Eldhúsgyðjan blómstrar á ný

Nigella Lawson er meðal allra vinsælustu sjónvarpskokka heims. Augljós ást hennar á mat og það hve mjög hún nýtur þess að borða er meðal þess sem dregur fólk að skjánum í hvert sinn sem hún eldar. Meira að segja þeir sem engan áhuga hafa á eldamennsku njóta þess að horfa á hana. Hún er stemningsmanneskja og svo blátt áfram og glaðleg að öllum líður vel þegar þeir horfa á hana. En Nigella hefur gengið í gegnum ýmsa erfiðleika í lífinu en sagðist nýlega á samfélagsmiðlum sínum að sér hefði sjaldan liðið betur.

Það var árið 2013 að allt lagðist á eitt að gera henni lífið erfitt. Aðspurð tveimur árum síðar um allt sem þá gekk á sagðist líta til baka með hryllingi um versta ár lífs hennar hafi verið að ræða. Hún sló reyndar á létta strengi í bandarískum spjallþætti og sagði að víst hefði þetta verið erfitt en hún hefði borðað mikið súkkulaði og nú liði henni betur. Þótt hún hafi svarað svo hnyttilega er varla hægt að ímynda sér súkkulaði hafi eitt og sér dugað til að fleyta henni yfir erfiðleikana.

Vandræðin byrjuðu þegar aðstoðarkonur Nigellu, systurnar Francesca og Elizabetta Grillo, urðu uppvísar af þvi að hafa svikið riflega 55 milljónir króna af Nigellu og fyrrverandi manni hennar Charles Saatchi. Þótt enginn viti fullkomlega hvernig málið komst upp leiddu breskir fjölmiðlamenn getum að því að milljarðamæringurinn Charles hafi tekið því mjög illa þegar hann komst að því að systurnar höfðu fengið frjálsan aðgang að sameiginlegum kreditkortum þeirra hjóna og tekið út ýmsan lúxusvarning fyrir sjálfar sig.

Hann beið ekki boðanna heldur sakaði ítölsku systurnar um fjársvik. Nigella vildi ekki að þær yrðu kærðar og ef marka má orð þeirra um samband sitt við hana í viðtali við BBC skann að vera að hún hafi viljað hlífa þeim fyrir sakir vináttu. Francesca og Elizabetta sögðust nefnilega hafa verið hluti af fjölskyldu Nigellu í áratug og þær litið á hana sem ættingja.ystranna um vímuefnaneyslu fyrrum vinnuveitandans sem var þeim sem systir. Hvernig sem því var háttað risti systraþelið ekki dýpra en svo að þær ítölsku snerust hatrammlega til varnar og þær fullyrtu að þær hefðu haft heimild Nigellu til að taka út það sem þeim sýndist gegn því að þær þegðu yfir eiturlyfjaneyslu sjónvarpskokksins fræga. Þetta fullyrtu þær í réttarsalnum þegar fjársvikamálið gegn þeim var tekið fyrir.

Togstreitan sem þessi ágreiningur olli milli fyrrum hjónanna náði hámarki þegar myndir náðust af því þegar Charles tók konu sína hálstaki á veitingastað og sneri upp á nefið á henni. Það var paparazzinn, Jean Paul, sem náði myndum af atvikinu en hann lýsti upplifun sinni þannig í réttarsalnum: „Hr. Saatchi hefur sagt að hann hafi tekið um háls þáverandi konu sinnar til að ná athygli hennar þetta var meira. Ég stóð hinum megin við götuna og sá hann taka svo harkalega um háls hennar að höfuðið kastaðist aftur. Ég greip til myndavélarinnar og þá gerðist þetta aftur á sama hátt. Ég byrjaði að smella af og smellti af í sífellu og úr urðu þessar myndir. Þetta var ekki saklaust og greinilegt að hr. Saatchi beitti umtalsverðu afli.“

Notaði eiturlyf til að ná hvíld

Meðan á réttarhöldunum stóð játaði Nigella í vitnastúkunni að hafa notað kókaín og hass á árum áður þegar fyrr maður hennar John Diamond lá fyrir dauðanum. Hann veiktist af krabbameini í hálsi árið 1997 og lést árið 2001. Í vitnastúkunni sagði Nigella að John hafi notað eiturlyf til að létta sársaukann og hún hafi stundum tekið þau honum til samlætis og til að hjálpa sér að ná hvíld og slökun þegar ástandið á heimilinu var sem erfiðast vegna veikindanna. En þetta var ekki það eina. Margvísleg fleiri einkamál hjónanna voru dregin fram í dagsljósið og systurnar báru Charles Saatchi alls ekki vel söguna. Hann á hinn bóginn lýsti því yfir að hann tryði sögum þeirra af eiturlyfjanotkun fyrrverandi konu sinnar.

Játning Nigellu hafði þau eftirköst að breska lögreglan hóf rannsókn á vímuefnaneyslu hennar og þegar henni lauk sendu talsmenn lögreglu frá sér yfirlýsingu um að ekki hafi reynst tilefni til frekari aðgerða af þeirra hálfu. Nigella hefur lítið viljað um málið segja í fjölmiðlum en í Vogue árið 2014 var grein um konuna á bak við nafnið eftir Fionu Golfar, vinkonu Nigellu frá því á háskólaárunum. Fiona lýsir Nigellu sem sjálfstæðri konu sem þrátt fyrir að vera fædd með silfurskeið í munni hafi alla tíð unnið fyrir sér. Hún hafi eldað frá barnæsku en stundirnar í eldhúsinu með móður sinni hafi verið einu skiptin sem þær mæðgur náðu að tengjast.

Vinsæl og vinmörg kona

Nigella hefur alla tíð átt auðvelt með að eignast vini og heimili hennar ætíð staðið þeim opið. Hún veit ekkert skemmtilegra en að elda handa fólki og í kringum matarborðið var oft mikið fjör. Eftir að hún giftist Charles Saatchi dró mjög úr boðum og veisluhöldum því hann vildi helst hafa konu sína alveg fyrir sig.  Þau hittust fyrst í apríl árið 2000 þegar umboðsmaður hennar Ed Victor hélt matarboð á veitingahúsinu Ivy. Hann setti þau Nigellu og Charles hlið við hlið og eftir matinn kom milljarðamæringurinn uppveðraður til hans og sagði: „Ég er ástfanginn.“  Charles hélt sambandi við Nigellu, kynntist manni hennar John og þeir urðu vinir. Eftir að John lést var Charles helsta stoð og stytta ekkjunnar og sex mánuðum eftir lát hans hófu þau samband.

Upphaflega bjuggu þau saman í stóru húsi í Shepard’s Bush en fljótlega keyptu þau sameiginlega húsið við Eaton Square þar sem sumar þáttaraðir hennar voru teknar upp. Bæði Charles og Nigella voru þekkt fyrir örlæti og vinir þeirra njóta góðs af því. Þau nutu þess að gefa stórgjafir en margt greindi þau þó á. Charles slakaði best á fyrir framan sjónvarpið og hann vildi gjarnan horfa á það uppi í rúmi með konu sína sér við hlið. Nigella aftur á móti fann sig best í samræðum við vini við hrúgað matarborð. Hann skreytti hús sitt gerviblómum en hjá henni eru ævinlega lifandi blóm í vösum um allt.

Yfirskrift greinarinnar í Vogue var  „Nigella Uncovered“ eða Nigella afhjúpuð eða grímulaus. Þá var vísað  bæði til þess að í myndatökunni var notaður sáralítill farði og að Nigella leyfir Fionu vinkonu sinni að lýsa sinni upplifun af lífi hennar frá því þær kynntust. Eitt af því sem þar er talað um er hvernig smátt og smátt dró úr boðunum eftir að Nigella giftist aftur og að mislyndi Charles hafði áhrif á andann við borðið. En Nigella hafi engu að síður ávallt fundið leiðir til að skapa. Hún sé sívinnandi og við borðið í stofu sinni skrifaði hún matreiðslubækur sínar og vafraði á Netinu í leit að leikmunum fyrir myndatökur. Hún elskar víst að panta hluti gegnum vefverslanir og er reglulegur viðskiptavinur Ebay.

Gerði enga kröfu í eignir

Kannski er það ekki hvað síst lýsandi fyrir Nigellu að hún gekk út úr húsi Charles Saatchi með eingöngu þá muni sem hún átti fyrir hjónaband þeirra. Hún gerði engar kröfur um peninga eða aðrar eignir frá manni sínum, enda gekk skilnaðurin fljótt í gegn. Í gegnum alla þá gífurlegu umfjöllun og rýni í einkalíf hennar sem átti sér stað í breskum fjölmiðlum meðan á skilnaði hennar og málaferlunum gegn systrunum stóð óx virðing bresks almennings fyrir henni. Fólki fannst hún tala af yfirvegun og sýna kurteisi meðan fyrrum maður hennar og systurnar ítölsku létu sér ýmislegt um munn fara sem betur hefði verið látið ósagt. Þær Franscesca og Elizabetta voru sýknaðar af fjársvikakærunni en sögðu eftir á að þrátt fyrir að þær hafi unnið dómsmálið hafi Nigella unnið fjölmiðlastríðið. Sú fullyrðing er vissulega rétt hvað varðar fyrrum vinnuveitanda þeirra en vafasamt að tala um að þær hafi unnið dómsmálið því niðurstaðan var sú að ekki væri hægt að sanna að þær hafi ekki haft leyfi fyrir kreditkortaúttektunum.

Nigella var fljót að ná vopnum sínum aftur og hefur gefið út fjórar bækur síðan hún skildi, verið dómari í matreiðsluþáttunum The Taste og þættir hennar Simply Nigella verið árlega á dagskrá í Bretlandi og Ástralíu. Hún glímir við blóðkrabbamein sem hægt er að halda í skefjum en er ólæknandi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.