Nú stendur yfir Vika einmanaleikans, vitundarvakning Kvenfélagssambands Íslands gegn einsemd og einmanaleika. Til að vinna gegn einmanaleika þarf að skapa tengsl við annað fólk. Þegar eldri borgarar hætta að vinna og fara á eftirlaun sakna margir þeirra tengsla sem þeir höfðu við aðra í vinnunni. Þeim finnst þeir einangraðri en áður og ekki eiga í eins fjölbreytilegum samskiptum. Að skapa sér nýjan vettvang og taka upp hobbí getur opnað góða leið að vináttu og tengingu við aðra.
Vísindarannsóknir hafa sýnt að eldra fólk sem stundar einhverja iðju eða hobbí er almennt bæði hamngjusamara og betra til heilsunnar en hinir sem ekki eiga sér áhugamál. Margir búa að því að hafa stundað einhverja tómstundaiðju alla ævi og það eina sem breytist við að hætta vinna er að meiri tími er til að sinna áhugamálunum. Þeir sem ekki hafa ræktað neina tómstundaiðju ættu hins vegar ekki að örvænta. Ótalmargt skemmtilegt býðst og það er aldrei of seint að byrja.
Hvað hentar þér best?
Til að byrja með er gott að spyrja sjálfan sig hvað helst veki áhuga hjá þér. Sumir vita vel hvað þá langar að gera en aðrir eru óvissir. Sé svo er um að gera að skella sér á námskeið í fjölbreytilegum viðfangsefnum. Myndlistarskólar bjóða námskeið í margs konar myndlistarmiðlum, hægt er að drífa sig í dans, sundleikfimi, á matreiðslunámskeið, í gönguhóp eða mæta í bókasöfnin og njóta margskonar menningarupplifana þar.
Ert þú í hópi þeirra sem njóta að þess að hreyfa sig? Þá er sniðugt að skoða íþróttafélagið í hverfinu til að komast að hvað það býður fyrir eldra fólk. Nú eða skrá sig á námskeið í næstu líkamsræktarstöð.
Finnst þér gaman að læra nýja hluti? Þá er ráð að skrá sig á einhver á þeim fjölmörgu námskeiðum sem endurmenntunarstofnanir bjóða. Þar er líklegt að hitta fyrir fólk sem hefur svipuð áhugamál og sjálfsagt að leitast við að tengjast þeim og jafnvel skapa áframhaldandi þekkingarleit þegar námskeiðinu lýkur.
Það getur verið bæði mikilvægt og hressandi að ögra sjálfum sér, opna hugann fyrir nýjum hlutum og reyna sig við eitthvað sem maður hefur aldrei gert áður. Hver veit nema í þér búi lunkinn leirkerasmiður eða ágætur söngvari? Oftast er það nú samt svo að flestir vita nokkuð vel hvar áhugasvið þeirra liggur og hvað þá helst langar að gera. Stærsta áskorunin er að finna einhvern með svipuð áhugamál sem er tilbúinn að vera með þér í að rækta hobbíið því auðvitað snýst þetta öðrum þræði um að að kynnast öðrum og eiga í samskiptum.
Líður þér best heima? Fólk er mismunandi félagslynt og sumum líður bara ágætlega einir heima. Handavinna, bakstur, eldamennska, lestur góðra bóka, tónlistarhlustun er meðal þess sem margir njóta að gera einir. En alls þessa má líka njóta í hópi. Hægt er að fara á námskeið í matargerð, víða eru starfandi bókaklúbbar í tengslum við bókasöfn og tónlistarskólar bjóða upp á námskeið. Það getur líka verið ánægjulegt að reyna sig við að skrifa, fara á námskeið í ritlist, byrja þar á verki og klára það heima. Í bókasafni Kópavogs er starfandi prjónaklúbbur og námskeið í búningasaumi eru mjög vinsæl fyrir laghenta. Ef ekkert slíkt freistar er alltaf hægt að eiga frumkvæði að því að mynda eigin hóp um slík áhugamál, t.d. matarklúbb, lestrarfélag og hóp sem sameinast um að njóta góðra tónleika saman.
Nokkrar skemmtilegar leiðir til að skapa sér nýtt hobbí:
Dagbækur með stíl
Fyrir nokkru var vinsælt á Íslandi að skrifa og búa til dagbækur sem voru skreyttar alls konar myndum, límmiðum, blúndum og fleiru. Á ensku er þetta kallað, creative journaling, og er bráðskemmtilegt. Enginn takmörk eru fyrir hvað er notað og hvernig síðurnar eru settar upp. Það er hægt að finna hópa dagbókarskrifara af þessu tagi á netinu og skrifast á við þá. Skoða þeirra síður og deila sínum eigin.
Púsl og módelsmíði
Módel eru ekki bara fyrir börn. Hægt er að fá mjög flókin módel og fá aðstoð við að setja þau saman hjá fjölskyldumeðlimum, vinum eða kunningjum. Það gæti verið mjög gaman að setja saman módel með barnabörnunum. Púsluspil eru líka skemmtileg tómstundaiðja sem heldur heilanum virkum. Í Spilavinum er mikið úrval púsluspila og þar er hægt að komast í samband við hópa spilaáhugamanna.
Garðyrkja og blómarækt
Garðyrkja er frábært tómstundagaman því hana er hægt að stunda langt fram eftir ævi. Blómarækt innandyra er sömuleiðis ótrúlega gefandi. Víða tíðkast að skiptast á afleggjurum og plöntum og eru slíkar uppkomur stundum í kirkjum, bókasöfnum og verslanamiðstöðvum. Þær eru oft auglýstar á facebook.
Fuglaskoðun
Fuglaskoðun er frábært áhugamál hér á landi því hingað kemur árlega fjöldi flækinga. Á vorin og haustin er dásamlegt að vopnast góðum sjónauka, klæða sig í hlýjan útivistarfatnað og halda af stað í leit að sjaldgæfum fuglum. Margir fuglaskoðunarmenn kjósa einnig að hafa með sér myndavél og bíða þess af mikilli þolinmæði að ná góðu skoti af fiðruðum vinum sínum.
Nýtt tungumál
Við getum lært ný tungumál alla ævi og ekkert því til fyrirstöðu að fara í málaskóla á efri árum. Það getur opnað nýja veröld að kunna eitthvað í öðrum málum, bæði þegar ferðast er og meðan verið er að læra. Til að bæta við orðaforða og halda sér við er gaman að nýta sér margvísleg öpp sem hjálpa þeim sem hafa áhuga á tungumálum að bæta sig.
Ferðalög
Eitt af því sem flestir segjast í könnunum ætla að gera þegar þeir hætta að vinna er að ferðast. Í dag er auðvelt að ferðast og margir möguleikar opnir þegar kemur að ferðamáta. Það er hægt að fara í skipulagðar ferðir og njóta þess að þurfa engar áhyggjur að hafa eða leita sjálfur að flugi, gistingu og afþreyingu. Það þarf heldur ekki að fara langt og hægt er að ferðast ódýrt.
Dans og líkamsrækt
Dans er frábær hreyfing og það að hreyfa sig við tónlist er innbyggt í allt fólk og allir geta notið þess. Hvers vegna ekki að skella sér á dansnámskeið, læra ný spor, bæta heilsuna og skemmta sér með öðrum. Nú svo hafa allir gott af að skella sér í ræktina og byrja að æfa. Það er aldrei of seint. Hreyfing eins og jóga, tai chi og léttar gönguferðir henta vel þeim sem vilja gera hlutina á eigin hraða.
Gæludýr
Rannsóknir hafa sýnt að gæludýr draga úr einmanaleika og auka mjög lífsgæði eigenda sinna. Þau krefjast umönnunar og það gerir öllum gott að fara út að ganga með hund. Áhugi annarra á dýrinu þínu getur líka orðið til að skapa samræður og jafnvel leiða til nýs kunningsskapar.
Ótalmargt fleira skemmtilegt má finna sér til dundurs og ánægju. Ljósmyndun, hjólreiðar, sund, ættfræðigrúsk, byrja að safna einhverju, hlusta á hlaðvörp eða byrja með eigið hlaðvarp og sjálfboðavinna á vegum góðgerðasamtaka. Flest áhugamál má laga að eigin fjárhag og líkamlegri getu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.