Þessi grænmetisréttur er gjarnan eldaður af fólki sem langar að kynnast grænmetismatargerð en langar ekki alveg að sleppa kjötneyslu. Hann er ótrúlega bragðgóður og við allra smekk og inniheldur næringarríkt grænmeti sem nóg er til af í verslunum. Með réttinum er gott að bera fram naan brauð sem hægt er að kaupa til búið. Sósan er líka ómissandi meðlæti. Svo er ekki verra að steikja kjúklingakjöt, skera í bita og blanda saman við þennan grænmetisrétt fyrir þá sem kjósa kjötið en vilja njóta grænmetismatar líka.
700 g kartöflur
250 g rófur
500 g gulrætur
3-4 laukar
4 msk. olía
4 msk. tandoori mauk (hrærið saman tandoori masala kryddi og svolítilli olíu)
4 dl vatn
2 tsk. sterkt karrí
3 tsk. garam masala
2 tsk. cumin
1/2 tsk. cayenne pipar
200 g rúsínur
250 g kjúklingabaunir, tilbúnar í dós
ferskt kóríander
Afhýðið kartöflurnar, rófurnar og laukinn og hreinsið gulræturnar og skerið allt í teninga. Hitið olíu í potti og mýkið grænmetið í henni. Bætið vatni og kryddi saman við og svo rúsínum og baunum. Sjóðið í 30 mínútur eða þar til grænmetið er orðið mjúkt. Skerið kóríander og dreifið yfir réttinn að lokum. Berið réttinn fram með sósunni, mangó chutney og naan brauði.
Sósa:
4 dl ab-mjólk
2 hvítlauksrif, marin
1 tsk. cumin
1/2 búnt steinselja
salt og pipar eftir smekk
Blandið öllu saman og geymið í kæli fram að framreiðslu.