Nokkrir molar um heilsu

Rannsóknir sýna að sítrusávextir eru góðir fyrir húðina. Appelsínur, sítrónur og límónur eru auðugar af C-vítamíni sem stuðlar að því að menn fái síður kvef en einnig hægir það á öldrun húðarinnar. C-vítamín er einnig talið geta hægt á skiptingu frumna í húðkrabbameini. Þeir sem reykja eiga erfiðara með að nýta C-vítamín en þeir sem ekki reykja og þurfa því margfalt stærri skammta af þessu holla efni yfir daginn en hinir. Reyklaus maður þarf aðeins 60 mg af C-vítamíni á dag en þann skammt má auðveldlega fá úr fæðunni, til að mynda nægir að borða eina stóra appelsínu eða eitt kíví til að ná því. Reykingamaður þarf hins vegar 2000 mg á dag og þeim skammti nær enginn án þess að taka hreinlega inn C-vítamín í töfluformi.

Gómsæt hollusta

Sólþurrkaðir tómatar eru mikið sælgæti í pottrétti, á pizzur og einir sér. Þeir eru fitusnauðir en góð uppspretta vítamína og einnig litarefnis sem er í berki tómatanna og talið er geta hamlað gegn ýmsum tegundum krabbameins. Þeir sem hafa áhyggjur af aukakílóunum ættu hins vegar að forðast sólþurrkaða tómata maríneraða í kryddolíu því ótrúlega mikill fita síast inn í tómatana úr olíunni.

Góður matur í góðum hópi

Rannsóknir vísindamanna sýna að góður matur sem notið er í vinahópi er ávallt hollur. Það gerist eitthvað þegar líkaminn losar vellíðunarboðefni við hlátur, skvaldur og léttleika sem auðveldar meltingu. Það er því góð hugmynd fyrir fjölskyldur að koma saman yfir kvöldmatnum á hverju kvöldi, jafnvel dúkleggja borð, spila rólega tónlist og tala saman. Maturinn þarf ekki að vera flókinn eða margréttað. Hér eru það félagslegu tengslin sem myndast yfir mat sem skipta máli. Að borða liðkar um málbeinið og vekur ánægjutilfinningu hjá flestum og við matarborðið eiga þvi allir auðveldara með að brydda upp á samræðum og spjalla. Í öllum tilvikum er hægt að tala um matinn sem á borðum er.

Dekur í allan vetur

Veðurfar á veturna hefur ekki bara áhrif á andlega líðan fólks. Líkaminn bregst við frosti, kulda og myrki á sinn hátt. Hárið verður rafmagnað og óviðráðanlegt í frostinu, neglurnar brotna og húðin verður blettótt og þurr. Við þessu eru ýmis ráð og hægt er að bregðast við þessum vandamálum og dekra svolítið við sjálfan sig í leiðinni.

Þegar frosthörkur ríkja og hárið fer að verða rafmagnað og óviðráðanlegt er gott að nota góða næringu sem auðveldar þér að fá lokkana til að falla á réttan hátt. Mældu hálfan bolla af hárnæringunni sem þú notar venjulega, helltu saman við hana einum fjórða bolla af hunangi og hrærðu síðan tveimur teskeiðum af möndluolíu út í. Nuddaðu blöndunni vel inn í blautt hárið og leyfðu henni að vera í hárinu í tuttugu mínútur. Skolaðu hárið síðan vel og, vittu til, það verður glansandi og fallegt og mun viðráðanlegra en áður.

Húðin á höndunum verður oft þurr á veturna og neglurnar stökkar en með því að nota þessa einföldu blöndu verða hendurnar mjúkar og neglurnar fallegar. Taktu einn fjórða bolla af sykri og settu saman við sítrónusafa þannig að úr verði seigfljótandi blanda. Smyrðu þessu á hendurnar og neglurnar og nuddaðu því vel inn í húðina í nokkrar mínútur. Skolaðu hendurnar með köldu vatni og berðu á þig góðan handáburð meðan þær eru enn blautar. Það sem eftir verður af blöndunni getur þú geymt í ísskáp þar til þér finnst aftur ástæða til að mýkja hendurnar og gefa þeim fallegra yfirbragð.

Fæturnir fá alltof sjaldan þá athygli sem þeir þurfa. Ef við sinnum húðinni á fótunum vel líður okkur betur yfir daginn og sokkar endast lengur. Þegar fæturnir eru lausir við líkþorn og sigg líður okkur líka betur í skóm og þreytumst síður. Til að hreinsa húðina á fótunum og halda henni mjúkri og sléttri er gott að fara í fótabað með einum bolla af sítrónusafa, einum fjórða bolla af mjólk og bæta við nokkrum dropum af ilmolíu sem þér líkar lyktin af. Rósa- eða lofnarblómailmur er til að mynda mjög sefandi. Þessu er hellt út í volgt vatn í bala og fæturnir látnir vera í vatninu í nokkrar mínútur. Síðan eru þeir teknir upp úr og þurrkaðir vel.