Jónína Ólöf Emilsdóttir ólst upp í Laugarneshverfi. Starfsævi hennar til dagsins í dag er nokkuð hefðbundin. Jónína er þó langt frá því að vera venjuleg kona. Hún hefur sannarlega nýtt alla reynslu sem henni hefur áskotnast til að efla sjálfa sig. Þegar hún var barn bjó í nágrenni við fjölskyldu hennar fólk sem hafði fengið orð á sér fyrir að vera “ólánsfólk”. Hún lærði því fljótt að lesa í stöðuna og nýta þá reynslu til að geta sett sig í spor annarra. Óhætt er að segja að ferill Jónínu sem kennari og síðar skólastjóri sé farsæll. Frekar en beina sjónum að því sem miður hafði farið einblíndi hún á það sem vel var gert og uppbyggilegt. Það reyndist henni síðan vel í starfi sínu með börn og unglinga.
Mikilvægt að varðveita barnið í sér
Dóttir Jónínu hélt upp á 38 ára afmæli sitt nýverið og bauð bara vinkonum. “Ég fékk að fljóta með og afmælisbarnið ákvað að hafa kareoke keppni í veislunni. Þá varð ég skyndilega 10 ára aftur,” segir Jónína og hlær. “Þarna voru samankomnar æskuvinkonur stelpunnar að vestan, ættingjar og vinkonur úr verkfræðinni, allt frábærar stelpur sem nutu þess að vera saman og gleðjast. Ég fékk að syngja uppáhaldslagið mitt og skemmti mér konunglega. Það er svo gott að geta sleppt fram af sér beislinu öðru hverju í góðra vina hópi og halda í barnslega hrifningu. Dóttir mín fullvissaði mig um að ég hefði ekki orðið henni til skammar,” segir Jónína og skellihlær. Þarna er skólastjóranum vel lýst. Börn finna galsann sem býr í Jónínu þótt hún geti líka verið alvörugefin þegar það á við.
Var á 95 ára reglunni
Hugur Jónínu stefndi að því að bæta við sig menntun í stjórnun skóla og þess vegna fór hún í stjórnendanám og lauk mastersnámi í stjórnun menntastofnana 2005. Hún sótti um skólastjórastöðu í Vogaskóla 2007 og starfaði þar þangað til hún tók ákvörðun um að hætta og fara á eftirlaun 2019. Það gerði hún af persónulegum ástæðum en líka af því henni þótti tími til kominn að aðrir tækju við keflinu því enginn sé ómissandi. Jónína er ein þeirra sem eftir voru á 95 ára reglunni þrátt fyrir að vera rétt rúmlega sextug. Hún segir að það hafi verið tiltölulega auðveld ákvörðun að hætta að vinna en er ánægð þegar hún hugsar til þess tíma sem hún var í þessu ábyrgðarmikla starfi. Þó Jónína sé hætt föstu starfi, tók hún nýlega að sér tímabundi starf við lestrarátak í Fossvogsskóla sem hún segist hafa mjög gaman af. „Mér finnst svo gaman að vera með börnunum“, segir hún.
Verðum að gæta þess að njóta
Jónína var að undirbúa göngu í Svarfaðardal þegar viðtalið var tekið. “Jafnaldrar mínir erum margir við góða heilsu og hafa fjölmörg áhugamál,” segir Jónína. “Auðvitað er gott að geta hagað lífi sínu þannig að maður geti ráðið tíma sínum og ég met það mikils. Ég nýti náttúruna mikið til að hreyfa mig og hugleiða. Það geri ég gjarnan þegar ég fer ein í göngutúra en svo fer ég líka í göngur í góðra vina hópi. Það er með því skemmtilegra sem ég geri.”
Pælingar um tilveruna og jógakennaranám
Jónína íhugaði ýmsa möguleika þegar hún ákvað að hætta að vinna. Hún hafði um nokkurt skeið velt jógafræðum fyrir sér og var orðin forvitin um hvað það væri sem svo margir jafnaldrar hennar sæktu í um þessar mundir. “Eru þetta trúarbrögð eða tískufyrirbrigði,” spurði ég sjálfa mig. “Til að komast að því ákvað ég að fara í jógakennaranám. Og eftir pælingar komst ég að því að grunnurinn að jógafræðunum væri meðvitund miklu frekar en núvitund sem mér finnst vera tískuhlutinn af jóganu. Jógað kennir að maður verði að greina hvað það er sem skiptir máli í lífinu og hvað ekki og svarið er “kærleikurinn”. Þegar ég var búin að átta mig á því fann ég ákveðna hugarró í jógafræðunum sem er svo eftirsóknarverð. Kærleikurinn er grunnurinn í öllum trúarbrögðum ef út í það er farið. Jóga vinnur á sömu aldagömlu fræðunum og þótt ég sé ekki búin að kafa djúpt líkar mér margt af því sem þar er kennt. Ég fór líka að velta því fyrir mér hver Guð væri. Og eftir töluverðar vangaveltur fannst mér ég komast að þeirri niðurstöðu að Guð væri í manni sjálfum. Í flestum trúarbrögðum er einhver einn sem allir tilbiðja en ég hef aldrei almennilega skilið það,” segir Jónína. “Þegar fólk á að tilbiðja sama “gúrúinn” og bera lotningu fyrir honum fyllist ég vantrú. Ég nýti mér það sem kennt er í jógafræðunum eins og hugleiðslur, öndun, liðleikaæfingar og slökun. Þess vegna held ég að jógafræðin henti mér ágætlega,” segir Jónína.
Ákvað snemma að verða kennari
Jónínu gekk vel í námi og ákvað snemma að hún vildi verða kennari. Eftir grunnskólann fór Jónína í MT og var í síðasta árganginum sem upplifði Menntaskólann við Tjörnina. Eftir það flutti MT inn í Voga og þá breyttist nafnið í Menntaskólinn við Sund eða MS. Jónína lauk starfsferli sínum síðan á þeim slóðum sem skólastjóri Vogaskóla síðustu 12 árin.
Eftir menntaskóla fór Jónína í Kennaraháskólann og lauk þaðan kennaraprófi 1980. Á þeim árum kynntist hún Einari Rósinkar sem varð seinna eiginmaður hennar, en hann var frá Ísafirði. Jónína hafði tekið æfingakennsluna á Ísafirði og var alveg til í að prófa að flytja þangað í eitt ár. Árin urðu 23 sem reyndist verða mjög skemmilegur og lærdómsríkur tími. Jónína segir að Ísafjörður sé einstakur bær með fjölbreytt menningarlíf. Einar er nú látinn en þau eignuðust þrjár dætur saman og barnabörnin eru orðin þrjú.
Með BA próf í heimilisfræði
Húsmæðrakennaraskóli Íslands var lagður niður 1977 og þá varð námið valgrein í Kennaraháskólanum. Jónína valdi heimilisfræði sem aðalvalgrein í kennaranáminu og segir að greinin hafi nýst sér mjög vel. Í heimilisfræði hafi hún m.a. kynnst gamla tímanum og gamla handbragðinu í gegnum konurnar sem þar kenndu. Aldeilis frábærar konur. Jónína segir hlæjandi frá því að hún sé ein af fáum sem séu með BA próf í heimilisfræði.
Gífurlegar breytingar á skólastarfi
Jónína segir að það sé auðvitað alltaf sameiginlegur vilji foreldra og skóla að koma barninu til mennta og þroska en þrátt fyrir það komi auðvitað alltaf upp vandamál. “Við þurfum að fást við slíkar krísur á þann hátt að allir komist vel frá því borði, en það er ekki alltaf einfalt. Breytingarnar á skólastarfi frá því ég var barn eru sem betur fer gífurlegar,” segir Jónína. “Kennarar voru “lærifeður” en ekki “uppalendur” og þeim fannst það ekki vera hlutverk kennara að skipta sér af uppeldismálum barna. Nú er öldin önnur. Þegar ég ákvað að fara í kennaranám þótti það reyndar ekkert mjög “smart” en það hefur sem betur fer breyst mikið. Smám saman hefur virðing fyrir kennarastarfinu aukist og fólk í ríkara mæli farið að gera sér grein fyrir hversu mikilvægir kennarar eru í lífi barna. Við erum með fjöreggið í höndunum og góður kennari getur sannarlega skipt sköpum í lífi barna. Við kennarar sjáum svo vel mennskuna sem býr í börnunum og það skiptir svo miklu máli að vernda hana. Börn eru einstök og hvert og eitt verðskuldar allt það besta frá okkur. Mér finnst börn vera stórkostlegar mannverur og það er svo gefandi að fylgjast með þeim leysa alls kyns vandamál ef þeim er leiðbeint rétt og gefin tækifæri.”
Starf skólastjóra skemmtilegt en krefjandi
Jónína tekur fram að starf skólastjóra sé skemmtilegt, en geti auðvitað verið mjög krefjandi. “Númer eitt eru auðvitað börnin en svo eru foreldrarnir og ekki síður starfsfólkið. Skólastjórinn er allt í senn fjármálastjóri, starfsmannastjóri og ráðgjafi. Við þurfum stundum að greiða úr og reyna að leysa deilur sem upp koma, jafnvel milli fjölskyldna. Skólastjóri þarf því að vera skilningsríkur og geta sett sig í spor annarra. Hann verður að koma hugmyndafræði sinni og stefnu á framfæri og ákveða hvernig skóla hann vill stýra. Skólastarf snýst um börnin en áherslurnar hafa breyst gífurlega. Með aukinni og almennri tölvunotkun og fjölgun samfélagsmiðla hefur skólastarf tekið miklum breytingum og ég hef reynt að fylgjast vel með þeim málum.” Jónína hafði fyrir sið í starfi sínu í Vogaskóla að standa við innganginn þegar börnin mættu á morgnana og bjóða góðan daginn. “Mér þótti svo mikilvægt að börnin sæju skólastjórann sinn brosmildan í upphafi dags, það gæti haft áhrif á skóladaginn þeirra,” segir þessi jákvæða kona sem horfir áhugasöm á lífið eftir miðjan aldur.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.
Viðtalið er úr safni Lifðu núna, en er endurbirt hér örlítið uppfært.