Við erum til, heitir fræðslumynd sem hefur verið gerð um félagsstarf eldra fólks í Hæðargarði í Reykjavík. Félagsmiðstöðin er ein 17 félagsmiðstöðva sem Reykjavíkurborg rekur fyrir eldri borgara. Rætt var við sex einstaklinga um nírætt í myndinni, sem sækja félagsstarfið í félagsmiðstöðinni að staðaldri. Í myndinni kemur fram hversu mikilvægt það er fyrir aldrað fólk að hafa hlutverk í lífinu og geta haldið áfram að móta sitt umhverfi. Þeir sem koma í Hæðargarð geta sótt skemmtileg námskeið, til dæmis í dansi, tálgun úr viði og tölvunámskeið. Þeir geta einnig fengið sér kaffi í góðra vina hópi, lesið blöðin og keypt sér mat. Það þykir fólki mikilvægt, því „maður er manns gaman“ og það er ekki skemmtilegt að elda fyrir einn og borða einn, að sögn eins viðmælendanna í myndinni. Fyrir þennan aldurshóp er Hæðargarður afar mikilvæg félagsmiðstöð.
Félagsstarfið magnað
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var viðstaddur sýningu myndarinnar fyrir helgina. Hann þakkaði fyrir þá innsýn í félagsstarfið sem myndin veitti og sagði magnað hversu mikið félagsstarf væri í boði fyrir eldra fólk um alla borg. Það hefði verið gaman að sjá samspil kynslóðanna í myndinni, þar sem skólabörn kenndu eldra fólkinu á tölvur og Teddi „afi“ las sögur fyrir leikskólabörnin sem komu í heimsókn.
Þarf að byggja „kollektív“ fyrir hippana?
En það er spurning hvernig 68 kynslóðin mun una sér í félagsstarfi af þessu tagi. Því velti Dagur fyrir sér. „ Hvað eigum við að gera við hippana“, spurði hann, þeir eru vanir að ráða öllu. „ Ætli við þurfum ekki að byggja kollektiv fyrir þetta fólk?“. Hann sagði að það helsta sem 68 kynslóðin hefði áhyggjur af væri að það væru ekki nógu margir golfvellir í borginni! Dagur velti líka fyrir sér félagslegri stöðu þeirra sem eru veikir heima og geta ekki sótt félagsstarfið.
Ekki sumarlokun
Viðmælendur myndarinnar sátu fyrir svörum eftir sýninguna og voru almennt mjög ánægðir með þá þjónustu sem veitt er hjá borginni, en tvennt fannst þeim að þyrfti að lagfæra. Þeir vilja að fjögurra vikna sumarlokun félagsmiðstöðvarinnar verði hætt og að komið verði upp hljóðkerfi þar svo fólk með skerta heyrn, heyri það sem fram fer.