Fæða og jurtir sem hafa áhrif á svefninn

Margir upplifa svefntruflanir og erfiðleika með að sofna einhvern tíma á ævinni. Hvíldin er mikilvæg og það hefur mikil áhrif á heilsuna ef þessar truflanir eru langvarandi. Það er mögulegt að ýmislegt í fæðunni hafi áhrif á hversu vel eða illa fólki gengur að sofa. Skoðum fyrst nokkrar fæðutegundir sem hafa vond áhrif á svefninn.

Gamall ostur

Kjöt

Poppkorn

Sykur

Appelsínur og aðrir sítrusávextir

Tómatar

Kaffi og allir koffeindrykkir

Alkóhól

Í gömlum osti er efni sem heitir týramín en það er amínósýra sem reyndar er í fleiri fæðutegundum en í það miklu magni í gömlum ostum að það getur hækkað blóðþrýsting og valdið hraðari hjartslætti og þar með gert mönnum erfiðara fyrir að sofna.

Það kann að koma mörgum á óvart að sjá á þessum lista kjöt, poppkorn og tómata. Skoðum fyrst kjöt. Hátt hlutfall af prótíni er í kjöti og meltingarkerfið þarf mikla orku til að melta það. Ef kjöt er borðað á kvöldin fer starfsemi meltingarkerfisins á fullt en þegar fólk sefur hægist á allri starfsemi líkamans og kjötið er þá sjaldnast fullmelt þegar menn vakna á morgnana. Þetta getur truflað svefninn þannig að menn ná ekki fullri hvíld.

Trefjarnar í poppkorni örva meltingarkerfið og það er aldrei gott að örva starfsemi líkamans rétt áður en farið er að sofa. Ef þú ert einn af þeim sem finnst gott að borða snakk á kvöldin og velur poppkorn sem hollan kost ættir þú að skoða að velja eitthvað annað. Í tómötum og sítrusávöxtum er sýrur sem geta valdið bakflæði og brjóstsviða. Koffein og sykur veldur álagi á taugakerfi líkamans sem getur gert það að verkum að ekki næst sú slökun sem nauðsynleg er til að sofa vel.

Streita og fæða

Mataræði hefur mun getur ýmist nært taugakerfið eða valdið þar ójafnvægi. Gott er að velja fæðutegundir sem eru ríkar af B-vítamínum til dæmis, egg, lax, jógúrt, avókadó, gróft korn og lifur. Kalkríkur matur eins og mjólk og mjólkurvörur er góður með árunum til að styrkja bein en hann hefur einnig góð áhrif á taugakerfið. Það hefur magnesíum líka og margir taka orðið inn magnesíum en þeir sem vilja fá það úr fæðunni ættu að borða banana, hnetur, baunir og fræ. Omega 3 fítusýrur eru bráðhollar og draga úr streitu og vanlíðan. Þær er að finna í fiski og fiskmeti, innmat og ýmsum fræjum. Hafrar draga líka úr streitu og eru ákaflega hollir fyrir taugakerfið.

Það skiptir miklu máli að hafa reglu á öllum hlutum, fara að sofa á sama tíma, vakna á sama tíma og borða á sama tíma. Sykur, koffín og önnur örvandi efni valda miklu álagi á taugakerfið og geta skapað streitu. Það er líka mikilvægt að hreyfa sig, njóta þess sem veitir þér ánægju og vera úti í náttúrunni.

Góð ráð til að koma á jafnvægi

Ef svefninn hefur verið í ólagi er gott að draga úr koffínneyslu til að koma á jafnvægi að nýju. Draga verulega úr öllu sætindaáti. Ekki borða seint á kvöldin, draga úr neyslu og kolvetnum m.a. brauði og kartöflum.

Róandi jurtir

Nokkrar jurtir virka róandi og geta hjálpað fólki að sofna, ýmist með því að drekka þær í tei eða anda að sér ilminum af þeim. Þessar jurtir eru m.a. slakandi og róandi:

Lavender
Kamilla
Lindiblóm
Hjartafró
Járnurt

Humall
Garðabrúða
Ástríðublóm

Hægt er að fá te sem innihalda þessar jurtir í flestum heilsuvörubúðum. Margir kjósa að hafa litla púða með lavender á náttborðinu eða inni í skáp þar sem þeir geyma sængurfötin. En te af þessum jurtum virka slakandi og menn drekka þau gjarnan klukkustund áður en þeir ætla að fara að sofa.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 27, 2024 07:00