Það styttist í kosningarnar 25. september. Lifðu núna hefur að undanförnu birt greinar þar sem kosningastefnu flokkanna í málefnum eldri borgara er lýst. Greinarnar eru orðnar sex og hér kemur sú sjöunda, en þar er greint frá stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki. Flokkurinn boðar endurskoðun tryggingakerfis eldri borgara og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna. Á vefsíðu flokksins er stefnunni lýst þannig;
„Við ætlum fyrst að hækka frítekjumark atvinnutekna í 200 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2022.
Lífeyrisuppbót tekin upp
Við viljum síðan stokka upp almannatryggingakerfi eldri borgara.
Markmiðið er að styrkja stöðu þeirra sem eru með takmörkuð réttindi í lífseyrissjóðum og hverfa frá skerðingum. Þetta verði gert með sérstakri lífeyrisuppbót sem tekur mið af réttindum hvers og eins í lífeyrissjóði.
Aðrar skattskyldar tekjur eldri borgara – s.s. atvinnutekjur, séreignasparnaður, fjármagnstekjur – skerða ekki lífeyrisuppbót.
Með öðrum orðum: Samtímatekjur eiga ekki að leiða til skerðinga en verða skattlagðar með sama hætti og eftir sömu reglum og skattskyldar tekjur annarra.
Hvað er lífeyrisuppbót?
Með lífeyrisuppbót viljum við leiðrétta augljóst misgengi sem átti sér stað í fortíðinni og jafna stöðuna í samtímanum. Um leið heyra skerðingar vegna atvinnu- og fjármagnstekna sögunni til. Þannig er lífeyrisuppbótin aldrei tekjutengd vegna samtímatekna, en tekur mið af áunnum réttindum í lífeyrissjóði.
Til verða jákvæðir hvatar fyrir eldri borgara sem hafa getu og vilja til að bæta sinn hag.
Hvenær og hvernig?
Uppstokkun á tryggingakerfi eldri borgara verður ekki gerð nema í samráði við hagsmunasamtök þeirra og í samvinnu við lífeyrissjóðina.
Í ríkisstjórn mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja áherslu á að kerfisbreytingunum verði hrint í framkvæmd með þessu skýru markmið í huga.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, var spurður út í þessi mál í þættinum Forystusætinu í Ríkisútvarpinu:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lofað nýju ellilífeyriskerfi almannatrygginga
Í stuttu máli er óánægja með kerfið í dag vegna þess að skerðingar eru mjög grimmar og fólk hefur engan hvata til að bæta stöðu sína. Við segjum: Við þessu er einfalt svar sem kemur strax, tvöföldum frítekjumark atvinnutekna nú þegar. En til þess að gera það þurfum við líka að fara í rætur kerfisins og hugsa það svolítið upp á nýtt, einfalda það og skilja eftir hvata hjá fólki sem vill bæta afkomu sína eftir að það kemst á lífeyrisaldur. Kerfið má ekki vera hamlandi fyrir þá sem vilja bæta stöðu sína, það er rangt. Við eigum sömuleiðis að leyfa fólki að vinna lengur og einfalda kerfið svo að fólk skilji í raun og veru hvernig kerfið styður það og á hvaða forsendum það á rétt eða ekki.
Hvers vegna er ekki búið að gera þetta?
Við fórum í gríðarlega miklar kerfisbreytingar 2016 þar sem bótaflokkar voru sameinaðir og ef við skoðum þróun á ráðstöfunartekjum þessara hópa, þá eru þeir að skera sig úr öðrum hópum og hefur tekist að lyfta undir með þeim sem eru á ellilífeyrisaldri þannig að við höfum náð miklum árangri en þurfum að gera betur. Við erum með stóra árganga á Íslandi sem hafa ekki náð að nýta starfsævina til þess að leggja til hliðar eða eignast í lífeyrissjóði nægjanlega framfærslu og þessu þarf að mæta. En það þarf að skapa verðmæti til að rísa undir þessu og þaðan kemur áhersla okkar á kraftinn í atvinnulífinu og mikilvægi stöðugleika.