Dýrt að þekkja ekki lífeyriskerfið

Björn Berg Gunnarsson

Björn Berg Gunnarsson fræðslustjóri hjá Íslandsbanka segir mikilvægt að menn séu vel undirbúnir þegar kemur að starfslokum. Hann vill fá fólk til að kynna sér þær breytingar sem verða þegar það hættir á vinnumarkaði, áður en það er orðið of seint.  Hann hefur iðulega haldið fyrirlestra og námskeið um fjármál við starfslok. „ Ég áttaði mig á því þegar ég vann við ráðgjöf að fólk fór ekki að leita sér upplýsinga fyrr en það var búið að öllu. Búið að taka út séreignasparnaðinn, búið að sækja um lífeyri hjá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðnum og komst þá að því að það hefði kannski átt að standa öðruvísi að málum“.

Hvernig er kerfið?

Björn útskýrir á námskeiðunum þær breytingar sem verða á tekjum fólks við starfslok og  hvernig best er að sækja um þær greiðslur sem standa til boða og hvernig þær tengjast innbyrðis. „Ég fjalla um það á hverju menn eiga von frá Tryggingastofnun, hvernig skattarnir eru, hvenær og hvernig menn eigi að losa fé, taka út séreignasparnaðinn og lífeyrinn“, segir hann.

Séreignasparnaður hefur engin áhrif á lífeyri frá TR

„Mér finnst mikilvægt að fólk ákveði hvernig það ætli að nota séreignasparnaðinn“ segir hann. „Það eru alltof margir sem halda að þeir verði að taka hann út sextugir eða 67 ára. Þá hafa margir ekkert hugsað hvernig það kemur út gagnvart skattinum. Það getur verið dýrt að taka hann allan út á einu ári þar sem greiða þarf staðgreiðslu af úttektinni. Hátekjuskattur er 9,3% hærri en almennt skattþrep og því getur stór úttekt á einu ári jafnvel kostað  fólk hundruð þúsunda í aukaskatt.  Margir halda að það sé nauðsynlegt  að taka hann út áður en þeir fara að fá ellilífeyri frá Tryggingastofnun, því hann skerði lífeyrinn þaðan, en það á ekki við lengur. Hann hefur engin áhrif á ellilífeyrinn frá TR. Séreignasparnaðurinn var upphaflega ætlaður til þess að bæta fólki tekjumissi, því lífeyrisgreiðslur hjá flestum eru lægri en launin sem þeir hafa haft. Það þarf að velta fyrir sér hlutum eins og hvort menn vilji skammta sér séreignasparnaðinn smátt og smátt, eða nota hann til að borga skuldir. Eða vill fólk eiga séreignasparnaðinn áfram og nota hann þegar þörf krefur? Það er gott að spá í þetta með góðum fyrirvara“.

Ekki sækja um lífeyri frá TR ef þú ætlar að vinna áfram

Björn segir að margir haldi að þeir eigi að sækja um lífeyri frá Tryggingastofnun um leið og þeir fá bréf þaðan með tilkynningu um að þeir eigi rétt á lífeyrisgreiðslum.  „En ef fólk ætlar að halda áfram að vinna eftir 67 ára aldur, borgar sig í flestum tilfellum ekki að sækja um strax hjá TR.  Launagreiðslur skerða bæturnar, en ef menn fresta því að sækja um, fá þeir hærri upphæð en ella þegar þar að kemur. Lífeyrisgreiðslur og aðrar tekjur sem fólk hefur þurfa að vera háar, eða yfir 500 þúsund krónur á mánuði, þannig að þær skerði allar greiðslur frá TR. Þeir sem hafa svo miklar tekjur fá ekkert frá TR“. Björn Berg segir að þannig séu alls kyns ákvarðanir varðandi fjármálin sem þurfi að taka. „Það getur kostað fólk mikið ef þeir vita ekki hvernig þessi kerfi virka og spila saman“.

Betra að geyma peningana í banka en undir koddanum

Það hefur verið bent á það í umræðu um fjármál eldra fólks, að það borgi sig ekki að spara, vegna þess að fjármagnstekjur skerði lífeyri frá TR. Björn Berg er ekki sammála því. „Ef menn eru með peninga í banka og fá 100.000 krónur á ári í vexti, skerðir það greiðslur frá TR um 45.000 krónur. Menn hafa verið að hvetja eldra fólk til að fela frekar peningana, en það getur kostað þá miklar fjárhæðir ef verðbólga fer af stað. Það er betra að eiga 55.000 krónurnar sem menn halda eftir en að eiga þær ekki“, segir hann en bendir á að sé fólk sjálft eða maki þess á hjúkrunarheimili þurfi að skoða málin sérstaklega. Þá gildi aðrar reglur og fjármagnstekjur geti skert tekjurnar krónu á móti krónu.

 

Ritstjórn október 5, 2017 11:46