Guðrún Guðlaugsdóttir skrifar:
Þegar ég var kornung bjó ég í sama húsi og skemmtileg og góð kona sem átti atvinnubílstjóra fyrir mann. Hann ók henni hvert sem hugur hennar girntist og hún lifði í vellystingum fagurlega þar til hann fékk alvarlegt áfall sem dró hann til dauða. Þá var umrædd kona tæplega sextug.
Nú tók að versna í því. Þessi kona hafði aldrei tekið bílpróf, það vildi maðurinn hennar ekki, en hún lifði mann sinn í tuttugu ár, lengst af ágætlega á sig komin. Þann tíma var hún upp á ættingja, vini og strætisvagna komin ef hún ætlaði að fara á mannamót eða að versla. Mikið hefði það létt henni lífið að hafa bílpróf – hins vegar fékk hún reyndar oft skemmtilegan félagsskap þegar hún fór að erinda út í bæ.
Einu merkilegu hef ég tekið eftir. Karlar vilja nánast alltaf keyra þótt konur þeirra hafi bílpróf, sjái ágætlega og aki sjálfar um borg og bý þegar þær eru einar á ferð. Þetta finnst mér nokkuð undarleg og næstum gamaldags afstaða.
Flest hjón fara saman í ferðalög innanlands af og til. Sennilega hafa fleiri konur en ég rekið sig á að eiginmaðurinn vill miklu heldur aka sjálfur, þótt þreyttur sé, en að konan aki. Ég hef ekið manninum mínum einstaka sinnum á þjóðvegum. Honum finnst það afleitt. Stundum hefur hann verið svo skelfingu lostinn að það hefði næstum verið kærleiksverk að aka bara á svo hann losnaði úr þessum erfiðu aðstæðum. Svo allrar sanngirni sé gætt er honum kannski vorkunn, eitt árið ók ég níu sinnum á. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mér hefur farið mikið fram.
Þægilegasti áreksturinn sem ég man eftir var þegar ég ók aftan á lögreglubíl, þá tók skamma stund að gera skýrslu. Samverkamaður minn sat með mér í bílnum, hann bað aldrei um far aftur. Samt meiddum við okkur ekkert og bíllinn skemmdist ekki neitt – hvað þá lögreglubíllinn.
Öðru sinni bauð ég samstarfskonu far. Hún þáði það þakksamlega og blessaði mig fyrir hjálpsemina.
„Ekkert að þakka,“ svaraði ég og tók af stað með rykk. Því miður setti ég ekki í réttan gír svo í stað þess að bakka ók ég á vegg fyrir framan okkur. Hún var fremur fámælt það sem eftir var leiðarinnar en mér tókst þó að koma henni heilli heim.
Eftirminnilegur er líka árekstur sem ég lenti í þegar ég var á fara úr stæði við bókasafn. Konan sem átti bílinn sem ég lenti utan í varð mjög æst. Hún krafðist þess að lögreglan kæmi. Hún kom og tók skýrslu. Allt tók þetta tíma og konan sem átti bílinn sem ég ók utan í sagðist vera að flýta sér, hún væri í skóla og þyrfti að komast í tíma. Þetta sagði hún meðan hún var að teikna upp sína mynd af afstöðu bílanna.
„Þú ert greinilega ekki í myndlistarskóla,“ sagði ég. Lögreglumaðurinn gekk á milli svo ekki hlytust af slagsmál.
Að öllu grábroslegu slepptu þá er mjög nauðsynlegt fyrir fólk sem hefur ekki tekið bílpróf að gera það áður en það verður of gamalt. Það má alltaf taka bílpróf, bara ef fólk hefur sjón, heyrn og sæmilegan viðbragðsflýti. Það veit enginn hvenær hann stendur uppi einn eða með veikan maka.