Ekki fá þér of mikið á diskinn

Óla Kallý Magnúsdóttir

Óla Kallý Magnúsdóttir

„Næringarefnaþörf okkar, það er þörf okkar fyrir vítamín, steinefni og trefjar, breytist lítið með aldrinum og er nánast sú sama út lífið. Orkuþörfin minnkar aftur á móti með aldrinum. Þetta þýðir að öll næringarefni þurfa að vera til staðar í minni fæðuskömmtum og þá er ekki mikið pláss fyrir sætindi og næringarsnauðan mat. Þörfin fyrir mjög góðan og næringarríkan mat er aftur á móti meiri“, segir Óla Kallý Magnúsdóttir næringarfræðingur hjá Heilsuborg þegar hún er spurð á hvort næringarþörf fólks breytist með hækkandi aldri.

Aldraðir þurfa minni skammta

Óla Kallý hefur sérhæft sig í næringarmeðferð fyrir einstaklinga með sykursýki en hún hefur líka unnið mikið með öldruðum og fólki sem er of feitt eða of þungt. Hún lauk meistaraprófi í næringafræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2014. Óla Kallý segir að orkuþörf fólks minnki með aldrinum, um 2,5-5% á hverjum áratug eftir 50 ára. „Ástæðan er vöðvarýrnun, minni hreyfing og fleira. Þetta þýðir að við þurfum minni, en næringarríkari skammta. Orkuþörf, þörfin fyrir hitaeiningar, er einstaklingsbundin,“ segir hún.

Allir ættu að taka D-vítamín

„En það verður að hafa í huga að að öll vítamín og steinefni þurfa að vera til staðar í minni fæðuskömmtum. Það vítamín sem helst skortir í fæði Íslendinga er D vítamín en auk þess virðist D-vítamín þörf aldraðra meiri en þeirra sem yngri eru. Ráðlagður dagsskammtur fyrir D vítamín er því hærri fyrir aldraða, eða 20 µg á dag. Því er mikilvægt fyrir aldraða, sem og aðra, að taka D vítamín daglega. Meltingarkerfið getur einnig misst getuna með aldrinum til þess að nýta ýmis vítamín og steinefni. Sem dæmi um það er B12 vítamín. Lystarleysi sem stundum fylgir hækkandi aldri og breytingum á högum aldraðra getur leitt til þess að erfitt er að fullnægja þörf á næringarefnum og þá þarf að gera sérstakar og oft einstaklingsbundnar ráðstafanir,“ segir hún og bætir við að  að D vítamín og sé í  raun  eina bætiefnið sem aldraðir þurfa að taka ef þeir geta borðað fjölbreytta fæðu og engin önnur undirliggjandi vandamál hafa áhrif á fæðuinntöku og meltingu.

 

 

Ritstjórn október 1, 2015 12:10