Birna hafði alveg dökkbrúnt hár. Hún byrjaði að grána eftir að hún missti son sinn af slysförum, en það getur gerst þegar fólk verður fyrir áföllum. „Ég lét í það strípur á meðan brúni liturinn var að hverfa alveg og klippti mig stutt“ segir Birna. Hún ákvað að lita hárið ekki, þar sem hún taldi að í háralit væru efni sem gætu farið inní húðina. Lyktin af þeim væri til dæmis mjög sterk.
Mömmu þótti þetta agalegt
„Ég bara leyfði þessu að gerast og sé ekki eftir því. Þetta var náttúran og ég hafði ekki áhuga á að breyta þessu með efnum sem ég hef alltaf haft grun um að séu ekki æskileg“, segir Birna. En vissulega hafi hún fengið viðbrögð og mömmu hennar þótti þetta „agalegt“ og fannst hún eldast um mörg ár. Hárgreiðslumanninum hennar fannst líka að hún ætti að lita hárið brúnt. „En hann fór samt í gegnum þetta með mér“, segir hún og bætir við að hver og einn verði að finna út hvað honum hentar.
Flott gráhærð kona
Birna sem var komin með alveg ljósgrátt hár fyrir um 10 árum heyrir hins vegar ekki mikið um þetta talað lengur og segir að nú sé gráhvíti liturinn kominn í tísku. Hún bendir á að margar konur, eins og til dæmis Christine LaGarde hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sé flott gráhærð kona og sér finnist hún ekki gömul.