Ömmur elska að passa barnabörnin. Þeim finnst það svo skemmtilegt að þær kasta öllu frá sér og skiptir þá engu hvort þær eru beðnar um að gæta barnanna smá stund, leyfa þeim að gista eina nótt eða gæta þeirra í viku. Engin vandmál eða hvað? Er spurt í grein á vefnum considerable.com.
Mörgum uppkomnum börnum finnst sjálfsagt að foreldrar þeirra hlaupi undir bagga og hjálpi þeim við barnapössun. Sérstaklega ef amma, afi eða bæði eru hætt að vinna. Ömmum og öfum finnst það líka oftast sjálfsagt en stundum fara hlutirnir úr böndunum. Það getur því borgað sig að setja mörk um barnapössun þegar barnabörnin eru nýfædd, jafnvel áður en þau fæðast.
Stundum gengur þetta allt ágætlega upp. Annie Daniel á átta barnabörn á aldrinum eins árs til 12 ára. Hún segist varla muna eftir því að hún hafi neitað að passa börnin þegar hún hefur verið beðin um það. „Ég hef alltaf verið til staðar og ég hef notið hverrar mínútu með barnabörnunum,“ segir hún. Önnu finnst þess vegna að þetta hafi aldrei verið skylda heldur lítur hún á þetta sem góða leið fyrir hana og barnabörnin að kynnast og mynda tengsl. Hún segir líka að foreldrar barnanna hafi ætíð reynst sér vel og henni hafi aldrei fundist þau stilla sér upp við vegg þegar þau hafa beðið um pössun.
Þetta er næstum of gott til að vera satt. Öðrum líður eins og það sé skylda þeirra að gæta barnabarnanna. Ömmunni Zeldu finnst börnin hennar ekki þakklát í sinn garð og líður eins og þau séu að nota hana. „Þú óttast að þau hringi og biðji um pössun. Þegar símtalið kemur segir þú „já“ og hugsar hvað í fjandanum var ég að gera.“ Zelda segist sjálf hafa komið sér í þessi vandræði því hún hafi ekki sett nein mörk. „Þetta byrjaði sakleysislega. Ég var beðin um að passa barnabarnið mitt í smástund á meðan móðir þess færi og keypti í matinn. Ég sagði auðvitað „já“ því mér fannst sjálfsagt að gera þetta fyrir þau. Tveimur dögum síðar var hringt aftur. Eftir það voru þau endalaust að biðja mig að passa,“ segir Zelda og bætir við að hún hafi aldrei vitað hvenær hún hafi getað átt von á símtali. Hún segir að það hafi tvær raddir hljómað í höfðinu á sér. Önnur sagði henni að vera ekki sjálfselsk og hjálpa til með barnabarnið en hin minnti hana á að hún hefði verið búin að ákveða að eyða tíma sínum í að sinna einhverju öðru.
Ein leið til að forðast aðstæður sem þessar er að segja börnum ykkar og tengdabörnum hversu miklum tíma þið viljið eyða í að passa barnabörnin. Fólk ætti jafnvel að brydda upp á þessu umræðuefni áður en börnin eru fædd. Ef þið teljið til að mynda að það sé ykkur um megn að gæta barnabarnanna heilan dag eigið þið að segja börnunum ykkar það, segir fjölskylduráðgjafinn og rithöfundurinn Karyn Henley. Hún segir að það sé ekkert að því að setja mörk það komi í veg fyrir leiðindi og misskilning. Ef að afar og ömmur segja já í hvert einasta skipti sem þau eru beðin, biðja börnin þau fyrst af öllum alltaf þegar þau vantar pössun. Hún segir að í dæmi Zeldu hafi tvær viðvörunarbjöllur átt að hringja strax, í fyrsta lagi það var gengið á lagið og hún beðin oftar og oftar að passa og í öðru lagi hafi foreldrarnir beðið hana um að gera stöðugt meira fyrir barnið. Karyn segir að foreldrarnir hafi beðið um að barnið fengi að gista og þegar Zelda sagði já, báðu þau hana um að fara með það til læknis morguninn eftir. Þau hafi líka ætlast til að hún passaði barnið þegar þau fóru í helgarferðir. Þegar Zelda lærði loksins að setja einhver mörk urðu samskipti hennar og foreldranna mun jákvæðari. Þau héldu að hana langaði að vera með barnið öllum stundum af því að hún sagði alltaf já þegar hún var beðin. Í dag hefur hún lært að segja nei, ef hún telur sig ekki hafa tíma eða er búin að ákveða að gera eitthvað annað.
Karyn segir að afar og ömmur hafi engar skyldur þegar komi að barnapössun. Þau eigi að geta sagt nei ef þeim finnst það ekki henta að þau séu með börnin. Börnin séu ekki á þeirra ábyrgð. Hún segir líka að það ættu allir að vinna saman og það sé á ábyrgð afa og ömmu að láta vita hvort þau séu tilbúin að passa og þá hversu mikið