Gaman saman í fríi

Það færist í vöxt að fjölskyldan ferðist saman. Foreldrar, börn, afi og amma. Fyrir fjölskyldur þar sem allir eru önnum kafnir er þetta sérlega góð leið til að tengjast. Sama hvaða ferðamáti er valinn eða hvert haldið er.

 Það er gaman að sjá og upplifa hlutina í gegnum augu barnabarnanna. Skoða með þeim frægar byggingar, fara með þeim á ströndina í útlöndum eða í tjaldútilegu upp á hálendi Íslands. Því er hins vegar ekki að neita að sumir áfangastaðir eru fjölskylduvænni en aðrir segir grein á vefnum Orbitz.com.

Þar segir að Orlando sé fullkominn áfangastaður fyrir fjölskyldur í fríi. Þar er að finna góðar strendur, skemmtigarða, sundlaugagarða og svo framvegis. Í sömu grein segir að það sé sérlega gott að eyða tíma út í náttúrunni með barnabörnunum. Þá geta afi og amma sagt börnunum frá merkilegum stöðum, kennt þeim að þekkja plöntur, vaða ár og læki. Í leiðinni geta þau deilt minningum frá þeirra eigin æsku. Reynið bara að vera skapandi farið  með barnabörnunum í fuglaskoðun, gönguferðir, tjaldferðir, veiðiferðir það er fátt sem styrkir böndin jafn mikið og skapar jafndýrmætar minningar.

 Það getur líka verið afslappandi og áhyggjulaust fyrir fyrir alla fjölskylduna að eyða fríinu á skemmtiferðaskipi. Í flestum tilvikum er allt innifalið ef farið er í siglingu og það er boðið upp á afþreyingu fyrir alla aldurshópa. Á stóru skemmtiferðaskipi er hægt að fara í keilu, rúlluskauta, líkamsrækt eða nánast allt sem hugurinn girnist. En það er líka hægt að taka því rólega og spila á spil, fara í bíó eða leiksýningu. Svo þarf enginn að hafa áhyggjur af eldamennsku eða hvað eigi að vera í matinn. Sumum finnst þetta hið fullkomna fjölskyldufrí segir á Orbitz.com.

Ritstjórn júlí 2, 2019 07:18