Guðrún Hólmfríð Ólafsdóttir og Hersir Oddsson byrjuðu að byggja hús í Seljahverfinu í Breiðholti árið 1976 og fluttu inn í helminginn af húsinu þremur árum síðar, eða árið 1979. Þá var ekkert í loftinu, innréttingar vantaði og engin hurð fyrir baðherberginu. Menn kipptu sér ekki upp við slíkt fyrir 40 árum. Þau byggðu ekki stórt, íbúðin ásamt bílskúr er um 200 fermetrar. „Við byggðum skynsamlega, ekki of stórt og erum á einni hæð“, segja þau „ Nágrannarnir sem byggðu miklu stærra, hafa kvatt okkur með tárum þegar þeir fluttu í minna húsnæði“.
Horfa á Esjuna á hverjum morgni
Þau eru orðin tvö í húsinu, en eru ekki í neinum hugleiðingum að minnka við sig. „Íbúðir fyrir eldri borgara eru verðlagðar alltof hátt. Það er ferlegt að steypa sér í skuldir þegar menn eru komnir á þennan aldur“, segir Hersir. „Þó við seldum hér og færum í minna húsnæði fyrir eldri borgara, fengjum við ekkert á milli“. Þau eru mjög ánægð í húsinu sínu og hafa „stærsta málverkið í Reykjavík“, út um borðstofugluggann. „Það fyrsta sem við gerum á morgnana er að horfa á Esjuna og sjá hvernig hún lítur út“, segir Guðrún.
Taka Austurlandið í sumar
Þau Guðrún og Hersir eru bæði komin á eftirlaun, en Guðrún var sjúkraliði á Borgarspítalanum en Hersir sem er tæknifræðingur var lengst af framkvæmdastjóri Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar. Þau segja að það sé yndislegt að vera hætt á vinnumarkaðinum. Þau vinna í garðinum á sumrin og þegar tíðindamaður Lifðu núna leit við hjá þeim, voru þau að undirbúa ferðalag með hjólhýsi út á land. Þau voru að koma fyrir hjólagrind, til að geta tekið reiðhjólin með sér. Þau hafa ferðast mikið um landið og ætla að taka Austurlandið í sumar. „Það eru fáir staðir á landinu sem við höfum ekki komið á“, segja þau. „Við stunduðum fjallgöngur hér áður fyrr en höfum dregið úr því, við höfum farið töluvert um hálendið“.
Hugsuðu sér að búa í húsinu til æviloka
Þegar Guðrún og Hersir fluttu í Seljahverfið var stundum mikil ófærð þar á veturna, en það breyttist þegar byggðin varð meiri og gróðurinn óx. Hersir segir að það sé ekki „alvont“ að eldast á Íslandi. Þau hafi ferðast mikið um Norðurlöndin, Bretland, Bandaríkin og Asíu. „Það er hvergi betra að vera en á Íslandi, húsnæði er til dæmis betra hér en á mörgum öðrum stöðum. Það er heilmikið atriði að vera ánægður, maður getur verið óánægður ef maður vill hafa þann háttinn á“, segir hann. Það hefur orðið töluverð endurnýjun í húsunum í kringum þau. „Við hugsuðum okkur frá byrjun að við myndum búa hér til æviloka og höfðum hurðaropin til dæmis það stór að það væri hægt að búa hér í hjólastól“, segir Guðrún. „Við förum ekkert fyrr en við verðum borin út lárétt“.
Greinin birtist áður hér á vefnum í júní 2016