Svefninn hefur verið mönnum gáta, galdur og umhugsunarefni frá aldaöðli. Líklega er ekkert okkur jafnmikilvægt og að ná góðri hvíld. Skáldin vissu það, Davíð Stefánsson til dæmis en hann orti um konuna sem kynti ofninn hans og móðurina sem vakti í rökkrinu eftir rokkarnir voru þagnaðir og reyndi að svæfa barnið sitt.
Jón frá Ljárskógum bað hins vegar hinn ljúfa blæ að syngja sig í svefn og Snorri Hjartarson sagði svefninn ylfrjóan og góðan. Og það er hann. Yljandi vegna þess að hvíldin er dásamleg og frjór vegna þess að hann nærir sköpunarkraftinn. Svo ótalmargt gerist meðan við sofum. Börnin stækka í svefni, frumurnar endurnýja sig, vöðvarnir hvílast og búa sig undir átök næsta dags og undirmeðvitundin vakir og sendir okkur skilaboð gegnum drauma.
Tröllin voru stungin svefnþorni meðan einhver karlsson fór um helli þeirra, rændi og ruplaði og bjargaði prinsessum úr haldi. Líklega vildu flestir eiga þannig þarfaþing og geta stungið sjálfan sig þegar hvíldin virðist víðs fjarri og engin leið að sofna. Hver sá sem hefur verið andvaka veit hvað svefninn er dýrmætur. Sá sem hefur misst svefn í langan tíma og upplifað heilsutengd vandamál vegna þess veit að svefninn er undirstaða góðrar heilsu.
En það er hægt að vera sofandi á marga vegu. Menn geta flotið sofandi að feigðarósi í margvíslegum skilningi. Verið sinnulausir gagnvart eigin ástandi og aðstæðum og sjá þess vegna allt fara á versta veg. En þeir geta einnig verið sofandi gagnvart líðan sinna nánustu og ekki áttað sig á að þar er einhver að glíma við erfiðan hjalla.
En hér eru nokkur góð ráð til að koma á og viðhalda góðum svefnvenjum:
Hreyfðu þig á hverjum degi en ekki rétt fyrir svefninn
Farðu á fætur á sama tíma dag hvern
Ekki drekka kaffi eða kóladrykki eftir klukkan 16.
Reykingar hafa ekki góð áhrif á svefninn.
Hafðu milt ljós í svefnherberginu og byrjaðu að slaka á og skrúfa þig niður klukkustund áður en þú gengur til náða.
Tölvur og önnur skjátæki eiga ekki heima í svefnherbergjum.
Sjáðu til þess að það sé svalt í svefnherberginu á kvöldin og á nóttunni
Augngríma og eyrnatappar eru góð hjálpartæki ef fólk er viðkvæmt fyrir ljósum og hljóði.
Ekki líta á klukkuna ef þið vaknið um nóttina.
Lærið slökunaræfingar og notið þær óspart til að sofna og ef þið vaknið.
Svefnlyf eru ekki varanleg lausn, leitið því annarra og betri aðferða til að bæta svefninn.
Áfengi er ekki svefnlyf og áfengissvefn veitir ekki nauðsynlega hvíld.
Sumum finnst gagnlegt að gera öndunaræfingar eða stunda hugleiðslu fyrir svefninn. Flóuð mjólk er gott og náttúrulegt svefnlyf.
Sumir fara í heitt á bað á kvöldin áður en þeir skríða undir sængina. Það veitir góða slökun, eins að lesa góða bók og hlusta á rólega tónlist.
Það er ekki gott að fara svangur í rúmið. Ávextir, brauðsneið eða glas af ávaxtaþeytingi er fín máltíð fyrir svefninn.
Dragðu úr áhyggjum þínum. Finndu tíma yfir daginn eða á kvöldin til að fara yfir verkefni næsta dags og skipuleggja það sem gæti valdið þér streitu á svefntíma.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







