Dóra Einarsdóttir svarar símanum í Svíþjóð þegar blaðamaður Lifðu núna hringir í hana til að forvitnast um hvað hún er að gera þessa dagana. Eins og svo margir aðrir hafði hann verið að taka til í geymslunni og fundið kjól og peysu frá merkinu Doris Day and Night, sem var það flottasta á níunda áratugnum. Þetta voru afar óvenjulegar flíkur litríkar og skemmtilegar, eins og höfundurinn Dóra, sem var farin að sauma á sig kjóla 14 ára og mála og endurhanna herbergið sitt 10 ára. Snemma beygist krókurinn.
Stórir herðapúðar voru áberandi á níunda áratugnum, eins og sjá mátti á búningum Gleðibankans á sínum tíma, en Dóra var að sjálfsögðu fengin til að hanna búningana á þau sem fóru fyrir okkar hönd til að taka, í fyrsta sinn í Íslandssögunni, þátt í Evróvision keppninni. „Nú eru herðapúðarnir að koma aftur. Þeir sáust svolítið í hátískuhúsunum í París, New York og Mílanó í fyrra og keðjurnar voru fljótar að herma eftir“, segir hún. Það var Egill Eðvarðsson leikstjóri sem hélt utanum Evróvision keppnina fyrir hönd Sjónvarpsins og Dóra segist oft hafa unnið með honum gegnum tíðina. Einnig með Stuðmönnum og hún gerði plötuumslagið fyrir Bubba Mortens og hljómsveitina Egó á sínum tíma, auk þess að hanna búninga fyrir þá. Hún segist ekki hafa geymt neitt af fötunum sem hún hannaði, en Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri með meiru hafi gefið Hönnunarsafninu fatnað eftir hana og henni hafi verið boðið að vera með sýningu í safninu, en af því hafi ekki getað orðið á þeim tíma vegna anna erlendis.
Dóra hafði gríðarlega mikið umleikis þegar mest var og hefur unnið í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum út um allan heim. „Ég hef mikið verið í risastórum og dýrum sjónvarpsauglýsingum“, segir hún og nefnir sem dæmi Volkswagen, Carlsberg og Pepsí. Hún segist eiginlega vera hætt sem búningahönnuður. „Þetta var svo rosalega langur vinnutími. Vinnudagurinn var 14 til 16 klukkustundir, því búningahönnuðurinn mætir fyrstur á morgnana ásamt förðunarmeistara og fer seinastur á kvöldin, þegar búið er að pakka saman og undirbúa næsta dag. Ég var við þetta í 40 ár og nennti þessu bara ekki lengur. Mér fannst komið nóg og sagði bara einn daginn. Hingað og ekki lengra, ég er hætt“, segir Dóra sem starfar núna mest við innanhússhönnun fyrir einstaklinga og fyrirtæki, hér og þar í heiminum.
Fatahönnunin á tímabili Doris Day and Night, var bara eitt af ótal mörgum verkefnum Dóru. Hún segir heitið á fatalínunni hafa komið frá Stuðmönnum. „Ég var að vinna í kvikmyndinni Með allt á hreinu og var ein með búningana. Ég vann dag og nótt, en í dag myndu 3-4 annast svona verkefni, ef ekki 5. Þeir fóru að kalla mig Doris Day and Night, af því að ég vann svo mikið og þess vegna ákvað ég að kalla fatalínuna þessu nafni“. Á þessum tíma vann Dóra jafnframt fatahönnuninni mikið í leikhúsi, sjónvarpi, sjónvarpsauglýsingum og tónlistarmyndböndum. „Ég hef alla tíð unnið mikið og er svo heppin að vera heilsuhraust og kraftmikil. Ég vann til dæms alltaf með skóla“, segir hún og telur að uppeldið hafi haft sitt að segja. Hún ólst upp í Garðabæ og á þrjú systkini. „Pabbi var kaupmaður og það var vel hugsað um okkur. Við fengum ekkert upp í hendurnar en vorum látin vinna fyrir öllu. Þegar ég var 14 ára bað ég hann um að gefa mér efni í kjól. Hann sagði mér þá að taka til í bílskúrnum og þvo bílinn að innan og utan. Þá væri ég búin að vinna fyrir kjólefninu. Ef við þurftum eitthvað vorum við látin vinna fyrir því“.
Dóra býr á Seltjarnarnesi þar sem hún á íbúð, þó hún sé mikið í útlöndum og hafi verið í Svíþjóð í vetur. „Það er allt miklu opnara hér en víða annars staðar í COVID ástandinu og atvinnulífið enn í gangi. En það hefur dregið úr, maður finnur það. En ég nota einnota gúmmíhanska og er með sprittið í töskunni. Það er tveggja metra fjarlægð milli fólks í búðunum. Hárgreiðslustofur hafa verið opnar og skólar og leikskólar. Það er í raun allt í gangi ennþá. Ég fór til tannlæknis um daginn og á hárgreiðslustofu, Það var allt spreyjað í bak og fyrir og þurrkað af posum“, segir hún og segist á báðum áttum með hvort sé betra, þetta fyrirkomulag eða það sem verið er að gera á Íslandi. En hún fylgist með stöðunni hér úr fjarlægð og segir að sér lítist ekki nógu vel á. Hún talar um að íslenska krónan sé í frjálsu falli. Það geri stöðuna enn erfiðari hversu skuldsett bæði fólk og fyrirtæki eru á Íslandi.
Dóra sem er ógift og barnlaus er heimsborgari og finnst eðlilegt að búa í tveimur löndum. Hún segist svo heppin að eiga góðan og sterkan vinahóp. Hún hafi orðið náin börnum vina sinna og einnig barnabörnum systkina sinna þannig að barnleysi hafi ekki þjakað hana. Hún segist hafa búið að góðu uppeldi alla ævi og kunna vel við sig í Svíþjóð. „Það er nóg að gera eins og er, ég er með sól í hjarta og líður vel“, segir hún að lokum.