Einmanaleiki er dauðans alvara. Á danska vefnum Ældre sagen segir að 50 þúsund Danir telji að þeir séu oft einmana. Fólk upplifir oft einmanaleika þegar miklar breytingar verða á lífi þess. Til dæmis við skilnað, andlát maka, versnandi heilsu og við starfslok. Heyrnartap og versnandi sjón leiðir oft á tíðum til þess að fólk einangrast, sama gildir þegar hreyfifærni minnkar og fólk á erfitt með að komast inn og út af eigin heimili. Það sama gerist líka oft þegar fólk hættir að geta keyrt bíl. Hér eru fimm staðreyndir um einmanaleika.
Það er jafn mikil hætta á að fólk í borgum upplifi sig einmana og þeir sem búa út á landi.
Konur upplifa sig oftar einmana en karlar
Langvarandi einmanaleiki getur valdið líkamlegu heilsutjóni.
Einmanaleiki eykur hættu á háum blóðþrýstingi, svefntruflunum, þunglyndi og vitglöpum.
Ellilífeyrisþegar eru í hópi þeirra sem eru í mestri hættu á að upplifa sig einmana.
Á síðunni Ældre sagen kemur fram að einmanaleiki sé dýr fyrir bæði fólkið sjálft og samfélagið. Á hverju ári er talið að 770 manns deyi ótímabærum dauðdaga sem rekja megi til einmanaleika. Þeir sem eru einmana leita mun meira til lækna en þeir sem upplifa góð tengsl við vini og ættingja. Þeir þurfa líka að leggjast oftar inn á sjúkrahús. Það er því mikið í húfi segir á Ældre sagen að berjast gegn einmanaleika og fræða fólk um hvað hann getur haft í för með sér. Það sé á ábyrgð samfélagsins alls að hjálpa þeim sem telji að þeir séu einir og einmana.