Átröskunarsjúkdómar herja ekki bara á unglinga. Nýlega var greint frá niðurstöðum rannsóknar í Bandaríkjunum er herma að allt að 10% kvenna á miðjum aldri þjáist af búlimíu eða anorexíu. Þetta er sláandi einkum þegar haft er í huga að um 12% af þessum aldurshópi fá brjóstakrabbamein. Stór hluti þessara kvenna hefur áður glímt við átröskunarsjúkdoma en einnig er til í dæminu að álagseinkenni tengd breytingaskeiði verði kveikjan af þeim.
Flestir tengja útlitsdýrkun og pressu vegna staðlaðra ímynda einkum við yngri hópa og telja að konur séu almennt komnar yfir allt slíkt þegar aldur og meiri þroski færist yfir. Staðreyndin er hins vegar sú að margar konur eiga erfitt með að horfast í augu við ellimerki og þegar hægist á brennslunni og stöðugt verður erfiðara að halda kjörþyngd grípa sumar til örþrifaráða. Kristín er nýorðin 62 ára og hún hefur glímt við búlimíueinkenni allt frá þrítugu.
„Ég var mjög grönn sem barn og unglingur,“ segir hún. „Þegar ég var yngri gat ég borðað hvað sem mér sýndist og eins stóra skammta og ég vildi. Ég hef alltaf hreyft mig mikið og haft gaman af útiveru og íþróttum. Ég býst við að það hafi hjálpað en eftir að ég eignaðist þriðja barnið rúmlega þrítug gerðist eitthvað. Ég fór að bæta á mig. Í fyrstu gerðist það svo hægt að ég tók ekki eftir því en allt í einu var ég orðin tíu kílóum þyngri en ég hafði alltaf verið og var hætt að passa í fötin mín.
Ég tók á þessu með að auka líkamsræktina. Fór að mæta í leikfimi, synda og ganga meira. Um tíma gekk það ágætlega og ég léttist um sjö kíló. Síðan dugði þetta ekki til og ég fór að þyngjast aftur. Það var þá sem ég byrjaði að stinga fingri ofan í kok og æla eftir máltíðir. Þetta virkaði og ég hætti að þyngjast en álagið var mikið. Ég vissi að ég borðaði óhollan mat og of mikið af honum svo ég reyndi að breyta mataræðinu til hins betra. Um tíma gekk það líka ágætlega en eftir ákveðinn tíma gafst ég alltaf upp og sækja fór í sama farið aftur.
Í hvert skipti sem ég sem ég féll og fór að sækja í fituríkan mat greip ég til þess ráðs að kasta upp. Ég taldi mér trú um að ég hefði stjórn á þessu en ég held að líklega hafi frá upphafi myndast ákveðinn vítahringur meinlætalifnaðar með átköstum inn á milli. Þau urðu öfgafyllri með tímanum en alltaf tókst mér að halda mér innan ákveðinna þyngdarmarka með því að kasta upp öllum óþverranum sem ég raðaði í mig. Ég er mikið fyrir mat en minna fyrir sælgæti og það var ótrúlegt hvað ég gat innbyrt af kjöti, sósu, kartöflum og meðlæti áður en ég fór inn á klósett og ældi öllu. “
Fór í felur með matinn
Kristín gat haldið sig frá óhollum mat langtímum saman og leyndi því vandlega fyrir fjölskyldunni hvað gerðist ef hún missti stjórn á sér. Feluleikurinn var smám saman meiri og verri. Hún skrúfaði frá sturtunni og ældi svo áður en hún þvoði sér, borðaði lítið við kvöldmatarborðið en laumaðist til að borða ein síðar um kvöldið þegar enginn sá til og svo var farið og ælt. Ef hún var ein heima greip hún umsvifalaust tækifærið og eldaði eitthvað sem hún var sólgin í, át það allt saman og kastaði síðan upp um leið og hún var búin að renna niður síðasta bitanum. Hún endurtók þetta jafnvel tvisvar til þrisvar yfir daginn ef fjölskyldan var ekki væntanleg heim.
„Ég gerði mér fulla grein fyrir hversu óheilbrigt þetta var en taldi mér alltaf trú um að ég réði við það,“ heldur hún áfram. „Einhvern tíma rakst ég á grein á Netinu þar sem því var lýst hvernig konur með búlimíu eyðileggja smátt og smátt í sér tennurnar og vítamínskortur gerir vart við sig eftir ákveðinn tíma. Þetta hræddi mig og ég leitaði mér hjálpar hjá sálfræðingi. Hann leiddi mér fyrir sjónir að ég væri veik en það var algerlega ný hugsun fyrir mér. Ég hélt að ég vildi bara ekki fitna og væri að fara vitlausa leið að því að megra mig.“
Í nokkur ár var Kristín laus við einkenni sjúkdómsins en þegar breytingaskeiðið byrjaði fór hún að fitna aftur.
„Ég byrjaði á að minnka matarskammtana en þegar það dugði ekki fór ég að borða og kasta svo öllu upp jafnóðum. Ég hefði ekki trúað hversu fljót ég var að renna aftur inn í sömu gömlu rútínuna og áður. Börnin mín vita ekki og hafa aldrei vitað að ég þjáist af búlimíu. Nú eru þau öll flutt að heiman og ég hélt að auðveldara yrði að halda þessu leyndu en dóttir mín tók eftir að eitthvað væri að. Það rak mig til að leita mér hjálpar aftur. Ég er enn að berjast við að finna rétta meðalveginn í mataræðinu og líkamsræktinni og er farin að ganga til næringarráðgjafa og sálfræðings.“
Rannsóknir á átröskunum
Elizabeth Midlarsky og George Nitzburg hafa rannsakað átröskunarsjúkdóma meðal kvenna á miðjum aldri og komist að því að oft eru tengsl milli þunglyndis og slíkra raskana. Í stórri rannsókn sem þau gerðu meðal kvenna á aldrinum 45-65 ára kom í ljós að flestar þær konur sem áttu við einhvers konar átröskun að stríða voru óánægðar með sjálfar sig. Þær fundu fyrir miklum félags- og menningarlegum þrýstingi í þá átt að halda sér grönnum og þær höfðu mikla fullkomnunaráráttu. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart því sömu þættir eiga stóran þátt í átröskunum með unglingstúlkna og ungra kvenna.
Sigrún er 57 ára gömul og hún hefur tekist á við anorexíu um fimm ára skeið. Líf hennar fór allt úr skorðum þegar hún og maður hennar skildu.
„Hann vildi skilnað,“ segir hún. „Ég vissi að við höfðum fjarlægst og kannski væri ekki allt eins og áður á milli okkar en datt aldrei í hug að hann færi. Þegar hann tók saman við aðra konu nokkrum mánuðum seinna hrundi veröld mín. Fram að því hafði ég haldið í vonina um að við tækjum saman aftur. Nýja konan var nokkrum árum yngri en ég, grönn og falleg. Ég ákvað að taka mig á og sýna honum að ég gæti nú líka litið vel út. Ég hamaðist í líkamsrækt og borðaði sífellt minna. Kílóin hrundu af mér og ég fékk mikið út úr því þegar fólk hrósaði mér fyrir dugnaðinn.
Á endanum var ég orðin átta kílóum of létt. Þá var ég farin að finna fyrir orkuleysi, vanlíðan í liðum og sjóntruflunum. Ég leitaði til læknisins míns og hann komst að því að ég þjáðist bæði járn og D-vítamínskorti. Að auki var kalíummagnið í líkamanum sáralítið. Ég fór að taka inn þessi vítamín og læknirinn hvatti mig til að borða reglulega og gæta vel að mataræðinu. Ég gerði það og náði nokkrum bata. Jafnvægið er þó viðkvæmt og ef ég rekst á einhverja veggi er ég yfirleitt fljótt að grípa til sveltisins. Ég hef töluvert dregið úr líkamsræktinni en hreyfi mig ennþá og er nokkuð vel á mig komin líkamlega. Hér eftir þarf ég hins vegar að gæta vel að sálinni og passa mig að slaka vel á og vera varkár. Öll streita er mjög slæm fyrir mig og ég er gjörn á að láta smáræði setja mig út af laginu.“
Frá fimmtugu upp í nírætt með átröskun
Þunglyndi, streita og önnur andleg vanlíðan hefur líka mikil áhrif hvort konur þrói með sér átraskanir eður ei. Áföll eins og makamissir hvort sem það er af völdum skilnaðar eða andláts, félagsleg einangrun, atvinnutap, veikindi eða vinnuálag geta ýtt konum af stað niður óheillabraut. Það er velþekkt staðreynd að átröskunarsjúkdómar sem byrja á unglingsárum og að þeir eru lífshættulegir. Allt að 18% sjúklinga með anorexíu eða búlimíu deyja af völdum þeirra. Í flestum tilfellum dregur næringarskortur sjúklingana til dauða en einnig er velþekkt að líffæri taka að gefa sig eftir langvarandi svelti og í mörgum tilefllum er sá skaða ekki afturkræfur. En ef 18% deyja af völdum sjúkdómsins lifa 82% hann af. Það þýðir að þeim sjúklingum annað hvort batnar eða þeir lifa með sjúkdómi sínum fram á efri ár.
Í rannsókn J.A. Keith og Elizabeth Midlarsky frá árinu 2004 fundu þau gögn sem færðu heim sanninn um að konur allt frá fimmtugu og upp í nírætt þjáðust af átröskunarsjúkdómum en höfðu fundið leið til að lifa með þeim. Konur á öllum aldursskeiðum finna fyrir óánægju með sjálfar sig en margt bendir til að þær breytingar sem verði á líkamanum við tíðahvörf ýti undir streitu og andlega vanlíðan á sama hátt og gerist á unglingsaldri. Flestar konur fitna eftir tíðahvörf vegna hægari brennslu í líkamanum og breytinga á hormónabúskap. Að auki er talsvert algengt að konur á þessum aldri þjáist af vanvirkni í skjaldkirtli og því fylgir óhjákvæmilega þyngdaraukning.
Sjúkdómar sem hafa áhrif á þyngd
Auðvelt er að gefa lyf við vanvirkum skjaldkirtli en sjaldnast þau aukakíló sem safnast hafa upp meðan sjúkdómurinn var ógreindur hverfa ekki af sjálfu sér eftir að lyfjagjöf hefst. Hafa þarf mikið fyrir að ná fyrri þyngd og meiri erfiðleikum er bundið að halda kjörþygnd en áður var þrátt fyrir lyfin. Stoðkerfisvandamál, gigtarsjúkdómar og svefntruflanir eru sömuleiðis fylgikvillar aukins aldurs og geta haft mikil áhrif á hversu vel eða illa gengur að stjórna þyngdinni.
Þeir sem ekki hvílast nóg sækja frekar í orkuríkan mat yfir daginn en hinir, enda liggur í augum uppi að sá sem er illa hvíldur leitar allra leiða til að halda sér gangandi yfir daginn. Langvarandi svefnleysi leiðir einnig til áhugaleysis, minni orku og vanlíðunar sem oft er undanfari þunglyndis. Langflestar konur finna fyrir breytingum á svefni sínum á breytingaskeiði. Mjög margar segja það erfiðara að sofna á kvöldin, aðrar kvarta yfir óreglulegum svefni þ.e. þær hrökkvi upp á næturnar og geti ekki sofnað aftur eða þær vakni af og til alla nóttina. Sumar þjást af kófköstum sem iðulega eiga sér stað á nóttunni og í verstu tilfellunum eru kófin svo mikil að konan þarf að fara á fætur, skipta um föt og þvo sér og jafnvel um rúmföt líka.
Í ofanálag hefur þrýstingur frá umhverfinu á að konur haldi sér ungum og grönnum aukist til mikilla muna. Ekki eru margir áratugir síðan litið var svo á að eðlilegt væri að konur þyngdust með árunum. Nú á dögum skreyta síður flestra blaða og tímarita Hollywood-stjörnur og ofurfyrirsætur komnar á sjötugs-, áttræðis-, níræðis- og jafnvel tíræðisaldur sem virðast hafa líkama ungra stúlkna eru hrukkulausar og hreykja sér af því að stunda erfiða líkamsrækt.
Aukin þrýstingur á unglegt útli
Því hefur verið haldið fram að hlutgerving kvenna minnki þegar þær eldast og þær verði þess vegna sáttari við sjálfar sig. Gríðarleg aukning í sölu svokallaðra hrukkukrema, húðmeðferða til að draga úr aldursmerkjum, eins og ávaxtasýrumeðferðum og húðslípum, auk botoxmeðferða og lýtaaðgerða benda þó eindregið til að svo sé ekki og sömuleiðis rannsóknir vísindamanna á hugmyndum kvenna um sjálfar sig. Í viðamikilum bandarískum rannsóknum á konum á aldrinum 19-84 ára kom í ljós að óánægja með líkama sinn hélst nokkuð stöðug sama á hvaða aldri konan var. Vísindamennirnir fundu ekki samhengi milli þyngdar og ánægju með líkama sinn hjá konum í úrtakinu. Konur í kjörþyngd voru jafnóánægðar með sjálfar sig og þær sem voru í yfirþyngd. Allt á þetta rætur að rekja til þeirrar hugmyndar samfélagsins að til sé hið fullkomna kvenlag. Hvert hið gullna form er breytist með tísku og tíðaranda en ávallt virðist til staðar einhver ímynd eða form sem allar konur reyna að falla inn í. Ákveðinn hópur fólks virðist síðan útsettari fyrir þeirri áráttu en aðrir. Vitað er að fullkomnunarárátta er einn áhættuþáttur í þróun átröskunarsjúkdóma meðal unglinga og hún virðist ekkert minnka með árunum.
Hugsanlegt er að félagslegur þrýstingur á að konur haldi sér ungum og grönnum lengur hafi aukist mikið. Í það minnsta var það niðurstaða Midlarsky og Nizburg að það væri langstærsti einstaki þáttur í átröskunum meðal eldri kvenna þótt þunglyndi, fullkomnunarárátta og löngun til að viðhalda útliti sínu hefðu sitt að segja. Margar konur virðast tilbúnar til að ganga ansi langt í þeim efnum og ekki varast að þær kunna að fórna heilsunni fyrir grannan líkama.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.