Töluverðar umræður hafa verið í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni um atvinnumál eldra fólks og vandann sem steðjar að á leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar. Samkvæmt fréttum RÚV, vantar um hundrað manns til starfa á þessum stofnunum. Hjá félaginu er í undirbúningi ályktun, þar sem skorað er á skólayfirvöld í Reykjavík að skoða það gaumgæfilega hvort ekki sé hægt að fá hæft fólk á eftirlaunum til hlutastarfa á leikskólum og frístundaheimilum. „Félagið er reiðubúið að aðstoða við úrlausn þessara brýnu mála og hafa samvinnu við bæði borgaryfirvöld og Félag leikskólakennara, um að útvega fólk til starfa á leiskólum og frístundaheimilum í borginni“, segir Ellert B. Schram formaður Félagsins í samtali við Lifðu núna.
Hægt að nýta áfram krafta öflugra leikskólakennara
Þessi mál voru rædd á sameiginlegum fundi öldungaráðs og borgarstjórnar í ráðhúsinu í vikunni. Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs gerði þetta að umtalsefni. Hann benti á að við lifðum í gerbreyttu samfélagi hvað varðaði atvinnuþáttöku eldra fólks. Frítekjumarkið, eftir að það var lækkað úr 109 þúsundum á mánuði í 25 þúsund, virkaði að vísu ekki hvetjandi á eldra fólk að taka þátt í atvinnulífinu, en allir flokkar hefðu haft uppi fyrirheit um að hækka það eftir kosningar og það hlyti að verða gert. Hann ræddi um mikilvægi þess að nýta mannauð eldri borgara, benti á að borgaryfirvöld vildu auka hlut fagmenntaðra í skólunum og að það væri mikilvægt að nýta áfram krafta öflugra leikskólakennara sem komnir væru á eftirlaun, fólks sem vildi og gæti haldið starfi sínu áfram.
Fylgjandi því að reynt sé að finna leiðir
Þegar Lifðu núna talaði við Skúla, sagðist hann mjög fylgjandi því að þetta samtal yrði tekið og reynt að finna leiðir til að nýta starfskrafta eldra fólks á leikskólunum. Það væri ástæða til að halda fund skóla- og frístundaráðs með Félögum eldri borgara og leikskólakennara til að athuga hvort hægt væri að finna málinu farveg. „Við höfum hvatt leikskólana til að hafa samband við leikskólakennara og skólastjóra sem eru komnir á eftirlaun og það hefur verið gert í ákveðnum tilvikum“, segir hann og telur að það mætti gera meira af því. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í lok borgarstjórnarfundarins að borgaryfirvöld ættu að taka á því og opna fyrir það, ef eldra starfsfólk vildi vinna áfram. Kannski ekki í fullu starfi, en að það gæti verið á afleysingalistum til dæmis leikskólanna og komið til aðstoðar þegar þörf krefði.