Aldursfordómar á vinnumarkaði

Þótt mismunandi sé hvort og hvernig fólk finnur fyrir aldursfordómum á vinnumarkaði er engu að síður staðreynd að þeir eru til staðar. Erlendar rannsóknir sýna að vinnuveitendur hafa ákveðnar hugmyndir um hæfni og getu eldri einstaklinga til að sinna vinnu og alhæfingar eru umtalsverðar, það er að mannauðsstjórnendur hafa tilhneigingu til að setja alla á tilteknu aldursbili undir einn hatt.

Skoðum þetta ögn nánar. Til að mynda kom fram í breskri rannsókn að mannauðstjórar stórra fyrirtækja þar í landi voru sammála um að eldri starfsmenn þeirra væru yfirleitt ekki eins fljótir að hugsa og jafnskarpir og hinir yngri. Staðreyndin er hins vegar sú að í rannsókn American Psychological Association frá árinu 2015 kom í ljós að eldra fólk á vinnumarkaði hafði til að bera yfirgripsmeiri þekkingu á starfi sínu, var fljótara að komast að rótum vandamála og hafði betri orðaforða og hæfni til að koma upplýsingum til skila en þeir sem yngri eru.

Bresku mannauðsstjórarnir töldu sömuleiðis að eldra starfsfólk væri afkastaminna en þeir yngri en í samanburðarrannsókn á vegum breskra heilbrigðisyfirvalda reyndist aldurshópurinn 65-80 ára vera bæði afkastameiri og áreiðanlegri í vinnu en samstarfsmenn þeirra á aldrinum 20-31 árs. Það kom einnig í ljós að hinir eldri voru almennt í betra jafnvægi og sköpuðu mun þægilegri vinnuanda en hinir yngri. Það stangast allverulega á við þær hugmyndir mannauðsstjóranna að eldri starfsmenn séu almennt ergilegir og líklegir til að skapa leiðindi.

Tæknin flækist ekki fyrir

Það er einnig algengur misskilningur að eldra fólk hafi minna vald á tækninni en kynslóðin á eftir. Þetta átti vissulega við fyrir um það bil tveimur áratugum en undanfarin ár hafa hinir eldri mjög sótt í sig veðrið hvað tæknina varðar og geta bæði notað tölvur sér til gagns og eru fullfærir um að leita sér upplýsinga á netinu.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er sýna tölur ráðningastofa að enn er það svo í Bandaríkjunum, Bretlandi og á Norðurlöndum að fólk yfir 50 ára aldur er síður tekið í viðtöl en yngri umsækjendur, því er fremur sagt upp í hópuppsögnum og það er lengur að finna nýja vinnu ef það missir vinnuna. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðunni Centre for Aging Better telur mikill meirihluti eldra fólks á vinnumarkaði í Bretlandi sig verða fyrir aldursfordómum. Eftir fimmtugt sé því síður treyst fyrir erfiðum verkefnum, það fái ekki stöðuhækkanir sem það sækir um og það eigi erfiðara með að sækja launahækkanir. Stór hópur segist einnig síður fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr vegna þess að ekki sé hlustað á hugmyndir þeirra.

Yfirvöld í Bretlandi og víðar hafa áhyggjur af þessari þróun og í Bandaríkjunum hafa verið sett lög sem banna mismunun vegna aldurs á vinnumarkaði og fólk þar getur sótt rétt sinn gagnvart vinnuveitanda telji það á sér brotið. Sú þróun er tilkomin vegna þess að vestrænar þjóðir eldast hratt og þess vegna er æskilegt að halda fólki lengur á vinnumarkaði. Til þess að standa undir velferðarkerfinu eru þeir sem vilja og geta unnið lengur en fram að 67 ára aldri samfélaginu ekki bara verðmætir heldur lífsnauðsynlegir.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 7, 2024 07:00