Júlía P. Andersen, innanhússarkitekt fór til Ástralíu fyrir nokkrum árum, með axlasítt dökkt hár. Menn ætluðu varla að þekkja hana þegar hún kom tilbaka með snöggklippt grátt hár. Það var maðurinn hennar Hjalti Elíasson sem klippti hana, en hann var búinn að hvetja hana til að leyfa gráa hárinu að vaxa fram. „Ég er mjög ánægð með þessa ákvörðun. Þetta er svo þægilegt“, segir hún. Júlía er líka verulega flott með gráa hárið, sem er einmitt í tísku um þessar mundir.
Hippabyltingin
Tíðindamaður Lifðu núna og Júlía, mæltu sér mót á kaffihúsinu Haiti, en þar inni var sumar og sól, þótt kuldinn væri farinn að bíta úti og komin rigning í ofanálag. Það skemmdi ekki fyrir að það var líka suðræn sveifla innandyra. Júlía er tágrönn og smart kona sem er komin yfir miðjan aldur. „Hippamenningin gerði mikið fyrir okkur“, segir hún. „Fólk fór að hugsa öðruvísi, menn urðu frjálslyndari og í mínum huga var þetta bylting, ef miðað er við líf foreldra okkar“.
Fólk varð ráðsett
Henni finnst þetta hafa haft áhrif á sína kynslóð „ Fatastíll varð frjálsari en áður, brjóstahöldin fengu að fjúka, gallabuxur urðu hversdags klæðnaður og hárið fékk að vaxa hjá báðum kynjum. Þetta þótti byltingarkennt þá, en er í dag ósköp eðlilegt. Menn eru ekkert feimnir við að klæða sig eins og unglingar fram eftir aldri, en það var hreinni skipting hér áður. Fólk varð ráðsett með aldrinum og klæddi sig á ákveðinn hátt, konurnar til dæmis í „Hagkaupssloppa“ við heimilisstörfin.
Hreyfing nauðsyn
Spjallinu á Haiti var ætlað að fjalla um hreyfingu, því Júlía hreyfir sig mikið og fer 3-4 sinnum í viku í leikfimi hjá Báru í JSB. Hún segir hvetjandi að horfa uppá konur sem eru eldri en hún, hreyfa sig reglulega. „Hreyfing er mér nauðsynleg , ég er kyrrsetumanneskja, en finnst gott að ganga úti í náttúrunni. Við erum með sumarbústað í Mýrdal og umhverfið þar býður upp á góðar gönguleiðir“.
Áttræð í fjallgöngum
Júlía segist hafa gengið á Mælifellshnjúk fyrir nokkrum árum. „Og þegar við komum upp þá situr þar kona trúlega um eða yfir áttrætt. Hún hafði rekist á lítinn bækling um fjallgöngur á bensínstöð og var búin að ganga á 10 eða 12 fjöll. Maðurinn hennar átti erfitt með fjallgöngur og beið í bílnum á meðan hún gekk á fjallið. Það er frábært þegar fólk tekur svona ákvarðnir. Sumum finnst ömurlegt að stunda leikfimi inni, en það hentar mér vel í bland við útivist. Ég er með garð og hef gaman af að taka til hendinni þar og anda að mér súrefni“, segir hún.
Forfallin í trjárækt
Júlía vinnur allan daginn en segist á leiðinni að fara að trappa sig niður. Þau hjónin eru bara tvö og því fleyg og frjáls og hún segir að þau hafi mjög gaman af að ferðast. Hjalti fer í golf og Júlía segist hafa prófað, en ekki komið golfinu inní sína rútínu. En skógræktin í sumarbústaðnum heillar. Hún segir þau forfallin í trjáræktinni, en ekki sérvitur hvað varðar trjátegundir. Þau rækti mest birki, greni, furu og reyni og séu farin að sjá árangur eftir 24 ára trjárækt. Það er einmitt árangurinn sem gefur trjáræktinni gildi að hennar sögn.
Tíminn líður alltof hratt
En hvernig finnst henni að eldast? „Mér líður vel með það í dag“ segir hún. „Ég kvíði því ekki að eldast, ef ég held heilsu“. Júlía segir að hugsunarhátturinn breytist með aldrinum og menn lagi sig að hverju tímabili fyrir sig. „Annars finnst mér tíminn líða alltof hratt og maður er alltaf að hitta vini og heita því að fara að hittast en svo er aldrei tími til þess. Þegar maður var krakki,var tíminn svo lengi að líða, en svo hefur þetta breyst. „Það er svo mikið að gera hjá öllum og tíminn flýgur“segir hún.