Fluttu frá Portúgal á Selfoss

Austurkot. Páll keypti húsið og gerði það upp

Þórunn E. Guðnadóttir og Páll E. Jónsson fluttu eftir hrunið frá Portúgal á Selfoss, en þá höfðu þau búið í þorpinu Saint Antonio, skammt frá Aveiro í Norður- Portúgal í 11 ár.  Blaðamanni lék forvitni á að vita hvers vegna þau fluttu til Portúgal. Þær eru nefnilega fleiri sögurnar af fólki sem er að flytja til Spánar.

Vildi flytja þangað sem ódýrara væri að lifa

Þórunn segir að Páll hafi verið fluttur þangað á undan henni. Hann sé sjónskertur, en hún menntaður sjónþjálfi sem hafði unnið á Sjónstöð Íslands í mörg ár. Þangað var Páll vanur að koma og Þórunn hafði árum saman tekið á móti honum þar til að aðstoða hann með ýmiss konar þjónustu. Hann er járnsmiður, en hætti að geta unnið vegna sjónskerðingarinnar. Þá datt honum í hug að flytja í betra loftslag á stað þar sem væri ódýrara að lifa, en hann var orðinn öryrki.  Í Portúgal er betra veður en á Íslandi, en snjór og hálka er mjög erfið fyrir sjónskerta. „Það er talað um snjó sem þoku blinda mannsins“, segir Þórunn.

Páll og Þórunn þegar þau voru yngri

Er veðrið ekki gott í Portúgal?

Páll bjó með konu sem líkaði ekki vistin í Portúgal og það slitnaði uppúr sambandinu. „Hann var orðinn einn og langaði að vera í sambandi við fólk“, segir Þórunn. „Hann hringdi á Sjónstöðina og bað um mig, til að grennslast fyrir um hvort hann fengi styrk til að kaupa stækkunarforrit í tölvuna, sem blindir og sjónskertir nota. Ég sagðist ekki geta svarað strax, en myndi leggja þetta fyrir stjórnina og bað hann um að hringja seinna. Spurði svo af rælni, hvort veðrið væri ekki gott í Portúgal. Jú, það var stórfínt. Hann sagðist hins vegar vera orðinn einn og sig vantaði konu. Sagði svo í gríni að ef ég vissi um einhverja á lausu, skyldi ég setja frímerki á rassinn á henni og senda hana til sín. Og ég sagðist þá ekki vita um neina, nema kannski sjálfa mig. Þá sagði hann að ég væri einmitt rétta konan fyrir sig og bað mig að koma til sín í Portúgal!“, segir hún og hlær.

Varð ekki aftur snúið

„Ég var í góðu starfi og nýbúin að kaupa íbúð, þannig að ég var ekki að fara neitt, en hann hringdi aftur þremur tímum síðar og ítrekaði boðið. Það varð úr að við fórum að skrifast á. Þetta var í október. Ég fór svo að heimsækja hann um jólin 1999 og var úti í 10 daga. Ástin blossaði upp og það varð ekki aftur snúið. Eftir hálft ár fór ég út til hans um miðjan júní“, segir Þórunn. Það fannst ekki öllum þetta gáfulegt, hún í góðu starfi og ekki komin eftirlaun. Þegar þarna var komið sögu var Þórunn 58 ára og Páll 64ra ára. „En við lifðum góðu lífi á einum örorkubótum. Hann var búinn að kaupa lítið hús og gera það upp og þarna bjuggum við í 11 ár“.

Þórunn í garðinum í Portúgal

Kostaði ekkert að fara út að borða

„Við vorum bara að láta okkur líða vel“, segir Þórunn aðspurð hvað þau hafi verið að gera í Portúgal. „Hann var hættur að vinna og við unnum garðyrkjustörf þegar við nenntum og langaði til. Þarna voru alls konar ávaxtatré, mest af appelsínum, en líka epli, perur, plómur, fíkjur og fleira. Ég tíndi ferskar fíkjur sem eru mjög góðar. Svo ræktuðum við grænmeti, til dæmis tómata og gúrkur og bóndabaunir. Við borðuðum mikið af grænmeti og ávöxtum og þarna kostaði ekkert að fara út að borða.

Hugsaðu þér að vera í sumarfríi í 11 ár

Þau Þórunn og Páll ferðuðust um allt Portúgal og allan Spán. „Ég gleymi aldrei fyrsta deginum úti. Páll átti bíl og hann spurði mig hvort við ættum ekki að fara út að keyra,  sjónskertur maðurinn. Ekki keyrir þú? sagði ég við hann en hann sagðist myndu leiðbeina mér. Ég komst út á hraðbrautina til Aveiro og það var mjög auðvelt að keyra þarna. Svo fengum við okkur hjólhýsi og fórum frá Portúgal yfir til Spánar, en frá okkur voru einungis 100 km. til Norður- Spánar. Þaðan lá leiðin til Andorra og Alicante á Spáni. Við ferðuðumst heilmikið“, segir Þórunn dreymin. Hún segir að þau hafi ekki saknað fjölskyldunnar. Þau hafi fengið mikið af heimsóknum fyrir hrun og farið heim einu sinni á ári í október. „Ég hef aldrei séð eftir að hafa flutt út. Hugsaði þér að vera í sumarfríi í 11 ár og haf ekki áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut. Ganga á hverjum morgni út í glampandi sólina. Veturinn hér, er eins og sumarið á Íslandi. Maður gengur ekki í sokkum og þarna eiga konurnar engar kápur, en eru mikið með sjöl á veturna“.

Þórunn og Páll ferðuðust mikið í Portúgal og á Spáni

Austurkot í Portúgal

Páll og Þórunn áttu að baki hjónabönd þegar þau hittust og hann átti þrjú börn en hún tvö. Hann er frá bænum Austurkoti í Sandvíkurhreppi, skammt frá Selfossi, en hún segist vera Vopnfirðingur þó hún hafi flutt ásamt foreldrum sínum til Reykjavíkur þegar hún var unglingur. Þar starfaði hún við ýmislegt sem tengist sjón og gleraugum, vann til að mynda í Linsunni í Aðalstræti í nokkur ár, þaðan lá leiðin á Sjónstöðina, en hún lærði sjónþjálfun í sérkennsludeild Kennaraháskólans í Stokkhólmi. Samtals eiga þau 12 barnabörn. Hann á svo tvö langafabörn, en hún einn langömmustrák, sem heitir Fróði Lovísuson, sonur söngkonunnar Lay Low sem er dótturdóttir Þórunnar. Húsið þeirra í Portúgal hét svo auðvitað Austurkot. Portúgalir áttu erfitt með að bera heitið fram og kölluðu það Ástarkot.

Svo kom hrunið

Lífið í Portúgal var dásamlegt, en svo kom hrunið. Evran sem kostaði 70 krónur þegar Þórunn flutti út fyrir 18 árum var komin í 220 krónur þegar þau fluttu heim. Tekjurnar sem þau höfðu frá Íslandi rýrnuðu gríðarlega, auk þess sem það varð erfitt að fá gjaldeyri að heiman, vegna gjaldeyrishaftanna. Þeim var gert að koma heim tvisvar á ári og framvísa farseðlum út, til að fá peninga millifærða frá Íslandi til Portúgals. Það virtist betri kostur að selja húsið og flytja heim. „ Það var líka kreppa í Portúgal“, segir Þórunn. „Það voru allir hræddir og menn töldu þar að það myndi taka tvö ár og selja húsið.  Það vill enginn kaupa sagði fólk“. En þá kom vinkona okkar og gerði okkur tilboð í húsið og lóðina. Við þorðum ekki annað en taka því, þó verðið væri lægra en við höfðum vonast til.  Síðan var pantaður gámur og heim fór búslóðin frá Vigo með Eimskip. Við flugum svo heim og þar beið okkar þessi íbúð hér“, segir Þórunn, en íbúðin er mjög hugguleg,  í nýlegu húsi á Selfossi. Það var systir Páls, sem fann fyrir þau íbúðina og taldi hana passa vel fyrir þau.

Þórunn með vinahjónum sínum sem keyptu húsið í Portúgal af þeim Páli. Konan á myndinni Graca, kenndi þeim portúgölsku

Þekkti bara systur Páls á Selfossi

Þórunni líkar vel á Selfossi. „Ég þekkti engan hér nema systur Páls og með henni gekk ég í kvenfélagið og Rauða kross deildina í bænum.  Svo fór ég að gera ýmislegt með Félgi eldri borgara, sá til dæmis um kaffi í opnu húsi þar einu sinni í mánuði og varð hópstjóri í prjónaklúbbi Rauða krossins. Ég er líka hópstjóri í gönguhópi eldri borgara sem hittist einu sinni í viku. Hann fer frá Grænumörk 5 í rútu sem Guðmundur Tyrfingsson sendir okkur, okkur að kostnaðarlausu. Ég finn gönguleið þar sem ég er nokkuð viss um að við höfum vindinn í bakið og við göngum 3-4 kílómetra. Fólk er alsælt, þetta er svo gaman og gott að ganga úti. Við göngum allan veturinn frá því í september og út maí.

Vilja flytja nær þjónustunni

Páll hefur glímt við veikindi undnfarið ár. Þórunn deildi fyrir skömmu með Lifðu núna, lista yfir helstu atriði sem þarf að huga að, þegar ellin fer að herja á fólk. Sjá hér.  Það er mikil þjónusta við eldri borgara á Selfossi, enda hafa margir flutt þangað, bæði frá höfuðborgarsvæðinu og úr nærsveitunum. En það þarf að kynna sér alla þjónustu vel, hvort sem er á Selfossi eða annars staðar. Eitt af því sem Þórunn var að uppgötva, er að Páll á rétt á styrk til bílakaupa. Það kom sér vel fyrir þau, því styrkurinn nam 1400 þúsund krónum. Þórunn segir að þau séu búin að ákveða að selja íbúðina sem þau búa í. Þau hafa fest sér aðra íbúð í nýju fjölbýlishúsi sem er í byggingu á Austurvegi, skammt frá þjónustunni við eldri borgara í Grænumörk.  Íbúðin er laus í maí. „Við erum mjög sátt við að flytja þangað. Þetta er 3ja herbergja íbúð og allt nýtt“, segir hún.

 

 

Ritstjórn nóvember 9, 2018 06:16