Lifðu núna barst eftirfarandi saga frá konu sem ekki vildi láta nafns síns getið.
Nú til dags opnar maður varla blað án þess að sjá fréttir eða greinar um kynferðislegt áreiti. Konur eru áreittar með orðum og athöfnum og þær láta sem betur fer ekki bjóða sér slíkt lengur óátalið.
Í mínu ungdæmi var ekkert til sem hét „kynferðislegt áreiti“. Það var bara káfað, klipið og kommenterað. Þetta voru „kækir“ hjá körlum sem maður reyndi að forðast og leiða hjá sér. Svo gekk aldurinn í lið með mér og nú er svo komið að framboðið af þessu áreiti er svo gott sem ekkert. Og það liggur við að ég sakni þess. Það var því kærkomið ævintýrið sem ég lenti í þegar ég fór í járnvöruverslun í sumar.
Það týndist handfang af stórri skrúffu í sláttuvélinni, mitt í sumarslætti. Ég dreif mig því í næstu járnvöruverslun og hitti þar fyrir afgreiðslumann, kominn af léttasta skeiði. Hann spurði hvernig sláttuvélin væri á litinn, vék sér frá og kom síðan með fagurgult stykki sem passaði á skrúfuna og sagði að þetta hlyti að duga. Ég þakkaði fyrir og spurði hvað þetta kostaði og hann hristi höfuðið og sagði að þetta kostaði ekkert. Ég þakkaði aftur og sagði að ég myndi í framtíðinni láta verslunina njóta þessara almennilegheita. Eftir smástund sagði maðurinn og kímdi:
„Ef ég væri verulega klókur myndi ég segja að þetta kostaði einn koss.“
Undrandi fór ég að hlæja og sagði að ef ég væri ung og falleg væri það skiljanlegt, en …
„Ja, ég er nú ekkert unglamb,“ sagði maðurinn, „orðinn 62“ og blikkaði mig aðeins.
„Og hvað heldurðu þá að ég sé?“ spurði ég, enn hlæjandi, þegar hann fylgdi mér í átt að útidyrunum.
„Ætli þú sért ekki svona tveimur árum eldri en ég.“
„Ég er nú gott betur en það, að verða 73!“ hikstaði ég gegnum hláturinn.
Þá sló herrann í lærið á mér og sagði hlæjandi: „Nei, mikið andskoti heldurðu þér vel …“
Það þarf ekki að orðlengja að þetta lífgaði svo upp á daginn að ég var enn að hlæja þegar ég kom heim og sagði eiginmanninum frá ævintýrinu. Þarna hafði ég, samkvæmt nútíma skilgreiningu, orðið fyrir „kynferðislegu áreiti“ bæði í orði og verki — og geri aðrar 73 ára kerlingar betur!
Ein ánægð
PS: Ég hef enga trú á að umræddur afgreiðslumaður spanderi svona orðum eða gerðum á ungar stúlkur.