Heill og heilsa

Nú fást alls konar ber allt árið í matvöruverslunum hér á landi og gott að muna að öll ber eru góð frosin og sjálfsagt að grípa til þeirra allan veturinn. Ber eru rík af andoxunarefnum og einstaklega trefjarík. Bláberin innihalda líka B6- og K-vítamín og aðeins þarf 100 grömm af bláberjum til að uppfylla um 20% af ráðlögðum dagsskammti af E-vítamíni og yfir helming ráðlags dagsskammts af C-vítamíni. Rannsóknir benda einnig til þess að ber séu rík af flavenóíðum sem draga úr bólgumyndun og geti dregið úr virkni gena sem tengd er ferli sumra krabbameina og æðasjúkdóma. Það er því allt sem mælir með því að borða ber.

Ljúffengir og fjölbreyttir

Sveppir eru merkilegar lífverur. Sá hluti sem er sýnilegur ofanjarðar er minnsti hluti lífverunar og í raun æxlunarfæri hennar. Þeir hafa verið notaðir frá örófi alda í matargerð og bæta mjög ljúffengu bragði í pottrétti og eru tilvalið meðlæti með hverju sem er. Um það bil 550 tegundir sveppa vaxa hér á landi og flestir þeirra tilvaldir til átu. Með aukninni skógrækt hefur sveppagróður einnig aukist og tilvalið að fara í sveppatínslu um skógana á haustin og hafa með sér góða bók til að tryggja að ekki séu tíndar eitraðar tegundir. Sveppir eru mjög ríkir af prótíni og margvíslegum næringarefnum. Þá má skera niður, léttsteikja á pönnu og frysta en einnig er gott að sjóða þá niður eina og sér eða  með tómötum og öðru grænmeti. Nokkrar tegundir þeirra eru ræktaðar hér á landi og fást ferskir í verslunum og einnig þurrkaðir íslenskir villisveppir. Þetta er góður og prótínríkur matur og gott að nýta sér hann þegar skammdegið ríkir.

Drekktu í þig hollustuna

Margir byrja daginn á að drekka eitt glas af sítrónuvatni en það virkar hreinsandi og örvandi á meltingarfærin. Sítrónur eru hins vegar ekki einu ávextirnir sem gott getur verið að drekka í sig. Hindberja- eða brómberjate eru frískandi og góðir drykkir og gott að merja berin saman við hvítt eða grænt te. Melónur og appelsínur eru líka ávextir sem gott er að blanda í te eða gera úr heita og kalda drykki. Til að auka enn á hollustuna er gott að krydda teið ofurlítið með engiferrót, fennel eða hibiscus-blómum.

Rauðir og rosalega hollir

Lýkópen heitir efnið sem gefur tómötum rauða litinn. Rannsóknir hafa sýnt að það dregur úr bólgum í líkamanum og getur virkað hamlandi á vöxt krabbameinsfrumna. Tómatar innihalda mismikið lýkópen en því rauðari sem þeir eru því betra. Þess má einnig geta að vatnsmelónur eru einnig ríkar af lýkópeni.

Streita karla öðruvísi en kvenna

Rannsóknir sýna að kynin bregðast mjög mismunandi við streitu. Karlmenn eiga erfiðara með að standa með sjálfum sér þegar kemur að tilfinningamálum og draga sig því oft í hlé fremur en að ræða málin. Þeir eru líklegri til að bæla erfiðar tilfinningar sem fá þá útrás í reiði og árásargirni. Bældar tilfinningar geta einnig valdið magaverkjum og meltingartruflunum. Konur reyna að ræða málin en eiga erfiðara með að fá útrás í líkamlegum átökum og hreyfingu. Streitan sest því oft að í vöðvunum og veldur verkjum, vöðvabólgu og höfuðverk.