Það vekur miklu meiri athygli þegar eldri kona tekur saman við yngri mann heldur en þegar eldri karl karl tekur saman við yngri konu. Eldri kona og yngri maður eru endalaust undir smásjá almennings. Þetta kemur fram í grein sem sálfræðingurinn Justin Lehmiller skrifaði. Lifðu núna stytti og endursagði.
Lehmiller segir rannsóknum að beri saman um að samfélagið hafi mismunandi afstöðu til aldursmunar hjóna. Það þyki í lagi í samböndum að karl sé mörgum árum eldri en konan en þegar konurnar séu mun eldri en karlarnir fari heimurinn á hvolf. Konum sem velja sér yngri menn sé oft líkt við rándýr og þær sagðar hafa óseðjandi áhuga á kynlífi. Engum myndi detta í hug að tala niður sambönd eldri karla og yngri kvenna á sama hátt og þegar eldri konur eiga í hlut. Það kann að vera skýringin á því að hjónabönd eldri kvenna og yngri karla eru mun fátíðari en hjónabönd þar sem aldursmunurinn er á hinn veginn. Til að mynda eru einungis 1,3 prósent hjónabanda í Bandaríkjunum þar sem konan er meira en tíu árum eldri en maki hennar.
Hjónabönd þar sem konan er mun eldri en karlinn eru ekkert síður hamingjusöm en þar sem hjónin eru á líkum aldri, stundum eru þau meira segja mun betri. Í rannsókn sem gerð var og náði til 200 gagnkynhneigðra kvenna var konunum skipt í þrjá hópa. Þær sem voru um það bil 22 árum eldri en maki þeirra, í öðrum hópnum voru konur sem voru um það bil 17 árum eldri og þriðja hópnum voru konur sem voru líkum aldri og makar þeirra. Í ljós kom að konur sem voru meira en tíu árum eldri en makar þeirra voru ánægðari í hjónabandinu en þær sem voru aðeins yngri en makinn eða jafngamlar maka sínum.
Spurningunni um hvers vegna konur sem voru mun eldri en maki þeirra eru hamingjusamari segir Lehmiller að menn viti það ekki fyrir víst. Hann setur þó fram þá tilgátu að í slíkum hjónaböndum sé meira jafnrétti. Það hafi verið gerðar fjölmargar rannsóknir á hjónaböndum og í þeim sem mest jafnrétti virðist ríkja þá sé fólk hamingjusamara.
Að lokum segir Lehmiller að þrátt fyrir hrakspár margra sé ekkert sem bendi til þess að hjónabönd þar sem konan sé eldri séu verri en hjónabönd fólks á svipuðum aldri. Það séu því góðar líkur á að slík sambönd endist á meðan bæði lifa.
Hér fyrir neðan má svo sjá bráskemmtilegt vídeó af Youtube þar sem segir að 97 prósent kvenna vilji giftast yngri mönnum en hversvegna.