Útvarpsmaðurinn Jörgen De Mylius var kominn á sextugsaldur og átti þrjú uppkomin börn. Hann eignaðist nýja konu, nokkru yngri, en hann og hún vildi eignast fleiri börn. Rætt var við Jörgen á vef danska ríkisútvarpsins. „Allt í einu stóð ég frammi fyrir spurningunni á ég að eignast eitt barn til viðbótar,“ segir hann og það gerði parið. Þá var Jörgen 55 ára. Fjórum árum síðar eignuðust þau annað barn sem í dag er orðið ellefu ára gamalt. Yngri en yngstu barnabörnin hans. „Ég er nýbúinn að vera í foreldraviðtölum í skólanum með henni,“ segir hann og bendir á að tímarnir hafi breyst og fólk lifi orðið lengur. „Ég man þegar ég eignaðist annað barnið mitt þá var umræða um það í blöðunum að maður væri eigingjarn. Að eignast barn væri að vera eigingjarn. Það er rugl.“
Nýbökuðum feðrum á aldrinum 50 til 59 ára hefur fjölgað um 162 prósent síðustu þrjá áratugi í Danmörku. Flestir þeirra áttu börn á yngri árum og eyddu ómældum tíma í að skipta um bleyjur og koma syfjuðum börnum af stað á morgnana. Flestir þeirra hlökkuðu til að börnin yrðu meira sjálfbjarga. Jörgen hafði hins vegar engar áhyggjur af þessu þegar hann átti yngri börn sín. „Ég átti ekki í neinum vandræðum með að skipta um bleyjur. Föðurhlutverkið hefur ekkert vafist fyrir mér. Þvert á móti. Ég hef fengið að upplifa að verða faðir á tveimur mismunandi tímaskeiðum og er þakklátur fyrir það.“ Hann ráðleggur hins vegar eldri mönnum sem vilja eignast börn að spyrja sig að því hvort þeir séu nógu hraustir, hvort þeir hafi arfgenga sjúkdóma og hvort þeir telji sig geta sinnt föðurhlutverkinu. „Ef þeim finnst þeir geta þetta er allt í lagi fyrir þá að eignast börn. Það er hvers og eins að meta það fyrir sjálfan sig,“ segir hann.