Hjónin Gunnar Gunnarsson og Elín Jóna Jónsdóttir fóru nýlega í hóp ferðalanga með Bændaferðum í siglingu frá St Pétursborg í Rússlandi til Moskvu. Flogið var til Helsinki og farið þaðan með rútu til Pétursborgar. Þegar þangað var komið var farið um borð í skipið sem þau áttu eftir að sigla með til Moskvu. Eftir tvo fróðlega daga í Pétursborg var siglt eftir ánni Neva. Hún er 74 kílómetrar og þriðja stærsta vatnsfall í Evrópu ef miðað er við árlegt meðalrennsli. 28 kílómetrar árinnar renna um Pétursborg. Siglt var yfir tvö gríðarstór stöðuvötn, Ladoga og Onega. Hér til vinstri á síðunni má sjá lítið kort af svæðinu sem siglt var um. Frá Onegavatni var svo siglt eftir ánni Volgu alla leið til Moskvu.
Gott skip
Gunnar og Elín Jóna höfðu ekki áður komið til Rússlands. Ýmsir hafa fordóma gagnvart Rússlandi en þau segjast hafa farið þangað með opnum huga. Íslenski hópurinn var tæplega 40 manns og Pétur Óli Pétursson var fararstjóri. „Ferðin kom skemmtilega á óvart“, segir Elín Jóna. „Þetta var miklu betra og huggulegra en ég hafði gert mér í hugarlund. Við vorum á þriðja dekki á besta stað. Skipið var allt nýuppgert, herbergið rúmgott með baðherbergi og glugga“. Siglingin til Moskvu tók sex daga. Meðfram siglingaleiðinni voru litlir bæir og farið var í land og í skoðunarferðir alla daga. Fyrsti staðurinn þar sem stoppað var heitir Mandrogi, sem er ferðamannastaður og þar er meðal annars Vodkasafn. Þar var heill veggur af flöskum og hægt að kaupa sér Vodka smakk.
Töluverð umferð á ám og vötnum
Skipafélagið sem ferðast var með, er með mörg svipuð skip í siglingum á þessari leið og þar er mikil umferð og miklir skipaskurðir. Skipsstjórinn og allt starfsfólkið voru Rússar. Skipsstjórinn hélt sérstaka kynningu í upphafi ferðar þar sem hann kynnti stjórnendur skipsins fyrir ferðamönnunum og einnig bauð hann eitt kvöldið uppá sérstakan hátíðarkvöldverð þar sem fólk klæddi sig uppá. Auk Íslendinganna voru þarna ferðamenn frá ýmsum löndum svo sem Frakklandi, Þýskalandi, Finnlandi, Noregi og Kanada. Þjónustan um borð var mjög góð og alltaf dúkuð borð. Gunnar og Elín hrósuðu rússneska þjónustufólkinu. „Það var allt fyrsta flokks, matur, borðbúnaður og viðmót fólksins“ segir Elín Jóna.
Saga rússnesku keisaranna kynnt
Elín Jóna segir að siglingin hafi verið mjög þægileg og þau hafi varla fundið fyrir sjó eða veðri. „Við heyrðum varla í vélum skipsins þarna uppá þriðja dekki. Á siglingunni dáðumst við að umhverfinu, húsunum á ströndinni og sólarlagið var mjög fallegt. Landið var allt skógi vaxið“. Það var mikið um skemmtanir um borð. Saga rússnesku keisaranna var til að mynda kynnt með kvikmyndum og það var líka hægt að fá kennslu í rúnssnesku og dansi, auk þess sem boðið var uppá jóga og teygjur alla morgna uppá þilfari. Gunnar tók mikið af myndum og fylgja nokkrar þeirra með þessari grein.
List í neðanjarðarbrautarstöðvum
Þegar komið var til Moskvu var farið í skoðunarferð sem heitir Moskva at night og það fannst Elínu mjög skemmtilegt. Hún segir að Moskva sé hreint stórkostleg borg. Söfnin, byggingalistin, stærðin á borginni og listaverkin, allt sé þetta svo flott, og gulli slegnir turnarnir. „Mér fannst alveg sérstakt hvað það var hreint alls staðar. Við skoðuðum neðanjarðarbrautarstöðvar sem voru skreyttar marmara og listaverk á veggjum og loftum. Þetta var meira eins og að koma inní listasafn. Þarna voru kristalsljósakrónur og hvergi sást rusl eða óhreinindi“, segir hún og bætir við að þetta hafi verið draumaferð. „Okkur voru sýndar blokkir frá Stalínstímabilinu. Þær voru mjög stórar, háar og langar tilsýndar. Við sáum líka nýjar blokkir, það var mikið verið að byggja. Pétur Óli sem hefur búið í Rússlandi segir að á síðustu 20 árum hafi orðið þar bylting í allri uppbyggingu“.
Merkilegt flutninga- og vatnakerfi
Gunnar segir að þetta hafi verið skemmtilegt alla leið. Útsýn frá skipinnu hafi ekki verið sérstaklega fjölbreytt en landslagið nýstárlegt. „Mér fannst magnað að kynnast þessu mikla flutninga- og vatnakerfi og sjá hversu öflugar flutningaleiðir þessi vötn, ár og kanalar voru og eru. Mér finnst ég hafa kynnst Rússlandi töluvert með því að fljóta á þessum vötnum og ám og sjá hvernig þær tengjast mannlífi og sögu frá Hvítahafi og um þvert og endilangt landið.
Skynjar hvað Rússland er mikið gósenland
„Það var frábært að eiga kyrrlátar stundir á þilfarinu og nema þetta stórbrotna land“, segir hann. Þau hjónin sáu mikið skógarhögg og flutninga á timbri, byggingarefni og olíu á leiðinni. Gunnar hrífst af Rússum. Þeir eigi svo mikla menningu, listir, tónlist, dans, mat og fleira. „Maður skynjaði hvað Rússland er mikið gósenland“ sagði hann í samtali við blaðamann Lifðu núna. Ferðin kom þeim hjónum sannarlega á óvart. Veðrið hafði líka sitt að segja. Þau fengu frábært veður, sól og blíðu nánast alla daga sem gerði ferðina ógleymanlega.