd og von í öllum þessum hryllingi. Virkilega góð og spennandi ungmennabók sem er bæði tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna. Mæli með fyrir öll ungmenni á aldrinum 10-99 ára.

Guðríður Haraldsdóttir blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna