Ástæður þess að menn ættu ekki að gifta sig á efri árum

Hjónaband númer tvö er ekki ósvipað því fyrsta, bara miklu flóknara, segir í grein á vefnum considerable.com.  þar sem fjallað er um það hvort það sé rétt að gifta sig, þegar fólk tekur saman á efri árum. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Ég missti eiginmann minn fyrir nokkrum árum eftir erfið veikindi. Að lokum gafst hjarta hans upp og ég sat eftir með sorg í hjarta. En hjörtu eru sterk og mitt kom á óvart. Þvert á öll lögmál fyrir konu á sjötugsaldri varð ég ástfangin af dásamlegum manni sem ég hitti á stefnumótasíðu. Hann hafði líka orðið ekkill eftir langt og ástríkt hjónaband, alveg eins og ég. Frá byrjun vorum við sannfærð um að við hefðum lent á gullæð þegar við hittumst á þessum stað í lífinu og héldum alveg meðvituð inn í æviskeið þar sem við vildum deila lífinu. Það er aðeins eitt vandamál: Charlie finnst að við ættum að gifta okkur en ég sé ýmsar ástæður fyrir því að við ættum ekki að gera það.

Hjónaband númer tvö, á hvaða aldri sem er, getur verið áhættusamt. Á meðan 52% af fyrstu hjónaböndum enda með skilnaði leysast 70% hjónabanda númer tvö og þrjú upp. Hér er ein ástæða: Þegar maður giftir sig ungur er engu að tapa og það er nægur tími til að gera mistök á meðan rétta leiðin er fundin. Fyrir eldra fólk, eins og við Charlie erum, er áhættan veruleg. Allt frá fjölskyldum og efnahag til eigna og sameiginlegra vina. Og þá er minni tími til tilraunastarfsemi. Nokkur atriði sem við verðum að vega og meta þegar við hugsum um hjúskap:

Efnahagslegu áhrifin

Að gifta sig aftur getur haft efnahagslegar afleiðingar fyrir fólk á efri árum. Breytingar á hjúskaparstöðu geta til dæmis haft áhrif á það sem þú færð úr almannatryggingum eða lífeyrissjóði sem ekkja eða ekkill og þetta verður að athuga vel.

Hver borgar fyrir börnin

Börnin mín eru 18 og 21 árs og dóttir Charlies er fertug. Við erum sammála um að það sem við höfum safnað af fjármunum hingað til, með aðkomu látinna maka okkar, ætti að renna áfram til barnanna okkar. Ég borga skólagjöld fyrir mín börn og mun líklega vera ábyrgðarmaður á íbúðarleigusamningi dóttur minnar fljótlega og greiða fyrir sumarnámskeið sonar míns í útlöndum.  Ég keypti bíla handa börnunum mínum og borga enn af þeim tryggingarnar. Dóttir Charlie er eldri en mín börn og peningaveski hans stendur henni opið þegar hún þarf. “Allt sem ég á mun verða hennar að lokum og ef hana vanhagar um eitthvað núna af hverju skyldi ég ekki aðstoða hana,” segir hann og ég er sammála honum.  Okkar viðhorf er að börnin skuli ganga fyrir.  En jafnvel þótt ég væri ekki sammála honum myndi allt sem hann á vera hans og mitt vera mitt á meðan við erum ekki gift. Það myndi breytast ef við giftum okkur og myndi kalla á samtal um það hvernig við verðum þeim fjármunum sem við eigum. Af hverju skyldum við giftast?

Ekki hægt að setja í lög að börnin verði sátt við nýjan maka

Ef við giftum okkur yrðum við fjölskylda í skilningi laganna. Ættum við þá að reyna að blanda fjölskyldum okkar saman tilfinningalega, eða skiptir það yfirhöfuð einhverju máli á þessum tímapunkti?  Við reynum að koma vel og kurteislega fram við hvert annað, það er auðvitað sjálfsagt. En er hægt að búast við því að dóttir hans sem er á stöðugum ferðalögum vinnunnar vegna og maðurinn hennar líka, mæti til að horfa á son minn spila fótbolta með framhaldsskólanum sínum? Nei, ég held ekki.

Hvað á að gera við heimilin tvö?

Þar sem börnin okkar eru á mismunandi skeiði í lífinu og eiga lítið sameiginlegt, nema það að foreldrar þeirra urðu ástfangnir, er það kannski ágætis markmið að halda bara áfram að koma vel og kurteislega fram við hvert annað.  Það er ekki hægt að setja það í lög að þú eigir að vera sáttur við nýjan kærasta eða kærustu foreldranna. Jafnvel þótt þú giftir þig, er það ekki hægt. Við erum að ráðgera að flytja saman. Við eigum bæði okkar eigið heimili, en ætlum að selja og kaupa okkur nýtt húsnæði saman. En ef við kaupum hús saman og annað hvort okkar fellur frá, munu þá börn þess sem lést erfa hálft hús? Gæti það okkar sem eftir lifir keypt börnin út?

Að vernda hvort annað.

Munið þið hjúskaparheitið, um að standa saman í blíðu og stríðu. Við gerum það. Við Charlie önnuðumst bæði maka okkar áður en þeir létust. Af því við vorum gift bárum við lagalega ábyrgð á lækniskostnaði og öðru slíku sem til féll. Það hefur tekið tíma að örin sem þessi tími skildi eftir, næðu að gróa.  Þessi reynsla gerir að verkum að við vitum nákvæmlega hvað það felur í sér að annast makann sinn veikan og deyjandi. Þess vegna höfum við skrifað niður nákvæmar leiðbeiningar um hvað við viljum gera ef annað okkar veikist. Aðalmálið er, að við ætlum ekki að leggja það á þann sem er frískur að annast hitt ævilangt.

Ef tilfinningalegt álag er ekki næg ástæða til að hindra það að sambýlismaður eða kona, sjái um þig til æviloka, þá ætti heilbrigðiskostnaðurinn að hafa einhver áhrif. En samkvæmt lögum ber hjónum að bera hann saman, alveg sama hversu hár hann er. Lækniskostnaður mannsins míns síðustu 20 klukkustundirnar sem hann lifði nam einni milljón dala. Hér er auðvitað átt við Bandaríkin og ósennilegt að slíkur kostnaður gæti orðið hér á landi.

Að lokum dregur greinarhöfundur upp þá staðreynd að þau parið, eigi samtals fjóra hunda. Þeir séu hluti af fjölskyldunni og það standi ekki til að lóga þeim, en mun einhver manneskja vilja standa í því að búa ein með fjórum hundum?

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn maí 17, 2019 14:48