Katrín Björgvinsdóttir skrifar
Jólin hafa hvílt frekar þungt á mér undanfarin ár og hef ég spurt mig hvers vegna?
Þegar við héldum jól á mínu heimili hér áður fyrr voru þau róleg, góð og einhvernveginn svo notaleg – við tókum góðan tíma í að opna pakkana eftir jólamatinn og nutum kvöldsins og fórum síðan að sofa í nýjum náttfötum og hreinum rúmfötum, með nýjar bækur.
Nú er ég orðin ein og þar af leiðandi kemur sú kvöð að “vera einhversstaðar” og eilífar spurningar um það hvar ég ætli að vera um jólin – mér líður stundum eins og ég sé pakki sem þarf að koma fyrir.
Mér finnst áreitið um jólin orðið mikið og kröfurnar töluverðar, en það er eitthvað sem ég þarf að takast á við sjálf t.d. með því að halda gjöfum í hófi, sleppa því að fara í Ikea og Rúmfatalagerinn frá október, hlusta ekki á útvarpsstöðvarnar sem spila jólalög út í eitt og lesa ekki auglýsingar sem hvetja fólk til að kaupa allt milli himins og jarðar.
Í fyrra tók ég þá ákvörðun að vera ein um jólin. Eiga mín jól, það er kanski mergur málsins að ég sakna þess sem var. Mig langaði að hlusta á þögnina rétt fyrir kl. 18:00 þar til jólin eru hringd inn á RÚV og heyra jólaguðspjallið. Ein – já fjölskyldan er bara ekki stærri núorðið, ég er ein flest önnur kvöld ársins og spáir held ég enginn sérstaklega í það. Hjá börnunum eru nýjir siðir – makar hafa sína siði, mikill erill fylgir barnaheimilum og við sem erum eldri erum búin með þann pakka.
Ég leigði mér sumarbústað síðast liðin jól, fannst auðveldara að fara í burtu heldur en að vera ein heima, það hefði kanski orðið meira mál að fá það í gegn. Sem betur fer á ég skilningsríka að og þegar ég úrskýrði málið skildu það allir.
Ég kom í bústaðinn 22. desember í yndislegu kyrru veðri og náttúran skartaði sínu fegursta, það ríkti friður yfir öllu, húsið fallegt og allt til alls. Ég hlustaði á jólakveðjurnar, fékk hangikjötslykt í húsið og skapaði góða hlýja jólastemmingu – las nokkrar bækur, réði ógrynni af krossgátum og sudoku, horfði á held ég allar bíómyndir sem RÚV bauð uppá þá vikuna. Tók með andlitsmaskann, handmaskann og góðar græjur í nærandi fótabað og nóg að borða. Tölvan varð eftir heima ég heyrði bara í fólkinu mínu í síma og sms.
Ég var þarna í viku, var reyndar að velta fyrir mér að fara heim degi fyrir áætlaðan brottfarardag en mér leið svo vel og náttúran var svo falleg að ég tímdi ekki að fara.
Áður en ég lagði í hann heim á leið lagði ég á borð lítilmagnans. Það var slegið upp veislu hjá músunum undir pallinum við hús nr. 2.
Ég er farin að velta fyrir mér hvar ég verð næstu jól. En eitt er víst ég geri nákvæmlega það sem mig langar til, það fer best á því og allir ánægðir. Ég braut upp hefðina og það er vel hægt, allavega upplifði ég ein af mínum bestu jólum.