Tæplega 70 prósent eftirlaunafólks hafa tekjur undir 300 þúsund krónum á mánuði, þetta kemur fram í svari Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ernu Indriðadóttur, varaþingmanni Samfylkingarinnar. Þingmaðurinn spurði ráðherrann hversu margir 67 ára og eldri hefðu tekjur undir 300 þúsund krónum á mánuði. Í svari ráðherra segir að 44.680 einstaklingar 67 ára og eldri hafi skilað skattframtali árið 2014. Orðrétt segir í svari ráðherra. „Af þeim höfðu 31.028 tekjur undir 300.000 kr. á mánuði eða 69,4% af hópnum. Hér er miðað við samanlagðar tekjur að meðtöldum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Ef eingöngu er miðað við aðrar tekjur en greiðslur frá Tryggingastofnun, svo sem atvinnutekjur, lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur, höfðu 34.239 tekjur undir 300.000 kr. á mánuði eða 76,6% af hópnum.“
2.600 fá vasapeninga
Ennfremur kemur fram í svari ráðherra að samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins fengu í nóvember 2014, 32.200 einstaklingar greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. „Af þeim höfðu 21.864 einstaklingar tekjur undir 300.000 kr. á mánuði eða 67,90% af hópnum.Hér er miðað við samanlagðar tekjur að meðtöldum greiðslum frá stofnuninni. Ef eingöngu er miðað við aðrar tekjur en greiðslur frá Tryggingastofnun, svo sem atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur, höfðu 25.952 einstaklingar tekjur undir 300.000 kr. á mánuði eða 80,60% af hópnum. Þá fengu 2.604 heimilismenn á dvalar- og hjúkrunarheimilum greidda vasapeninga frá Tryggingastofnun ríkisins. Af þeim höfðu 2.324 tekjur undir 300.000 kr. á mánuði eða 89,25% af hópnum.“