Er hægt að vera ástfangin upp fyrir haus þegar maður er orðin fimmtugur. Já, segir kennarinn og bloggarinn Deb Boulanger á vefnum yourtango.com.
Deb sem varð nýlega sextug segir að það hafi vaxið henni í augum að fara á stefnumót eftir að hún skildi rúmlega fimmtug eftir margra ára hjónaband. „En ég fann ástina eftir fimmtugt og það er eitt það besta sem hefur hent mig,“ segir hún og bætir við að í sannleika sagt hafi hún haldið að hún kynni ekki lengur að fara á stefnumót.
„Ég var 53 þegar ég hafði loksins sjálfstraust til að skilja við eiginmann minn og losa mig úr óhamingjusömu hjónabandi. Það breytti mér sem manneskju. Mig langaði þó ekki að vera ein til æviloka. Ég tók þá ákvörðun að finna mér nýjan maka. Ég vissi ekkert um hvernig ég ætti að komast á stefnumót í þessari nýju veröld. Samfélagsmiðlar og stefnumótasíður á netinu voru ekki til þegar ég var ung kona. Auk þess hafði ég heyrt svo margar hryllingssögur af mönnum sem reyndust ekkert annað en falsarar, svikarar og fíklar og voru að reyna að fiska konur á netinu. Ég ákvað samt að láta vaða og finna mér mann en ég vildi ekki hvern sem var. Þetta er það sem ég gerði.“
- Ég fór í sjálfsskoðun og greindi þau sambönd sem ég hafði átt í við karlmenn. Þegar ég fór að skoða þessi sambönd kerfisbundið sá ég að ég hafði stöðugt fallið fyrir mönnum með persónuleikaröskun, mönnum sem voru uppteknir af sjálfum sér og engum öðrum. Þegar mér varð þetta ljóst ákvað ég að forðast slíka menn.
- Ég skoðaði líka kynlífið og komst að því að ég hafði meira sjálfstraust á því sviði en mig óraði fyrir. Það er ekki af ástæðulausu að karlmenn á þrítugs og fertugsaldri falla fyrir miðaldra konum. Þær eru ekki hræddar við að gefa og þiggja í kynlífi.
- Ég segi skoðun mína óhrædd. Að slíta slæmu hjónabandi gaf mér meira sjálfstraust en mig hafði órað fyrir. Ég skildi ekki bara við manninn minn ég hætti líka í starfi sem að mér fannst vera að kæfa mig. Þess í stað stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki. Ég afsaka mig ekki lengur og gæti þess að festast ekki í sama farinu. Í sambandi þýðir það að ég bið um það sem mig langar í og þigg það sem ég vil. En þetta snýst ekki bara um mig, ég man daglega eftir að þakka fyrir mig og nýja manninn í lífi mínu.
- Lífið er að öllum líkindum meira en hálfnað þegar maður er orðin fimmtugur. Ég er í góðu formi líkamlega og andlega. Ég vil nota þann styrk til að ferðast meira um heiminn, taka meiri áhættu í lífinu. Mér finnst þetta skemmtilegt.
- Ég er tilbúin að sleppa. Það hljómar eitthvað svo auðvelt að sleppa tökum á einhverju en í raun er það mun erfiðara en allt annað. Ég sleppti því að reyna. Ég sleppi hugmyndinni um að maður eigi að vinna í sambandinu sínu. Góð sambönd flæða áfram áreynslulaust. Ég hætti að dæma manninn minn og sjálfa mig. Ég reyni hins vegar að vera besta útgáfan af sjálfri mér alla daga og það gerir hann líka.
- Stefnumót eftir skilnað geta verið ógnandi vegna þess að þú treystir ekki sjálfri þér. Þér líður eins og þú sért ekki nógu og góð. Að þú sért of gömul, of feit og það sé enginn almennilegur maður á lausu. Ekki láta blekkjast af þessum hugsunum. Þú hittir rétta manninn sem elskar þig eins og þú ert. Það eina sem þú þarft að læra, hafa í huga og þjálfa er sjálfsöryggi.