Tengdar greinar

Er hægt að svindla í beinni útsendingu?

Viltu vinna milljón? Spurningaþátturinn sló í gegn þegar hann hófst í Bretlandi árið 1998 og barst þaðan um allan heim. Meira að segja hér á Íslandi var fólki boðið að setjast í stólinn og svara fimmtán spurningum til að verða ríkari. Í Bretlandi var meira í húfi en hér, enda milljón pund allmikið hærri upphæð en milljón íslenskar krónur. Vinsældir þáttarins voru aðeins farnar að dala þegar Charles Ingram vann sína milljón og var sakaður um að hafa svindlað.

Skjáskot úr þættinum þegar Charles komst í stólinn.

Þetta var árið 2001 og áður en Charles komst í stólinn höfðu bæði kona hans, Diana, og mágur keppt. Árið 2020 voru gerðir áhrifamiklir sjónvarpsþættir, Quiz: The Who Wants to Be a Millionaire Scandal, um þessa atburði en enn er því ósvarað hvort Charles svindlaði eða ekki. Fyrir þá sem ekki muna var þátturinn, Viltu vinna milljón? Eða Who Wants to be a Millionaire? uppbyggður þannig að fyrst þurfti fólk að svara nokkrum erfiðum spurningum í gegnum síma til að eiga von um að komast að. Þegar í sjónvarpssal var komið voru þátttakendur látnir raða einhverjum fyrirbærum í rétta röð, t.d. kvikmyndum í tímaröð eftir því hvenær þær voru frumsýndar, frammámönnum eftir því hvenær þeir sátu í embætti og svo framvegis. Sá með liprustu fingurna fékk sæti í stólnum á móti spyrjandanum og varð að svara fimmtán krossaspurningum. Fjórir möguleikar voru gefnir en aðeins réttur. Menn fengu þrjár líflínur sér til aðstoðar, að spyrja áhorfendur, láta taka burtu tvö röng svör og hringja í vin.

Diana og bróðir hennar, Adrian, voru gríðarlegir aðdáendur spurningakeppna og tóku reglulega þátt í slíkum á kránum í nágrenni heimilis þeirra. Adrian var mjög skuldugur og sá það eins og leið út úr vandræðunum að fara í spurningaþáttinn og vinna háar upphæðir. Til að bæta möguleika sína bjó hann til tæki, takkaborð, til að æfa sig á svo hann gæti raðað fyrirbærunum í byrjunarspurningunni eins hratt og hægt væri. Hann komst hvað eftir annað að og einu sinni í stólinn og vann 32.000 pund. Systir hans lék það síðan eftir honum en peningarnir voru aðeins dropi í skuldahaf Adrians og það verður til þess að Diana taldi mann sinn á að fara í þáttinn.

Sian Clifford og Matthew MacFaydyen í hlutverki Charles og Diana í kvikmynd sem gerð var um hneykslið.

Afdrifaríkur hósti

Hann komst í stólinn og svaraði mjög hikandi og virtist ákaflega óöruggur fyrsta kvöldið. Þættinum lýkur áður en hann er úr leik og Charles átti þarafleiðandi rétt á að koma aftur og halda áfram að svara. Hið sama var upp á teningnum. Hann var óöruggur en svaraði ævinlega rétt. Það var eins og hann slysaðist alltaf á að giska á hið rétta. Fljótlega verður starfsfólk þáttarins tortryggið og þeim fannst ekki einleikið hversu oft Charles skipti um skoðun á síðustu stundu og valdi rétta svarið umfram þann möguleika sem honum hafði áður þótt líklegastur.

Einn tæknimannanna taldi sig líka greina að kona hans, sem sat í áhorfendahópnum, og Tecwen Wittlock, í hópi keppenda sem biðu eftir að komast að, hósti þegar Charles nefnir þann möguleika sem var réttur. Hann og framleiðandinn fara að tala um það sín á milli í samskiptakerfinu að þetta sé svindl og bráðlega taka kvikmyndatökumennirnir undir. Eigandi fyrirtækisins Celador sem átti hugmyndina að þættinum var kallaður inn í salinn og eftir að Charles hafði fengið ávísunina í hendur hófust fundarhöld yfirmanna ITV og Celadors og það endaði með því að þeir settu stopp á ávísunina og vísuðu málinu til lögreglu.

 „Fljótlega verður starfsfólk þáttarins tortryggið og þeim finnst ekki einleikið hversu oft Charles skiptir um skoðun á síðustu stundu og velur rétta svarið umfram þann möguleika sem honum hafði áður þótt líklegastur.“

Líf þeirra Charles og Diönu hefur aldrei orðið samt eftir réttarhöldin. Þau halda sig mjög til hlés og hafa ekki viljað tala við fjölmiðla árum saman.

Blekking eða svik?

Þar með hófst rannsókn en í raun voru menn á nokkuð hálum ís. Ekki var fyllilega ljós hvaða lög voru brotin eða hvort það væri yfirleitt lögbrot að svindla í sjónvarpsþætti á borð við þennan. En að lokum voru Ingram-hjónin ákærð fyrir að hafa sviksamlega fundið leið til að rjúfa öryggi með blekkingum. Þau hjónin voru dæmd ásamt Tecwen en hann var velskur kennari sem oft hafði reynt að komast að í þættinum en ekki haft erindi sem erfiði.

Sjónvarpsþættirnir fylgja atburðarrásinni mjög vel og eru einstaklega vel uppbyggðir, einkum vegna þess að þeir gera ekki tilraun til að færa áhorfendum afgerandi svar hvað varðar sekt hinna ákærðu. Saga spurningaþáttarins er merkileg og það kemur fram að flókin samtök svindlara unnu að því að bæta möguleika fólks bæði í þessum þætti og öðrum svipuðum. Réttarhöldin eru einnig áhugaverð og leikarnir skila sínu einstaklega vel. Þeir sem hafa aðgang að Netflix ættu ekki að láta þessa flottu þætti fram hjá sér fara.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 30, 2024 07:00