Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlafræðingur og sjálfstætt starfandi fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Ég vaknaði í morgun við stolt hanagal, hundsgjamm og í bland við þetta sló kirkjuklukkan átta högg fyrir utan svefnherbergisgluggann. Við eigum augljóslega ekki að sofa frá okkur nýju tilveruna okkar. Eftir margra ára endalausa vinnu ákváðum við, sambýlingurinn og ég, að kaupa okkur flug aðra leiðina til Suður-Spánar. Við vitum ekki hvenær við ætlum heim aftur. Hér erum við nú í íbúð í einu af hvítu þorpunum í Andalúsíu og erum að læra að lifa upp á nýtt. Við skiljum enga og engin skilur okkur. Við höfum hitt tvær stúlkur sem skilja örlítið í ensku – aðrir tala spænsku. Er það ekki verðug áskorun?
Hver dagur hér er spennandi ævintýri. Fyrsta áskorun dagsins er að fara í ískalda sturtu. Gúlsopi af gini er mikilvægur þáttur í þessu og síðan er sjampói og næringu nuddað í hárið þurrt til þess að spara tíma undir frostkaldri bununni, skrúfað frá og allt skolað burt. Þetta gerist á um það bil 10 sekúndum. Þetta mun sennilega verða hressandi upplifun eftir nokkra daga æfingu. Enn vantar þar nokkuð á.
Í gær fórum við í göngu niður bratta hlíð eftir góðum vegi. Við ætluðum að heimsækja næsta hvíta þorpið hér í fjöllunum. Þetta átti að vera verkefni dagsins. Skyndilega endaði vegurinn í miðri hlíðinni skýringarlaust og ekkert annað að gera en að snúa við og fara fetið upp aftur í hitanum. Brekkurnar eru svo brattar að ég var að örmagnast. Ég kalla þó ekki allt ömmu mína, en vatnið hafði gleymst. Ég hef stundum kallað heimabæinn okkar Akureyri, brekkubæ, en hann stendur engan veginn undir því nafni.
Glorhungruð fórum við niður bratta brekku undir kvöld og ætluðum að fá okkur kvöldsnarl í miðbænum. Maniana – var skýringin sem við fengum. Sem sagt þessir fáu matstaðir í þorpinu voru allir lokaðir. Ekki vitum við hvers vegna. Við reynum aftur í dag. Í gær var þriðjudag og í dag er miðvikudagur. Sennilega boðar miðvikudagur mikla lukku í matarmálunum. Ef við fáum aftur – maníana-svarið – eigum við nú eitthvað í skápun, mandarínur keyptar með fingramáli, skinku og þurrkaffi.
Við erum búin að hlæja meira þessa fáu daga í nýju tilverunni en við höfðum gert í marga mánuði á undan. Baugarnir að hverfa – Augnháraliturinn er einn eftir af daglegum lúxus. Hann verður lagður á hilluna fyrr en varir.
Að kunna ekkert, skilja ekkert og bara að vera er holl lífsreynsla. Það er líka hollt að sjá hvað hægt er að komast af með lítið og gera ekkert merkilegra þann daginn en að vera til.